Passar bókvitið í askana?

Passar bókvitið í askana?

Hagsæld og lífsgæði hvers samfélags byggjast að miklu leyti á mannauði. Ekki einungis að hann sé mikill og fjölbreyttur, heldur er líka æskilegt að mannauðurinn endurspegli það sem okkur þykir mikilvægt, hvort sem það er að menntun barna, öflug verslun, nýsköpun, gott húsakjól eða heilbrigðisþjónusta. Menntun er lykilatriði í því að skapa mannauð en er hann að þróast í takt við þarfir samfélagsins – í takt við eftirspurn? Máltækið segir að bókvitið verði ekki í askana látið sem er í raun rangt í ljósi mikilvægis menntunar. Spurningin er því hvort að bókvitið passi í askana?

Fyrir um tveimur og hálfu ári síðan fjölluðum við um hvernig vísbendingar væru um að menntun landsmanna væri líklega ekki að þróast í takt við þarfir atvinnulífsins og samfélagsins þannig að skortur væri á starfsfólki í sumum atvinnugreinum og -stéttum, á meðan offramboð er annarsstaðar. Hvernig hefur þetta þróast og hvernig er staðan í dag? Heildarmyndin er lítið breytt. Vísbendingar eru um almenna fjölgun háskólamenntaðra umfram þarfir vinnumarkaðarins, sem birtist m.a. í því að fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hefur dvínað og háskólamenntuðum hefur fjölgað mikið í öllum starfsstéttum. Á sama tíma hefur verið skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, svo eitthvað sé nefnt, enda má rekja efnahagsuppgang síðustu ára að miklu leyti til þeirra atvinnugreina.

Þó að þessi einfalda greining segi ekki nema í besta falli hálfa sögu um menntun og þarfir samfélagsins er hún vonandi innlegg inn í nauðsynlega umræðu. Fyrir utan þarfir vinnumarkaðarins verður líka að hafa í huga að það eru rök fyrir því að meira en bara markaðsleg sjónarmið ráði því hvernig fólk menntar sig. Sem dæmi getur menntun skapað jákvæð ytri áhrif fyrir samfélagið í heild með betur upplýstum þegnum, betri færni og nýrri þekkingu sem nýtast öllum, en fáir eru e.t.v. tilbúnir að borga fyrir sjálfir. Það breytir þó ekki því að markaðslegu sjónarmiðin vega þungt og að markaðsöflin eru að verki á vinnumarkaði líkt og á öðrum mörkuðum.

Fjölgun háskólamenntaðra langt umfram fjölgun „háskólastarfa“ þar til síðustu 2-3 ár

Mikil fjölgun háskólanema síðustu ár og áratugi hefur jafnt og þétt skilað sér í því að fleiri Íslendingar eru með háskólamenntun heldur en aðeins grunnmenntun sem er gríðarlega mikil breyting frá 1991 eins og sést hér að neðan. Samtals fjölgaði háskólamenntuðum um 18.400 frá 2010 til 2016 eða um 36%. Á sama tíma fjölgaði sérfræðingum, sérmenntuðum og stjórnendum, sem ætla má að sé yfirleitt æskilegt eða nauðsynlegt að séu háskólamenntaðir, um 13.400 eða 15%. Þannig virðist sem háskólamenntuðum hafi fjölgað meira heldur en störfum háskólamenntaðra og bilið þarna á milli er enn meira ef horft er lengra aftur í tímann. Þó má nefna að ef horft er þróunina frá 2013 að þá hefur fjölgun í þessum „háskólastörfum“ verið meiri, þannig að almennt séð hefur misræmið þarna á milli líklega ekki aukist.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Færri háskólamenntaðir fá störf við hæfi og fjárhagslegur ávinningur minnkar

Mikil fjölgun háskólamenntaðra og hækkandi hlutfall vinnuafls sem er með háskólamenntun er langt í frá vandamál í sjálfu sér. Almennt séð er hærra menntunarstig jákvætt fyrir samfélagið. Það sem gæti þó verið vandamál er í fyrsta lagi að háskólamenntaðir eru í mjög auknum mæli farnir að sækja í störf sem þeir sóttu ekki í áður og ekki er víst að krefjist háskólamenntunar. Þetta sést vel á myndinni hér að neðan til vinstri þar sem hlutfall í hverri stétt sem er háskólamenntað hefur aukist úr nánast 0% í allt að 10% í sumum stéttum.

Í öðru lagi er það umhugsunarvert, og styður við að fyrra atriðið sé vandamál, er að fjárhagslegur ávinningur af háskólamenntun hefur farið hratt dvínandi síðustu ár. Árið 2004 voru háskólamenntaðir að miðgildi með 36% hærri ráðstöfunartekjur en þeir sem hafa grunnmenntun en árið 2015 voru tekjur háskólamenntaðra 23% hærri. Á sama tíma hefur fjárhagslegur ávinningur framhalds- og starfsmenntunar einnig farið minnkandi, en í minna mæli, og er nú 8% umfram grunnmenntun. Það sem meira er þá var fjárhagslegur ávinningur menntunar hlutfallslega minnstur hér á landi árið 2013 í samanburði við önnur Evrópuríki. Tölurnar hér að neðan gefa vísbendingu um að það hafi ekki breyst. Kraftar framboðs og eftirspurnar virka á vinnumarkaði eins og á öðrum mörkuðum og því er augljósas tilgátan sú að fjölgun háskólamenntaðra hefur almennt verið meiri en sem nemur vaxandi eftirspurn eftir háskólamenntuðu starfsfólki. Það leiðir þá til þess að fjárhagslegt verðmæti menntunar lækkar hlutfallslega. Á hinn bóginn er vinnumarkaður á Íslandi mjög miðstýrður og því má kannski spyrja hvort að þessi þróun sé vegna þess að ekki hefur verið staðið vörð um að meta menntun til fjár.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Háskólamenntun er ekki það sama og háskólamenntun

Meðaltöl segja þó ekki nema hluta sögunnar. Það blasir við að eftirspurn eftir mismunandi menntun hefur þróast á misjafnan hátt og líklegt er að í einhverjum tilfellum sé offramboð á fólki með tiltekna menntun en skortur á fólki með annarskonar menntun. Erfitt er að fjalla um í stuttu máli hvernig eftirspurn eftir mismunandi háskólamenntun hefur þróast, en framboðsþróunin liggur nokkuð vel fyrir og má sjá hér að neðan. Í hausatölu hefur mesta fjölgun háskólanema verið í viðskiptatengdum greinum og félagsvísindum frá 1998. Mikil fjölgun hefur þó verið í öllum greinum frá 1998 og því e.t.v. víða sem framboð háskólamenntaðra hefur ekki fylgt eftirspurn.

Frá 2010 hefur þróunin verið nokkuð frábrugðin. Gríðarleg sókn hefur verið í tölvunarfræði og hefur fjöldi nemenda þar meira en tvöfaldast og líklegt má telja að þar sé að miklu leyti verið að svala vaxandi eftirspurn á tímum hraðra tæknibreytinga. Annað sem vekur athygli er fækkun í kennaranámi og menntunarfræðum frá 2010 á sama tíma og reglulega heyrast fréttir af skorti á grunn- og framhaldsskólakennurum. Það er því nærtækast að spyrja hvort að hreinn fjárhagslegur ávinningur af slíkri menntun í samanburði við aðra menntun og störf sé nægur til að nógu margir leggi slíkt á sig. Eins og áður segir, markaðsöflin hafa einnig áhrif á vinnumarkaðinn og einstaka hluta hans.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ferðaþjónusta og byggingargeirinn hafa staðið undir meira en helmingi nýrra starfa frá 2010...

Hvað með aðra menntun? Og þarfir atvinnulífsins síðustu ár? Frá því að efnahagsbatinn hófst árið 2010 virðist sem meira en helmingur nýrra starfa hafi orðið til í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Það er í takt við okkar mat um að rekja megi nærri helming hagvaxtar frá 2010 til vaxtar í ferðaþjónustu, sem aftur hefur haft áhrif á byggingariðnaðinn og fjárfestingu. Þannig hefur vöxtur eftirspurnar eftir iðnaðarmönnum verið gríðarlegur, en einnig í hinum ýmsu þjónustugreinum sem tengjast ferðaþjónustu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Ferðaþjónusta er stór hluti af mörgum öðrum þjónustugreinum, t.d. veitingastarfsemi

... En fjöldi nemenda í þessum greinum hefur ekki náð að halda í við umsvif

Hvað með menntun tengda byggingariðnaði? Svo virðist sem fjöldi nemenda hafi ekki haldið í við vaxandi umsvif og eru vísbendingarnar um það nokkrar. Í fyrsta lagi hefur fjöldi nemenda í hinum ýmsu iðngreinum lítið breyst frá aldamótum og á síðustu árum miðað við nýjustu gögn. Í öðru lagi hefur erlendum ríkisborgurum hér á landi fjölgað mjög hratt sl. misseri eða um nærri 13.000 sl. 3 ár og virðist það að miklu leyti vera vegna umsvifa í t.d. byggingariðnaði. Í þriðja lagi hefur flutti fjöldi iðnaðarmanna af landi brott í fjármálakreppunni og óvíst er í hve miklu mæli þeir hafa skilað sér til baka. Loks er það hverjum ljóst sem vantar iðnaðarmann, t.d. í viðgerðir á íbúðinni sinni, að það er hægara sagt en gert að verða sér úti um slíkan.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Í ferðaþjónustunni er staðan önnur að því leyti að nemendum í nokkrum ferðaþjónustutengdum greinum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Fjölgunin er þó engan veginn í takt við vaxandi umsvif ferðaþjónustu þar sem fjöldi ferðamanna hefur nærri því fimmfaldast á einum áratug. Hér þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er mjög margslungin atvinnugrein og hefur snertifleti við nánast allar atvinnugreinar. Engu að síður er virðist sem menntakerfið hafi eins og svo margt ekki brugðist nægilega við fjölgun ferðamanna – skiljanlega.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka.