Laun og verðbólga - í pásu, ekki hætt saman

Laun og verðbólga - í pásu, ekki hætt saman

Orðaforða má skipta í tvennt, virkan og óvirkan orðaforða. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir en ætla má að meðal Íslendingurinn ráði yfir 75.000 orða virkum orðaforða, þó 400-800 orð nægi til að halda uppi almennum samræðum. Í ljósi þjóðfélagsumræðunnar síðastliðna mánuði og misseri verður að teljast líklegt að orð á borð við launahækkanir, kjarasamningar og kaupmáttaraukning hafi komið sér kyrfilega fyrir í virkum orðaforða landsmanna. Þann 31. ágúst sl. losnuðu 29 kjarasamningar, en alls losna 37 samningar á seinni hluta ársins. Samningsviðræðurnar í ár munu að einhverju leyti setja tóninn fyrir samningslotu næsta árs, en þá losna 78 kjarasamningar, og því nauðsynlegt að vandað verði til verks. Eins og viðbrögð við t.d. úrskurðum kjararáðs sýna þá er enginn eyland í þessum málum og t.a.m. ótækt að stjórnendur hjá hinu opinbera séu leiðandi í launaþróun í landinu.

Árið 2015 litaðist talsvert af verkföllum og kjaradeilum á íslenskum vinnumarkaði. Alls boðuðu 54 hópar verkföll og 57 kjaradeilur komu á borð Ríkissáttasemjara. Samið var um ríflegar launahækkanir, vel umfram spár um framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans, og væntu flestir, þar með talið við, að verðbólguskot myndi fylgja í kjölfarið og éta upp kaupmáttaraukninguna. Raunin varð önnur og hefur kaupmáttur sjaldan, ef einhvern tíma, aukist jafn mikið og í fyrra.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem laun á Íslandi hafa hækkað hratt en frá árinu 1990 hafa laun hækkað um 6,5% að jafnaði á ári, samanborið við 3-4% á öðrum Norðurlöndum. Þrátt fyrir það hefur kaupmáttur Íslendinga ekki aukist meira en meðal nágrannaþjóða okkar að jafnaði, enda hefur gengið brösulega að koma böndum á verðbólguna – þar til núna. Ef borin eru saman síðustu tvö hagvaxtarskeið má sjá að nafnlaunahækkanir hafa verið svipaðar, og meira að segja nokkuð meiri á árunum fyrir fjármákreppu. Hinsvegar hefur kaupmáttur aukist talsvert meira á þessu hagvaxtarskeiði og launahækkanirnar því skilað sér í auknum mæli í vasa launþega sem raunveruleg kjarabót.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kaupmáttur hefur vaxið um 19% frá janúar 2015 en enn meira ef horft er á aðra mælikvarða en vísitölu neysluverðs. Ef húsnæðisliðurinn, sem undanfarið hefur drifið verðbólguna áfram, er undanskilinn þá hefur kaupmáttur launa aukist um 27% frá ársbyrjun 2015. Í raun skiptir ekki máli við hvaða undirliði vísitölunnar er miðað við, kaupmáttur hefur aukist þvert á línuna, þó bersýnilega minnst þegar miðað er við húsnæðisliðinn (0,2%). Þannig fá launþegar að jafnaði t.d. meiri mat, fleiri húsgögn, fleiri utanlandsferðir og geta sent fleiri „snöpp“ fyrir launin sín en þeir gátu í janúar 2015 .

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Samspil launa og verðbólgu

Launahækkanir, verðbólguskot og minni kaupmáttaraukning en lagt var upp með. Þetta er hringrás sem ætti að vera Íslendingum vel kunn, enda hafa laun ítrekað hækkað umfram það sem samræmist framleiðnivexti. Ef laun hækka meira en það sem samsvarar verðmætaaukningu, eða framleiðni, þá þýðir það að launakostnaður á framleidda einingu hækkar – það er dýrara að framleiða eina einingu en áður að öðru óbreyttu. Í þessu samhengi er gjarnan talað um launaverðbólgu en hún leiðir nær alltaf til hækkunar verðlags.

Síðast gerðist þetta árið 2011, en þá var samið um almenna launahækkun upp á 11,4% fyrir samningstímabilið, sem var þrjú ár. Í kjölfarið tók verðbólga að stíga á ný, eftir örstutt stopp undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og var komin yfir 6% í ársbyrjun 2012. Kostnaðarrammi SALEK samkomulagsins er 32% hækkun launa frá nóvember 2013 til ársloka 2018, sem er mun meiri hækkun en kjarasamningarnir frá 2011 hljóðuðu upp á. Þrátt fyrir það hefur verðbólga haldist lítil undanfarin ár. Þá er ekki von nema að maður spyrji sig, „this time is different“?

Heimild: Hagstofa Íslands

Hverjar eru líkurnar á því að vinna aftur í lottóinu?

Það mætti segja að Íslendingar hafi unnið stóra vinninginn (eitthvað sem fáir sáu fyrir, við þar á meðal, enda líkurnar á því að vinna í Euro-Jackpot 1 á móti 95.344.200 svo dæmi sé tekið); launahækkanirnar hafa ekki skilað sér út í verðlagið, atvinnuþátttakan hefur sjaldan verið meiri og á sama tíma hafa vextir lækkað. Það þýðir þó ekki að hægt sé að endurtaka leikinn, enda voru aðstæður um margt óvenjulegar og fleiri þættir en íslensk ákveðni er lögðu hönd á plóg og hlupu undir bagga með innlendum fyrirtækjum þegar mest á reyndi.

  • Nær fordæmalaus viðskiptakjarabati skapaði svigrúm til að mæta vaxandi launakostnaði. Viðskiptakjarabatann mátti að miklu leyti rekja til mikilla verðlækkana á olíu og hrávörum á alþjóðmörkuðum en einnig hækkaði verð sjávarafurða, mælt í erlendum gjaldmiðlum. Með öðrum orðum var hægt að kaupa meira magn af innflutningi en áður fyrir sama magn af útflutningi.
  • Krónan hefur styrkst hratt síðastliðin ár, eða um tæp 24% frá nóvember 2013, sem er upphafspunktur kostnaðarramma SALEK samkomulagins. Sterkari króna samfara lítilli verðbólgu í okkar helstu viðskiptalöndum hefur leitt til þess að innfluttar vörur hafa lækkað mjög í verði og þar með aðfangakostnaður innlendra fyrirtækja.
  • Samkeppni hefur harðnað mjög, einkum eftir komu stórra alþjóðlegra fyrirtækja inn á innlendan markað og með vaxandi netverslun. Harðari samkeppni veitir fyrirtækjum aukið aðhald og takmarkar möguleikana á að velta launahækkunum út í verðlagið, vilji þau ekki verða undir í samkeppni.
  • Í kjölfar fjármálakreppunnar lækkuðu raunlaun á meðan framleiðni hélst nokkurn veginn óbreytt svo svigrúm til launahækkana skapaðist eftir að hagkerfið tók við sér. Þá mældist óvenju mikill framleiðnivöxtur í fyrra, eða um 4,1%, sem gerði það að verkum að launakostnaður á framleidda einingu jókst ekki í takt við launahækkanirnar. Það, ásamt lægri aðfangakostnaði, útskýrir meðal annars af hverju launahlutfallið hefur ekki klifrað hærra en raun ber vitni.
  • Síðast en alls ekki síst er það gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustu, sem fáir sáu fyrir að yrði jafn mikill á árunum 2015-2017 og raunin hefur orðið. Í september 2014 spáðum við því t.d. að ferðamenn í ár myndu verða 1,3 milljónir en raunin verður líklega nær 2,2 milljónum. Þessi fordæmalausi vöxtur ferðaþjónustu hefur skapað fjölda nýrra starfa sem komu til móts við hagræðingaraðgerðir í kjölfar síðustu kjarasamninga. Þá er ferðaþjónustan stærsta einstaka ástæða hagvaxtar, styrkingar krónunnar og líklega framleiðnivaxtar síðustu ára.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Spá Seðlabanka Íslands. ** Spá Greiningardeildar Arion banka. *** Áætlun Greiningardeildar Arion banka.

Það er alls kostar óvíst, og hreint út sagt ólíklegt, að við verðum jafn heppin aftur. Álíka viðskiptakjarabati er ekki í kortunum, en samkvæmt spá Seðlabankans er útlit fyrir að viðskiptakjör batni nokkuð á árinu en verði nær óbreytt næstu tvö ár. Þá hefur nú þegar færst það mikil harka í samkeppni á smásölumarkaði að óvíst er hversu mikið aðhald hún muni veita, enda er geta fyrirtækja til að taka á sig frekari launahækkanir óveruleg. Ef launakostnaður hækkar verulega má ætla að ef honum verður ekki velt út í verðlagið muni hann birtast í auknu atvinnuleysi og/eða skemmri vinnutíma.

Það sem skiptir einna mestu máli er að ekki er hægt að reiða sig á áframhaldandi styrkingu krónunnar. Gengi krónunnar, þrátt fyrir óvænta veikingu í sumar, er ennþá mjög sterkt og raungengið sögulega mjög hátt. Ein helsta ástæða þess að krónan á aðeins inni litla ef einhverja styrkingu er að mesti vöxturinn í ferðaþjónustu er líklega liðinn, eins og kom fram í Ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar. Loks er útlit fyrir hægari og „eðlilegri“ hagvöxt á næstu árum sem dregur einnig úr svigrúmi til launahækkana.

Launahækkanir undanfarinna ára samhliða talsverðri gengisstyrkingu hafa gert það að verkum að laun á Íslandi eru með því allra hæsta sem gerist, líkt og sést á myndinni hér að neðan. Á sama tíma er framleiðni hér á landi áþekk meðaltali OECD landanna, sem grefur verulega undan samkeppnishæfni landsins. Verði hækkun launakostnaðar langt umfram framleiðnivöxt verður eitthvað undan að gefa, sem í íslenskri hagsögu hefur yfirleitt þýtt gengisfall með tilheyrandi verðbólguskoti.

Ísland er í góðri stöðu um þessar mundir; það er góður gangur í hagkerfinu, atvinnuleysi er lítið, skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað hratt og kaupmáttur hefur vaxið. Það er mikilvægt fyrir þjóðarbúið í heild sinni að næstu skref verði vel ígrunduð og reynt að standa vörð um kaupmáttinn í stað þess að festast aftur í sama gamla hjólfari víxlverkunar launa og verðlags.

Heimildir: OECD, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Áætlun Greiningardeildar út frá þróun launavísitölu og miðað við gengi þann 2. október 2017.