Dregur til tíðinda: Verðbólga hækkar og húsnæðisverð lækkar

Dregur til tíðinda: Verðbólga hækkar og húsnæðisverð lækkar

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% milli mánaða í október og hækkar ársverðbólgan þannig úr 1,4% í 1,9%. Hækkunin er nokkuð umfram spár greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0,20% til 0,30% hækkun, þar af spáðum við 0,30% hækkun milli mánaða eða 1,7% ársverðbólgu. Að þessu sinni var það matarkarfan er knúði verðbólguna áfram. Húsnæðisliðurinn hækkaði einnig en ólíkt fyrri mánuðum vó hækkun verðlags á viðgerðum og viðhaldi á húsnæði þyngst á meðan reiknuð húsaleiga lækkaði. Ekki hefur mælst lækkun á reiknaðri húsaleigu frá því í júnímánuði 2015.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Matur og drykkur hækkar hressilega

Miklar verðhækkanir voru á mat og drykk milli mánaða og nam sú hækkun 1,87%. Við töldum gengisveikingu síðustu missera ekki hafa skilað sér að fullu út í verðlag og spáðum því 0,3% hækkun á matarkörfunni í október, og kemur okkur því nokkuð á óvart hvað hún hækkaði hressilega. Allir undirliðir hækkuðu milli mánaða en mest hækkaði grænmeti, kartöflur o.fl. (4,09% milli mánaða). Aðrir undirliðir sem hækkuðu verulega voru mjólk, ostar og egg (2,72% milli mánaða), olíur og feitmeti (2,83% milli mánaða) og drykkjarvörur (2,44% milli mánaða). Það er athyglisvert að sjá að bæði innlendar og innfluttar vörur hækkuðu í verði í október, sem bendir til þess að fleira sé hér að verki en einungis gengisveikingin. Spyrja má hvort innlendur framleiðslukostnaður sé að aukast eða hvort að áhrif aukinnar samkeppni hafi farið minnkandi.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka 

 

Flestir undirliðir hækkuðu í október

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu milli mánaða, líkt og gjarnan gerist á þessum tíma árs, og nam sú hækkun 6,6%. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði um 1,69% milli mánaða og voru það sérstaklega raftæki (3,55% milli mánaða) og ýmsar vörur og þjónusta (3,49% milli mánaða) sem knúðu verðhækkanirnar áfram. Aðrar vörur og þjónusta hækkuðu um 0,88% milli mánaða, þá sérstaklega snyrtivörur (1,77% milli mánaða) og skartgripir (2,33% milli mánaða) sem hækkuðu í verði. Veitingastaðir hækkuðu einnig verðlag um 0,21% milli mánaða og hækkar liðurinn þannig um 0,88% milli mánaða, þrátt fyrir lækkun á verðlagi á gistingu (-1,55% milli mánaða).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Húsnæðisliðurinn hækkar þrátt fyrir húsnæðisverðs lækkanir

Húsnæðisliðurinn hækkaði lítillega milli mánaða, eða um 0,11%. Það vekur athygli að verðhækkanirnar voru ekki sökum hækkun húsnæðisverðs, heldur voru það verðhækkanir tengdar viðhaldi og viðgerðum sem drifu húsnæðisliðinn áfram í þetta sinn. Við, líkt og flestir greiningaraðilar, spáðum áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs í október og gerðum við ráð fyrir 0,55% hækkun húsnæðisverðs, sem var í lægri kantinum. Raunin varð önnur og óhætt að segja að mæling Hagstofunnar, sem sýnir að húsnæðisverð lækkaði um 0,22% milli mánaða, hafi komið greiningaraðilum nokkuð á óvart. Við töldum líklegt að verð á sérbýli myndi hækka milli mánaða en að verð á fjölbýli myndi standa í stað. Hinsvegar mældust verðlækkanir á öllum undirliðum en verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði mest (0,18% milli mánaða). Það verður áhugavert að sjá hvernig húsnæðisverð muni þróast þegar horft er fram á veginn.
Að undanförnu höfum við bent á að auglýstum fasteignum hefur fjölgað og að innistæður fyrir áframhaldandi verulegum hækkunum séu frekar litlar. Líkt og við fjölluðum um í síðustu verðbólguspá þá hefur fjármagnskostnaður við íbúðarkaup verið nokkuð í umræðunni, sérstaklega í aðdraganda kosninga, og gætu breytingar á reglum varðandi fjármögnun húsnæðiskaupa haft veruleg áhrif á markaðinn.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka 

 

Skammtíma verðbólguhorfur

Mælingar Hagstofunnar hafa stöðugt komið greiningaraðilum á óvart og var þessi mæling engin undantekning. Helstu tíðindin voru þau að verðbólgan tók talsverðan kipp þrátt fyrir húsnæðisverðslækkanir, en húsnæðisverð hefur ekki lækkað í mælingum Hagstofunnar í rúm tvö ár. Hvort um sé að ræða verðhækkanir sökum gengisbreytinga, launahækkana, óvissu eða annað skal hér vera ósagt.
Við höfum áður fjallað um að innlendur verðbólguþrýstingur þurfi að aukast verulega til að koma verðbólgunni af stað ef húnæðisliðurinn taki að gefa eftir, líkt og við sáum núna. Í október mælingunni er athyglisvert að sjá að verulega hefur dregið úr þeirri verðhjöðnun sem hefur mælst að undanförnu þegar litið er á verðbólgu án húsnæðisliðarins. Verðhjöðnun án húsnæðisliðar mældist 2,3% í október en var hún 3,1% í síðasta mánuði. Mikil óvissa er um þróun verðbólgunnar og mun hún stýrast af ólíkum þáttum, s.s. launaþróun, framboðshlið húsnæðismarkaðarins, vaxtastigi og síðast en ekki síst opinberum fjármálum og aðgerðum komandi ríkisstjórnar t.d. á húsnæðismarkaði. Við gerum samt sem áður ráð fyrir að verðbólgan haldist undir markmiði Seðlabankans út þetta ár.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Nóvember +0,1%: Flugfargjöld lækka hressilega, húsnæðisliðurinn hækkar ásamt fötum og skóm.
  • Desember +0,25%: Flugfargjöld hækka aftur, húsnæðisliðurinn hækkar, aðrir liðir breytast lítillega.
  • Janúar -0,5%: Útsölur ganga í garð, flugfargjöld lækka en áfengi og tóbak og heilsa hækkar

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka