Augljós og ekki eins augljós atriði varðandi gengi krónunnar

Augljós og ekki eins augljós atriði varðandi gengi krónunnar

Það eru mörg álitaefnin sem snúa að gengi krónunnar. Sumir vilja losna við hana, aðrir vilja halda henni. Sumir vilja fjötra hana en aðrir vilja frelsa hana, og allt þar á milli. Sumum finnst hún of sterk en öðrum of veik. Svo eru önnur álitamál sem snúa frekar að því hvernig gengi krónunnar þróast, t.d. hvort krónan sé sveiflukennd eða hvort gengisþróunin fylgi árstíðasveiflu.

Hér á eftir fer stutt umfjöllun um nokkur þessara atriða sem við teljum að skipti máli, nema um tilvist hennar því það er efni í langa og nokkuð pólitíska greiningu. Er árstíðasveifla í krónunni? Er krónan sveiflukennd? Hvaða áhrif hefur Seðlabankinn og hvaða áhrif hefur gengi evru-dollars? Hversu miklu máli skiptir raungengi krónunnar? Og loks, hvert stefnir krónan á næstu mánuðum? Þessum spurningum er vonandi að einhverju leyti svarað hér á eftir. Höfum þó þann hefðbundna fyrirvara á að gjaldmiðlar eru mikil ólíkindatól og spár um þróun þeirra og greining á hegðun þeirra eru ófullkomin vísindi.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Engin árstíðasveifla í krónunni

Oft hefur sú umræða komið upp að það sé árstíðasveifla í gengi krónunnar. Sú tilgáta byggir nú gjarnan á því að gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðaþjónustunnar er misjafnt eftir árstíðum líkt og komur ferðamanna. Áður fyrr byggði tilgátan hins vegar á vertíðum og aflabrögðum. Nokkuð einfalt er að prófa þá tilgátu tölfræðilega og höfum við gert það, bæði fyrir ársfjórðungsleg og mánaðarleg gögn, auk þess sem við prófuðum mislöng gagnasöfn. Skemmst er frá því að segja að þeirri tilgátu er auðveldlega hafnað þar sem engin tölfræðilega marktæk áhrif til styrkingar eða veikingar má finna í ákveðnum mánuðum eða á ársfjórðungum. Það eru því engin merki um árstíðasveiflu í krónunni að okkar mati.Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Það er þó sannleikskorn í tilgátunni um árstíðasveiflu því vissulega er ýmislegt í utanríkisverslun, t.d. ferðaþjónustu og sjávarútvegi, sem er árstíðabundið. Sama má segja um mikinn vöruinnflutning vikurnar fyrir jól og ferðalög landsmanna í kringum stórmót landsliða í knattspyrnu. Það er þó margt annað sem er að verki í verðmyndun krónunnar og er fjallað um hér. Fyrir utan að margt annað ráði genginu bregðast aðrir aðilar við því ef búist er við mismiklu gjaldeyrisinnflæði vegna t.d. háannar í ferðaþjónustu. Saman getur þetta tvennt þurrkað út öll árstíðaráhrif þannig að engin árstíðasveifla mælist í krónunni eins og raunin er. Það hefur orðið raunin þrátt fyrir að hömlur séu á beinni áhættutöku í krónunni.

Er krónan sveiflukenndur gjaldmiðill?

Allir þekkja söguna um sveiflukenndu krónuna. En er hún sönn? Já, allavega sögulega. Og á hún enn við? Já að mestu leyti, en það er kannski ekki eins augljóst og virðist í fyrstu. Innan hafta þegar Seðlabankinn stundaði regluleg inngrip var gengi krónunnar afar stöðugt og líkt og búast mátti við. Sveiflur jukust þegar krónan tók að styrkjast af meiri krafti og jukust enn meira þegar dró úr inngripum og höft voru losuð. Engu að síður hefur dregið úr flöktinu síðustu vikur og og er eins árs flökt á svipuðum stað og á öðrum minni myntsvæðum.

Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka. *Stærstu myntirnar eru Bandaríkjadalur, japanskt jen, breskt pund og svissneskur franki. Minni myntsvæðin eru Ástralía, Ungverjaland, Nýja-Sjáland, Suður-Afríka, Kanada og Tyrkland.

Það er ekki hér með sagt að krónan muni ætíð sveiflast álíka mikið og flestar aðrar myntir. Eðli málsins samkvæmt er hún viðkvæmari fyrir litlum breytingum vegna smæðar sinnar. Ef það reynir verulega á stöðugleika krónunnar verður fróðlegt hvort að Seðlabankinn setji puttann aftur á gikkinn á gjaldeyrismarkaði. Slíkt ástand gæti reynst nokkuð stór prófraun fyrir það fyrirkomulag peninga- og gengismála sem Ísland býr við í dag. Með gjaldeyrisforða sem samsvarar liðlega fjórðungi af vergri landsframleiðslu er geta Seðlabankans töluverð en um leið er ekki áhættulaust að beita forðanum með þessum hætti.

Seðlabankinn á hliðarlínunni en enn lítil áhrif evru-dollars á evru-krónu

Seðlabanki Íslands hefur á skömmum tíma snúist úr því að vera stórtækur í söfnun gjaldeyriforða með miklum gjaldeyrisinngripum yfir í það að taka nær ekkert þátt á millibankamarkaði með gjaldeyri. Nú eru t.d. liðnir tveir mánuðir frá síðustu gjaldeyrisinngripum Seðlabankans. Þessi þróun er að mestu í takt við opinbera stefnu, sem sé að leyfa krónunni að fljóta frjálsri en grípa inn í ef óhóflegar skammtímasveiflur myndast. Um þessa stefnu og framkvæmd hennar má deila. Það virðist þó vera ljóst að talsverða stefnubreytingu þarf svo að Seðlabankinn verði aftur stórtækur á millibankamarkaði með gjaldeyri.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Fyrir nokkrum árum fjallaði Greiningardeild um áhrif evru-dollar krossins á gengi krónunnar. Þá kom fram að breytingar á EURUSD komi að mestu fram í gengi krónu gagnvart dollar, eða um 81% breytinga. Það er nokkuð skiljanlegt þar sem millibankamarkaður með gjaldeyri er í evrum og Seðlabankinn beitti gjaldeyrisinngripum. Þar sem Seðlabankinn hefur haldið að sér höndum, höft eru farin og ýmislegt annað hefur breyst er áhugavert að sjá breytingar koma enn að mestu leyti fram í gengi krónu gagnvart dollar.


Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka.

Raungengið er kóngurinn

Það er aldrei of oft bent á mikilvægi raungengisins þegar kemur að því að leggja mat á stöðu gjaldmiðla og þar af leiðandi gengisþróun, sérstaklega til lengri tíma. Raungengið lýsir því hversu mikið vörur og þjónusta, eða vinnuafl, kosta í tilteknu landi í hlutfalli við önnur lönd. Þannig geta nafngengisbreytingar ekki einungis haft áhrif, heldur getur raungengið einnig styrkst t.d. hér á landi ef verðbólga er of mikil en á hinn bóginn veikst ef verðbólga er mikil í viðskiptalöndum. Sögulega hefur styrking raungengis krónunnar einmitt farið að mestu fram með mikilli verðbólgu hér á landi.

Skilningur á raungengi leiðir í ljós m.a. tvennt. Í fyrsta lagi er mjög langsótt að nafngengi krónu fari aftur á sömu slóðir og árið 2007 þegar bandaríkjadalur kostaði 60 krónur. Verðlag og laun á Íslandi hafa hækkað það mikið að slíkt myndi einfaldlega ekki ganga upp og gera Ísland að langdýrasta landi í heimi, með langhæstu laun í heimi. Í öðru lagi leiðir það í ljós að raungengi landa er oft nokkuð stöðugt yfir löng tímabil þó það geti sveiflast mikið til skemmri tíma. Það helsta sem getur lyft því varanlega er mikil verðmæta- og framleiðniaukning. Það kemur því varla á óvart að mörg þau ríki sem þar sem raungengi er í dag sem lengst fyrir ofan langtímameðaltal hafa séð mikinn efnahagsuppgang síðustu áratugi. Aðalatriði er að þegar fram í sækir er lykilatriðið fyrir gengi krónunnar hvernig raungengið þróast og hvort raungengið skapi ójafnvægi í hagkerfinu. Er þá mikilvægt að horfa hvort tveggja til raungengis miðað við verðlag og launakostnað.


Heimildir: BIS, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Krónan virðist í dag vera nálægt því sem stenst til lengdar

Við teljum að gengi krónunnar sé í ágætu samræmi við undirliggjandi þætti til lengri tíma. Í síðustu stýrivaxtaspá Greiningardeildar var þetta atriði gert að umfjöllunaratriði og var niðurstaðan sú að raungengi krónunnar væri í það minnsta ekki fjarri jafnvægisraungenginu, m.ö.o. að gengi krónunnar nú er í ágætu samræmi við það sem stenst til lengdar. Enda er útlit fyrir að viðskiptaafgangur verði talsverður áfram næstu misseri, sem gefur vísbendingu um að hagkerfið í heild ráði við gengi krónunnar í dag.

Þó gætu skammtímakraftar vegna viðskiptaafgangs, mikils hagvaxtar og mögulegrar losunar bindiskyldu ýtt krónunni í átt til lítilsháttar styrkingar í bráð. Bindiskylda á erlenda fjárfestingu í innlánum og skuldabréfum virðist ekki eiga jafn mikið við og áður þar sem vaxtamunur hefur minnkað talsvert. Að okkar mati er því ekkert því til fyrirstöðu að slaka bindiskyldunni og endurmeta hvort á annað borð sé þörf á henni við núverandi aðstæður. Ef bindiskyldan fer eða slakað verður á henni gæti það ýtt undir styrkingu krónunnar til skamms tíma.

Aftur á móti teljum við að ef krónan styrkist vegna þessara skammtímakrafta að þá gæti hún komið til baka á svipaðar slóðir og nú, einkum ef hægir á í hagkerfinu og viðskiptaafgangur minnkar enn frekar. Um þetta ríkir mikil óvissa enda ræðst gengi krónunnar að miklu leyti af illfyrirsjáanlegum fjármagnsflutningum. Líkt og sjá má hér að neðan er öryggisbil gengis krónunnar, að gefnu því að hvorki sé leitni til veikingar né styrkingar, nokkuð breitt.


Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka.