Óbreyttir vextir fram yfir kosningar

Óbreyttir vextir fram yfir kosningar

Miðvikudaginn 4. október nk. tilkynnir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands um vaxtaákvörðun sína og spáum við óbreyttum stýrivöxtum. Meginvextir verða því sem fyrr 4,5%. Verðbólga er enn vel undir markmiði og mælist 1,4%. Ýmis teikn eru á lofti um að hún verði áfram lítil næstu mánuði m.a. vegna hægari húsnæðisverðshækkana. Sökum þess og minni hagvaxtar virðist sem vextir Seðlabankans gætu lækkað lítillega á næstu mánuðum. Aftur á móti eru raunstýrivextir enn á svipuðum stað og peningastefnunefnd telur ákjósanlegt miðað við stöðuna í hagsveiflunni, og þá er óvissa um aðhald ríkisfjármála á næsta ári eftir ríkisstjórnarslit. Við teljum því líklegast að peningastefnunefndin sitji á sér með frekari vaxtalækkanir og bíði a.m.k. þar til betri mynd fæst á ríkisfjármálin og þróun kjarasamninga.

 
 
 
 
 
 
 
 
Þangað til í gærmorgun töldum við þann möguleika fyrir hendi að peningastefnunefnd myndi íhuga að hækka vexti, sérstaklega ef verðbólga myndi aukast í september og vera yfir væntingum greiningaraðila. Annað kom á daginn og var verðbólga í september minni en spáð var og lækkaði ársverðbólgan úr 1,7% í 1,4%. Því teljum við nánast útilokað að vextir hækki að þessu sinni. Raunstýrivextir hafa vegið þungt þegar nefndin hefur fært rök fyrir síðustu vaxtalækkunum. Meðaltal mismunandi mælikvarða á aðhaldi peningastefnunnar hefur nær staðið í stað milli funda og mælast raunstýrivextir 2,3% út frá þeim, en þó ber að taka fram að ekki liggja fyrir opinberlega nýjar kannanir á verðbólguvæntingum eða ný verðbólguspá Seðlabankans. Þar sem verðbólga er enn lítil og fremur að hægja á í hagkerfinu heldur en hitt, sem ef eitthvað er kallar á lægri raunstýrivexti, myndi það skjóta skökku ef vextir yrðu hækkaðir.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka.

Síðasta fundargerð var frekar tómlegur konfektkassi

Um fundargerð peningastefnunefndar í maí sögðum við að hún hefði verið eins og stútfullur konfektkassi sökum þess að þar kom óvenju margt nýtt og áhugavert fram. Síðasta fundargerð var á hinn bóginn frekar tíðindalítil og mikið til fjallað um það sama og í síðustu fundargerðum. Nefndarmenn horfðu t.a.m. sérstaklega til þess að bilið milli undirliða verðbólgu hafði haldið áfram að aukast. Síðan þá liggja fyrir tvær nýjar verðbólgumælingar og í báðum tilfellum hefur dregið úr þessum mun, einkum vegna þess að dregið hefur úr hækkunartakti húsnæðis. Einn nefndarmaður peningastefnunefndar hefði kosið að lækka vexti í ágúst sökum þess að verðbólgan nú er alfarið drifin áfram af hækkun húsnæðisverðs. Sá aðili hefur væntanlega styrkst enn frekar í sinni skoðun sinni í gær þegar nýjar verðbólgutölur voru birtar þar sem verðhjöðnun án húsnæðis er 3,1%. Jafnvel má velta því fyrir sér hvort fleiri nefndarmenn horfi til þess þar sem hækkunartaktur húsnæðis hefur lækkað og gengisveiking sumarsins virðist hafa haft lítil áhrif á verðbólgu. Nokkuð auðvelt er að teikna upp þá sviðsmynd að krónan haldist á svipuðum slóðum á sama tíma og hægir verulega á húsnæðisverði, sem myndi leiða til verðbólgu áfram undir markmiði og því svigrúms til frekari vaxtalækkana.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Rök nefndarmanna með og á móti vaxtalækkun voru af svipuðum meiði og í töflunni hér í byrjun. Að mati nefndarmanna kallar spenna í þjóðarbúskapnum á peningalegt aðhald en þó minna en áður þar sem farið er að hægja á í hagkerfinu. Minni aðhaldsþörf birtist í því að nefndin ákvað að halda vöxtum óbreyttum síðast þó að slaknað hefði lítillega á taumhaldi peningastefnunnar með hækkun verðbólguvæntinga. Líklegt er að nefndin muni vera á svipaðri skoðun, en jafnvel frekar í þá átt að það sé að hægja meira á en Seðlabankinn spáir, þar sem hagvöxtur á fyrri helmingi ársins var 4,3% og undir okkar væntingum, en nýjustu spár Seðlabankans og Greiningardeildar eru mjög áþekkar.

Nefndarmenn fjölluðu einnig sérstaklega um óvissu vegna kjarasamninga, húsnæðismarkaðar og hægari útflutningsvaxtar, einkum vegna ferðaþjónustu. Þessi óvissa er að mestu enn til staðar, en þó bera áætlanir flugfélaga og ISAVIA með sér að áfram verði vöxtur í ferðaþjónustu þó hægi á, eins og fjallað var um í Ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar. Í fundargerðinni er aftur á móti ekkert minnst á aðhald ríkisfjármála en þar hefur stór óvissuþáttur bæst við þar sem ríkisstjórnin er fallin, boðað hefur verið til kosninga og alls óvíst hvernig ríkisfjármálin munu líta út á næsta ári. Stjórnarslitin leiddu meðal annars til þess að langtímaverðbólguálag hækkaði um 0,4 prósentustig á einum degi, sem líklega má rekja til vaxandi óvissu. Líklegt er að þetta atriði vegi þungt í því að halda vöxtum óbreyttum þar til betri mynd kemst á ríkisfjármálin.

Fyrir utan það sem snýr beint að stýrivaxtaákvörðunum er tvennt sem vakti sérstaka athygli í fundargerðinni að þessu sinni. Í fyrsta lagi að Seðlabankinn sé að vinna að því að endurskoða fjárstreymistækið en eins og við fjölluðum um í ágúst og seðlabankastjóri benti á skömmu áður hefur skapast grundvöllur fyrir því að slaka á innflæðishöftum. Forvitnilegt verður að vita hvort slíkra breytinga sé að vænta á næstunni. Í öðru lagi kom fram að Seðlabankinn vinni að greiningu á gjaldeyrismarkaðinum á árinu. Það er að okkar mati gott framtak þar sem allar upplýsingar um verðmyndun myntarinnar sem við fáum flest greitt í eru gríðarlega mikilvægar og ekki vanþörf á að auka þekkingu á þeim þáttum sem hafa verið að hreyfa krónuna. Vonandi verða niðurstöður úr þeirri greiningu birtar við fyrsta tækifæri.

Hægari húsnæðisverðshækkanir gætu skapað svigrúm til vaxtalækkunar/lækkana

Í nokkurn tíma höfum við velt því upp hvort að vísbendingar séu um hægja sé á húsnæðisverðshækkunum eftir gríðarlegar hækkanir síðustu misseri. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst að slíkar hækkanir séu ósjálfbærar til lengdar, en einnig sjást vísbendingar um að markaðurinn sé að vissu leyti að nálgast meira jafnvægi þar sem íbúðum til sölu fjölgar nánast dag frá degi og ásett verð íbúða hefur lítið breyst frá því í vor, og raunar lækkað í fjölbýli. Enn er óvissa um hversu mikil þessi áhrif munu vera á markaðinn á næstunni og enn er ekki að sjá að sérbýli sé að gefa eftir þó að hægt hafi greinilega á hækkunum fjölbýlis. Engu að síður erum við nokkuð sannfærð um það að húsnæðisverðshækkanir verði minni næstu 12 mánuði heldur en síðustu 12 mánuði sem ætti að draga úr verðbólguþrýstingi. Hversu mikið verður tíminn að leiða í ljós.

Heimildir: Vísir.is, Seðlabanki Íslands, Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Er krónan í grennd við langtímajafnvægi?

Í nóvember í fyrra gerðum við að því skóna að raungengi krónunnar væri mögulega um 8-10% yfir því sem getur staðist til langs tíma. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Viðskiptaafgangur reyndist meiri en við höfðum þá áætlað, erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað enn frekar, framleiðni jókst mikið í fyrra o.s.frv. sem allt bendir til hærra jafnvægisraungengis en áætlað var þá. Þá er nafngengi krónunnar miðað við gengisvísitölu nánast það sama og þá eða 0,4% veikara. Með þetta tvennt í huga má því leiða líkur að því að gengi krónunnar í dag sé í ágætu samræmi við það sem stenst til lengri tíma og að gengisveiking sumarsins hafi að hluta verið leiðrétting vegna ofriss gengisins í vor.

Um þetta ríkir þó mikil óvissa eins og söguleg gengisþróun sýnir glögglega. Það er heldur ekki þar með sagt að gengi krónunnar geti ekki haldið áfram að sveiflast mikið, enda ræðst gengisþróun krónunnar til skemmri tíma frekar af fjármagnsflæði og væntingum heldur en undirliggjandi grunnþáttum. Í því samhengi má þó minnast á að dregið hefur úr flökti á gengi krónunnar síðustu vikur og er það í augnablikinu litlu meira en gengur og gerist meðal annarra fljótandi mynta. Haldist krónan á svipuðum slóðum, eða styrkist, og sveiflist a.m.k. ekki meira en vanalega, á sama tíma og hægir á húsnæðismarkaðnum, er líklegt að vextir lækki lítillega á næstunni. Reynslan kennir okkur þó að fljótt skipast veður í lofti.

Heimildir: Bloomberg, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.