Staða sveitarfélaganna vænkast enn

Staða sveitarfélaganna vænkast enn

Allt frá því að fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga voru fest í lög árið 2012 hafa sveitarfélög landsins verið dugleg að greiða niður skuldir og reynt að koma á jafnvægi í rekstri. Skuldsetning var víðast hvar mikil eftir hrun og til þess að rétta úr kútnum hækkuðu flest sveitarfélög útsvar árið 2011. Þremur árum síðar var útsvar víðast hvar komið upp í hið lögbundna hámark (14,52%). Í kjölfar launahækkana árið 2014 þrengdi hins vegar verulega að rekstri sveitarfélaganna og lækkaði framlegð umtalsvert árin tvö þar á eftir. Það var ekki fyrr en þrjú stærstu sveitarfélögin; Hafnarfjörður, Kópavogur og Reykjavík, birtu árshelmingsuppgjör 2016 að fyrstu merki þess að taflið væri að snúast við tóku að birtast. Samantekt okkar á fjárhagsstöðu 28 stærstu sveitarfélaga landsins 2016 staðfesti það að taflinu hefur verið snúið við og nú þegar Hafnarfjörður, Kópavogur og Reykjavík hafa öll birt uppgjör fyrri árshelmings 2017 er útlit fyrir því að sú jákvæða þróun haldi áfram á yfirstandandi rekstrarári. Sama þróun kemur fram í Fjármálum hins opinbera á 2. ársfjórðungi, afkoma sveitarfélaganna í heild virðist fara batnandi.

Á fyrri árshelmingi 2017 jukust tekjur á föstu verðlagi að jafnaði um 7,6% hjá þremur stærstu sveitarfélögunum á meðan að gjöld jukust að jafnaði um 6,2%. Í öllum tilvikum voru tekjur umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir og var framlegðarhlutfall (EBITDA/tekjur) um og yfir 15% hjá þeim öllum. Sögulega hefur um 51-52% af skatttekjum fallið til á seinni hluta ársins á meðan að stærri hluti útgjalda hjá ákveðnum sviðum hefur fallið til á fyrri árshelmingi þannig rekstrarbatinn verður líklega öllu meiri fyrir árið í heild. Heilt yfir var rekstrarafgangur umfram áætlanir hjá öllum þremur sveitarfélögunum. 

Heimild: Árshlutauppgjör Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar, Greiningardeild Arion banka * Vöxtur gjalda var umfram tekjuvöxt í tilviki Kópavogsbæjar en það á rætur sínar að rekja til þess að gjaldfærð var lífeyrisskuldbinding í kjölfar samkomulags sveitarfélaga við ríkið sem ekki lá fyrir við gerð fjárhagsáætlunar.

Sé litið til allra sveitarfélaga landsins má sjá að þróunin hér að ofan einskorðast ekki einungis við þrjú stærstu sveitarfélögin. Hér að neðan höfum við nálgast framlegð út fram tölum Hagstofunnar um fjármál hins opinbera á öðrum ársfjórðungi.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka * Skilgreinum framlegð hér sem heildartekjur – (heildargjöld – vaxtagjöld – fjárfesting)

Viðsnúningur árið 2016

Á undanförnum árum hefur Greiningardeild tekið saman fjárhagsstöðu þeirra sveitarfélaga á landinu sem telja 1.500 íbúa og fleiri. Heildarfjöldi sveitarfélaga sem koma fyrir í samantektinni er 28 og íbúafjöldi þeirra rúmlega 315.000, eða um 93% landsmanna. Í fyrra fjölgaði sveitarfélögum í samantektinni um eitt milli ára en íbúum á Garði fjölgaði um 6% frá fyrra ári og fór yfir 1.500 íbúa múrinn. Í samantektinni horfum við til samstæðuuppgjöra, þ.e. bæði sveitarsjóð (A-hluta) og þeirra fyrirtækja, stofnana og annarra rekstrareininga sem tilheyra samstæðu sveitarfélagsins (B-hluta).

Árin 2010-2013 einkenndust af batnandi fjárhagsstöðu en líkt og áður segir var sveitarfélögum landsins gert afar erfitt fyrir árin 2014 og 2015 þegar að laun og launatengd gjöld hækkuðu verulega. Samtals hækkuðu þessir kostnaðarliðir hjá sveitarfélögunum í samantektinni um 12,1% árið 2014 og 12,7% árið 2015 og gátu sveitarfélögin, flest hver með útsvar í hámarki, illa mætt þeim kostnaðarauka, þó hærri útsvarstekjur hafi að litlu leyti vegið á móti. Niðurstaðan var veruleg lækkun á framlegð milli ára. Þó það sé ekki ekki endilega markmið í sjálfu sér að sveitarfélag skili hagnaði eða hárri framlegð þá þarf framlegð engu að síður að vera nægilega há til þess að stuðla að sjálfbærum rekstri, standa undir fjármagnsliðum og nauðsynlegri fjárfestingu. Það var því ánægjulegt að sjá hag sveitarfélaganna vænkast 2016. Eftir að hafa séð framlegð lækka tvö ár í röð þá jókst hún umtalsvert 2016 og fór yfir 15% að meðaltali hjá sveitarfélögunum 28. Í því samhengi má nefna að samkvæmt viðmiðum frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) er mælt með því að framlegð sveitarfélaga sé ekki lægri en 15%.

Heimild: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 28 stærstu sveitarfélaga landsins.

Skuldir lækka og þokast undir lögbundið viðmið

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarfélögum landsins að halda heildarskuldum og skuldbindingum undir 150% af reglulegum tekjum (skuldaviðmið). Jafnframt ber þeim að halda útgjöldum á hverju þriggja ára tímabili undir sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum (jafnvægisregla). Við útreikning á hinu svokallaða skuldaviðmiði hafa sveitarfélögin heimild til að draga frá leiguskuldbindingu frá ríkissjóði, lífeyrisskuldbindingar sem koma til greiðslu eftir 15 ár eða síðar og hreint veltufé, sé það jákvætt. Aukinheldur geta sveitarfélögin undanskilið skuldir og skuldbindingar sem hljótast af eignarhlutum þess í veitu- og/eða orkufyrirtækjum séu skuldir þeirra fyrirtækja annað hvort umfram 30% af heildarskuldum og skuldbindingum sveitarfélagsins eða heildarútgjöld þeirra umfram 15% af heildarútgjöldum samstæðu. Sveitarfélögin hafa hins vegar greint misvel frá hinu opinbera skuldaviðmiði eða þeim frádráttarbæru liðum sem liggja til grundvallar útreiknings skuldaviðmiðsins á undanförnum árum og höfum við því farið þá leið að nálgast hlutfallið með að skoða heildarskuldir að frádregnum veltufjármunum sem hlutfall af rekstrartekjum. Í fyrra birtu aftur á móti öll sveitarfélögin í samantektinni hið opinbera skuldaviðmið sem er breyting til batnaðar.

Þrátt fyrir harðnandi rekstrarumhverfi árin 2014 og 2015 héldu sveitarfélögin hægt og bítandi áfram að greiða niður skuldir. Af sveitarfélögunum 28 voru aðeins fimm þeirra yfir 150% viðmiðinu árið 2016 (á okkar mælikvarða) og þar af þrjú þeirra mjög nálægt því að fara undir viðmiðið. Við nefndum það í fyrra að miðað við þróun undanfarinna ára væri útlit fyrir að vegið meðaltal skulda sem hlutfall af tekjum færi undir 150% árið 2016. Sú varð raunin og sáum við hlutfallið fara úr 153% niður í 132%. Umtalsverð lækkun á skuldahlutfalli þriggja stærstu sveitarfélaganna vegur þar þungt, en skuldahlutfall lækkaði um 25%-stig hjá bæði Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ og stóð í árslok annars vegar í 154% en hins vegar í 157. Kópavogsbær færðist aftur á móti undir 150% þröskuldinn og lækkaði skuldahlutfall úr 161% niður í 140% í fyrra. Sé litið til hreins meðaltals hjá sveitarfélögunum í heild þá hefur hlutfallið lækkað úr 118% árið 2013 niður í 91% árið 2016. 

Heimild: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 28 stærstu sveitarfélaga landsins. Skuldaviðmið Greiningardeildar er skilgreint sem (heildarskuldir – veltufjármunir) / rekstrartekjur

Hvað hið opinbera viðmið varðar dró einnig til tíðinda í fyrra þegar bæði Kópavogur og Hafnarfjörður fóru undir 150%. Reykjavík hefur hins vegar mælst undir 150% allt frá því lögin tóku gildi þar sem skuldir Orkuveitu Reykjavíkur eru undanþegnar við útreikning hlutfallsins.

Heimild: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 28 stærstu sveitarfélaga landsins

Á fyrri árshelmingi 2017 héldu nettó vaxtaberandi skuldir (heildarskuldir að frádregnum veltufjármunum og lífeyrisskuldbindingum) áfram að lækka hjá þremur stærstu sveitarfélögunum. Mest var lækkunin hjá Reykjavíkurborg þar sem að nettó vaxtaberandi lækkuðu um tæp 14% frá áramótum. Nettó skuldir, sem við skilgreinum sem heildarskuldir að frádregnum veltufjármunum, jukust hins vegar hjá Kópavogsbæ frá árslokum 2016 um tæp 5% en þar munar mestu um lækkun veltufjármuna og hækkun lífeyrisskuldbindingar. Í greinargerð með uppgjöri Kópavogsbæjar kemur fram að auk framlags til Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) var fært til bókar áætlað framlag til lífeyrissjóðsins Brúar sem legið hefur í loftinu að myndi falla til og útskýrir það hækkun á lífeyrisskuldbindingu.

Heimild: Árshlutauppgjör Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar, Greiningardeild Arion banka

Samspil framlegðar og skulda

Það að halda framlegð yfir 15% er ekki úr lausu lofti gripið heldur er það hlutfallið sem liggur til grundvallar þess að viðhalda skuldahlutfalli í og undir 150%. Eðli máls samkvæmt þurfa sveitarfélög með hærri skuldsetningu að vera með hærri framlegð til að þess að geta mætt fjármagnsliðum. Hér að neðan má sjá hvernig framlegð og skuldaviðmið sveitarfélaganna 28 þróaðist frá 2015 til 2016 m.v. okkar skilgreiningu á skuldaviðmið. Heilt yfir batnaði framlegð hjá 20 sveitarfélögum milli ára og lækkaði skuldahlutfall hjá öllum nema tveimur. Að jafnaði var framlegð hjá sveitarfélögunum 15,3% og jókst um 3,1%-stig á milli ára á meðan að skuldaviðmið lækkaði að hreinu meðaltali um 15%-stig og var 91,2%.

Heimild: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 28 stærstu sveitarfélaga landsins

Veikleikjamerkjum fækkar verulega

Í lokin ber að nefna veikleikamerkin, en Greiningardeild hefur skilgreint 18 veikleikamerki sem snúa að fjárhags- og lýðfræðilegum þáttum sveitarfélaganna. Dæmi um þætti sem við skilgreinum sem veikleikamerki eru skuldahlutfall yfir 150%, framlegð undir 15% og fólksfækkun. Eftir að veikileikamerkjum fjölgaði árið 2015 frá fyrra ári þá varð algjör viðsnúningur í fyrra. Veikleikjamerkjum fækkaði um 80 í heild og höfum við aldrei séð jafn hraða fækkun veikleikjamerkja frá því að við byrjuðum að vinna samantektirnar 2011. Við nefndum það í fyrra að mörg sveitarfélög væru á barmi þess að losa sig við allnokkur veikleikamerki og sú varð raunin. Ef fram fer sem horfir stefnir í að þeim muni fækka aftur fyrir árið 2017.

Heimild: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 28 stærstu sveitarfélaga landsins