Spáum 0,3% hækkun verðlags í október

Spáum 0,3% hækkun verðlags í október

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% milli mánaða í október, sem er lítið eitt meiri verðbólga en við gerðum ráð fyrir í síðustu skammtímaspá okkar. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til húsnæðisverðs, en í síðasta mánuði hækkaði einkum sérbýli á höfuðborgarsvæðinu talsvert í verði, og vel umfram væntingar okkar, og knúði verðbólguna áfram. Við spáum því að í október verði það flugfargjöld, matarkarfan og húsnæðisliðurinn sem munu drífa verðbólguna áfram á meðan aðrir liðir breytist lítillega. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,7%.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum að verðlag hækki um 0,10% í nóvember, hækki um 0,25% í desember og lækki um 0,50% í janúar. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 2,0% í janúar.

Enn hækkar verð á sérbýli

Eftir rólegan ágústmánuð tók húsnæðisliðurinn tók aðeins við sér í september og hækkaði reiknuð húsaleiga um 1,21% milli mánaða, sem þýddi að árstakturinn lækkaði úr 22,9% í 20,4%. Það voru einkum verðhækkanir á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu ásamt verðhækkunum utan höfuðborgarsvæðisins sem drifu verðbólgu áfram.

Verulega hefur hægt á hækkunum íbúðaverðs að undanförnu og hefur vísitala íbúðaverðs einungis hækkað um 1,3% frá því í júní. Þá hefur auglýstum fasteignum til sölu fjölgað statt og stöðugt frá mars síðastliðnum. Við teljum að hægja sé á húsnæðisverðshækkunum, allavega í bili, og spáum 0,55% hækkun húsnæðisverðs í október. Við teljum líklegt að verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækki milli mánaða en að verð fjölbýlis standi nær í stað. Erfiðara er að spá fyrir um verðbreytingar utan höfuðborgarsvæðisins, enda liðurinn sveiflukenndur vegna fárra samninga og fjölbreyttra eigna. Gangi spá okkar eftir verður árstaktur fasteignaverðs á landinu öllu komin í 19,8% í október.

Við fjölluðum nýlega um þróun íbúðaverðs í Markaðspunkti. Þar bentum við á að hækkun íbúðaverðs hefur verið úr takti við marga undirliggjandi þætti, s.s. laun og byggingarkostnað, og teljum við þess vegna að innstæðan fyrir áframhaldandi verulegum hækkunum sé frekar lítil, allavega þegar horft er á höfuðborgarsvæðið. Talsverða hækkun ráðstöfunartekna, eða lækkun fjármagnskostnaðar, þarf til að halda uppteknum hætti í hækkun húsnæðisverðs. Nú í aðdraganda kosninga hefur fjármagnskostnaður við íbúðakaup verið nokkuð í umræðunni og sitt sýnist hverjum. Ekki liggur fyrir hvort breytingar verði gerðar á reglum varðandi fjármögnun húsnæðiskaupa en slíkar breytingar gætu haft veruleg áhrif á þróun húsnæðisverð horft fram á veginn.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Samkeppni, krónan og verð á matvöru

Aukin samkeppni hefur verið vinsælt umræðuefni undanfarna mánuði enda hefur hún vissulega haft sitt að segja hvað varðar verðlagsaðhald. Þrátt fyrir afar hóflegar verðhækkanir á fatnaði og skóm sáum við engu að síður sumarútsölur ganga til baka líkt og venjulega í september. Hinsvegar voru nettó útsöluáhrif meiri en síðustu ár, þ.e.a.s. verðlækkun vó þyngra en verðhækkun, sem bendir til aukins aðhalds. Við gerum ráð fyrir að áhrif aukinnar samkeppni muni vara áfram í október og að flestir undirliðir vísitölunnar hækki aðeins lítillega.

Þrátt fyrir aukna samkeppni gerum við ráð fyrir að matarkarfan hækki í október. Við teljum að gengisveikingin sem litaði tölurnar í ágúst sé ekki ennþá komin út í verðlagið að fullu. Við spáum 0,3% hækkun á mat og drykk milli mánaða.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Flugfarmiðinn og eldsneytið hækkar, gisting lækkar

Við spáum því að flugfargjöld til útlanda hækki í september, líkt og gjarnan gerist á þessum árstíma, og gerum við ráð fyrir 11,8% hækkun milli mánaða. Þá reiknum við með að eldsneyti hækki lítillega milli mánaða eða sem samsvarar 0,02% áhrifum á VNV.

Við teljum að verð á hótelum og veitingastöðum lækki um 0,4% milli mánaða. Við gerum ráð fyrir að veitingastaðir haldi verði nokkuð stöðugu en að verð á gistingu fari lækkandi, líkt og raunin hefur á þessum árstíma undanfarin ár. Í heildina verði verðlækkanirnar sambærilegar og í fyrra. 

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Skammtíma verðbólguhorfur

Verðbólga hefur haldist undir verðbólgumarkiði Seðlabanks í rúm þrjú ár og hafa mælingar Hagstofunnar stöðugt komið greiningaraðilum á óvart. Húsnæðisverðshækkanir hafa knúið verðbólguna áfram síðustu mánuði og misseri en ef húsnæðisliðurinn er undanskilinn hefur mælst verðhjöðnun að undanförnu, og það þrátt fyrir töluverðar launahækkanir. Þá er ekki von nema að fólk spyrji sig hvort að samspili launa og verðbólgu hafi verið kippt úr sambandi, eða hvort gengissveiflur líkt og við höfum séð að undanförnu hafi ekki lengur sömu áhrif á verðbólguna.

Við fjölluðum nýlega um samspil verðbólgu og launa í Markaðspunktinum „Laun og verðbólga – í pásu, ekki hætt saman“. Þar kom fram að íslenskur vinnumarkaður hafi haft heppnina með sér í ljósi þess að allt féll með þjóðarbúinu á sama tíma og laun hækkuðu: Viðskiptakjör bötnuðu til munu, krónan styrktist verulega, samkeppni á markaði harðnaði, framleiðni vinnuafls jókst og ferðaþjónustan hélt áfram að vaxa og dafna. Þessir þættir vógu gegn launahækkununum og leiddu til þess að þær skiluðu sér ekki út í verðlagið. Það er einkar ólíklegt að vinna stóra vinninginn tvisvar og teljum við því að og hækkun launakostnaðar vel umfram framleiðnivöxt mun líklega leiða af sér meiri verðbólgu eins og svo oft áður í Íslandssögunni.

Við teljum verðhjöðnun innfluttra vara verði þokkalega lífsseig og að húsnæðisverðhækkanir verði hófstemmdar, sem leiðir til þess að verðbólgan helst undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þetta ár. Hvernig verðbólgan þróast á næsta ári mun stýrast af ólíkum þáttum, s.s. launaþróun, framboðshlið húsnæðismarkaðarins, vaxtastigi og síðast en ekki síst opinberum fjármálum og aðgerðum komandi ríkisstjórnar t.d. á húsnæðismarkaði.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Nóvember +0,1%: Flugfargjöld lækka hressilega, húsnæðisliðurinn hækkar ásamt fötum og skóm.
  • Desember +0,25%: Flugfargjöld hækka aftur, húsnæðisliðurinn hækkar, aðrir liðir breytast lítillega.
  • Janúar -0,5%: Útsölur ganga í garð, flugfargjöld lækka en áfengi og tóbak og heilsa hækkar. 
 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka