Óvænt vaxtalækkun - lágvaxtalandið Ísland?

Óvænt vaxtalækkun - lágvaxtalandið Ísland?

Peningastefnunefnd Seðlabankans kom flestum í opna skjöldu í morgun þegar hún ákvað að lækka vexti um 0,25 prósentustig og verða meginvextir bankans því 4,25%. Við, og aðrir greiningaraðilar, höfðum spáð óbreyttum vöxtum, þó að ýmis rök hnigu að því að lækka vexti á komandi mánuðum. Helstu rökin fyrir óbreyttum vöxtum voru lækkandi raunvaxtastig, eða aðhaldsstig peningastefnunnar, og stóraukin óvissa um opinber fjármál og stjórnmálin í heild. Svo virðist sem peningastefnunefnd horfi talsvert öðruvísi á málið því ótvírætt er að hún telur þörf á minna aðhaldsstigi strax, en það hefur lækkað um eitt prósentustig frá því í maí í fyrra. Þá er ekki vikið orði að opinberum fjármálum yfirlýsingu nefndarinnar, sem vægast sagt skýtur skökku við m.v. orðræðu nefndarinnar við svipaðar aðstæður í nóvember í fyrra. Í staðinn rökstyður nefndin vaxtalækkunina með því að verðbólga sé lítil, eða 1,4%, og að vísbendingar séu um að farið sé að hægja á í þjóðarbúskapnum. Miðað við hversu mikið aðhaldsstig peningastefnunnar hefur lækkað milli funda túlkum við skilaboðin sem svo að sýn nefndarinnar á efnahagshorfurnar hafi versnað. Að vísu er „versnað“ að vissu leyti óheppilegt orð, því eins og bent var réttilega á á kynningarfundi í kjölfar ákvörðunarinnar að þá er jákvætt að hagkerfið sé að nálgast hagvöxt og ástand sem getur staðist til lengdar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Stjórnmálaóvissa lykilþáttur í fyrra – óverulegur í ár

Yfirlýsing peningastefnunefndar var einstaklega stutt að þessu sinni og einungis 185 orð. Því er kannski meira fréttnæmt hvað stóð ekki í henni og þar standa stjórnarslit og komandi kosningar upp úr. Á kynningarfundi kom fram að staðan í stjórnmálunum hafi verið rædd, en erfitt er að túlka það öðruvísi en að það hafi verið talið lítilvægt. Lengi vel hefur gagnrýni og ábendingar um skort á aðhaldi ríkisfjármála o.s.frv. verið eins og rauður þráður í orðum peningastefnunefndar. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að finna gott dæmi um það eða til nóvember í fyrra þegar rétt eins og nú var mikil óvissa um ríkisstjórn og aðhald ríkisfjármála: „Ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta vexti er tekin með hliðsjón af fyrirliggjandi spá og áhættumati nefndarinnar. Má þar sérstaklega nefna óvissu um stefnuna í ríkisfjármálum, en aðhald hennar hefur slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og óljóst er á þessu stigi hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verður.“

Hvers vegna orð á við þessi voru ekki verið notuð nú þegar óvissan er síst minni en í kjölfar kosninga í fyrra er erfitt að segja. Mögulega lítur nefndin til þess að þrátt fyrir allt hafi tekist ágætlega við gerð fjárlaga án ríkisstjórnar í fyrra og því hafi tiltrú hennar á stjórnmálamönnum aukist. Einnig er mögulegt að nefndinni þyki þessi atriði einfaldlega ekki eins mikilvæg og áður fyrr og önnur atriði vegi þyngra. Í þessu virðist felast nokkur stefnubreyting að okkar mati og er það umhugsunarvert því ríkisfjármálin og peningastefnan ættu að ganga í takt. Seðlabankinn á ekki að hika við að benda á það ef hann óttast að svo verði ekki.

Skammvinn áhrif krónu á verðbólguvæntingar? Ekki alveg

Annað sem vakti sérstaka athygli okkar í yfirlýsingu peningastefnunefndar var: „Gengissveiflur undanfarinna mánaða hafa haft tiltölulega lítil áhrif á verðbólgu og skammvinn áhrif á verðbólguvæntingar. Eins og sést glögglega á myndinni hér að neðan tóku verðbólguvæntingar að hækka nær jafnt og þétt eftir að gengi krónunnar tók að veikjast í júní, hvort sem horft er til spurningakannana eða verðbólguálags á markaði. Hækkunin er misjöfn eftir mælikvörðum en nemur allt að 1,3 prósentustigum á innan við þremur mánuðum. Vegna þessa virðist sem nefndin hafi aðeins hlaupið á sig í að tala um skammvinn áhrif á verðbólguvæntingar, því þau eru eru greinileg og hafa ekki gengið til baka. Hitt er svo annað mál að mögulega hefði mátt búast við sterkari áhrifum á verðbólguvæntingar og greinilegt er að gengisveiking sumarsins hefur hingað til haft fremur lítil áhrif á verðbólgu.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Virðist sem peningastefnunefnd telji að hagkerfið sé að kólna hraðar

Þriðja atriðið sem sérstaklega vekur athygli okkar er áherslan á að það sé að hægja á í hagkerfinu, hvort sem horft er til yfirlýsingar peningastefnunefndar eða þess sem kom fram á kynningarfundi í morgun. Eins og sést á efstu myndinni hér að ofan virðist sem peningastefnunefnd telji þörf á lítillega minna peningalegu aðhaldi nú heldur en í ágúst, sem felur þá líklega í sér að horft sé á enn minni spennu í hagkerfinu á næstunni. Í yfirlýsingunni er hægari gangur í ferðaþjónustu m.a. tiltekinn, en að okkar mati hefur lítið breyst í þá veru frá því í ágúst. Því til viðbótar nefndi seðlabankastjóri að hægja sé á fasteignamarkaði og tekið sé að draga úr spennu á vinnumarkaði. Einnig má sjá að væntingar bæði heimila og fyrirtækja hafa sigið niður á við undanfarið, sem gefur fyrirheit um minni spennu í hagkerfinu. Haldi þessi þróun áfram á sama tíma og krónan helst stöðug o.s.frv. gæti myndast svigrúm til frekari en lítilsháttar vaxtalækkana á næstu mánuðum.

Heimild: Hagvísar Seðlabanka Íslands

Er Ísland að verða lágvaxtaland?

Það þarf engan snilling til að lesa það á milli línanna að peningastefnunefnd er í vaxtalækkunarferli þó að nefndarmenn og yfirlýsingin segi það ekki beint. Nóg er að horfa til þess að vextir hafa lækkað um 1,5 prósentustig á 13 mánuðum í miðri efnahagsuppsveiflu. Líkt og áður kom fram bjuggumst við við óbreyttum vöxtum og það er að nokkru leyti út úr karakter peningastefnunefndar að lækka vexti nú þegar nýr og mikill óvissuþáttur er kominn upp á sama tíma og ekkert sérstakt kallar á að lækka vexti einmitt núna. Því veltum við því fyrir okkur hvort hér sé á ferðinni einlægur vilji nefndarmanna til þess að lækka vexti eða að nefndin hafi styrkst enn frekar í sinni skoðun á að talsverð lækkun raunvaxtastigs sé komin til að vera? Líklegra er að hið síðarnefnda sé tilfellið.

Greinilegt er að raunvextir hafa farið lækkandi á Íslandi, hvort sem horft er til verðtryggðra ríkisbréfa, íbúðalána eða Seðlabankans. Þá fjallaði Greiningardeild um það fyrir tæpu ári síðan að margt benti til þess að það myndi gerast á næstu árum. Um hversu mikið þeir munu lækka ríkir óvissa, en ef við horfum til Taylor-reglu um stýrivexti og nýjustu spár Seðlabankans má leiða líkum að því að peningastefnunefnd horfi til þess að jafnvægisraunvextir séu jafnvel 1%. Það er mikil breyting því jafnvægisraunvextir eru metnir 3% í efnahagsspá Seðlabankans. Það sem meira er, þá virðist sem vaxtalækkunin nú sé jafnvel ótímabær strax þó að gert sé ráð fyrir að jafnvægisraunvextirnir séu 1%. Þó ber að taka fram að verðbólguhorfur kunna að hafa batnað auk þess sem líklega er horft til minni framleiðsluspennu en hér að neðan sem kallar á lægri vexti.

En hvert fara þá vextirnir ef jafnvægisraunvextirnir eru 1%? Um það er erfitt að spá þó er hægt að teikna upp þá sviðsmynd að ef verðbólga verður við markmið eða um 2,5% og hagkerfið í góðu jafnvægi, þ.e. er hvorki spenna né slaki, er mögulegt að stýrivextir stefni nálægt 3,5%. Verði það raunin hefur orðið grundvallarbreyting og erfitt að tala um Ísland sem hávaxtaland. „Ef-in“ eru þó enn mörg og margt gæti gerst á þeirri vegferð.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.