Fjárfestingar sveitarfélaganna

Fjárfestingar sveitarfélaganna

Innviðir og fjárfesting í þeim, eða öllu heldur skortur á fjárfestingu, hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu. Það má segja að innviðir séu hornsteinar hagkerfisins og forsenda verðmætasköpunar enda gætum við t.d. ekki tekið á móti ferðamönnum ef ekki væri fyrir flugvelli, sturtað niður ef ekki væri fyrir fráveitur eða notað rafmagn ef ekki væri fyrir orkuflutninga. Fjárfesting í innviðum skiptir því miklu máli fyrir hagkerfið, bæði nýfjárfesting og viðhald á þeim sem fyrir eru. Flest bendir til þess að fjárfesting hafi verið vanrækt á liðnum árum og bentu Samtök Iðnaðarins (SI) t.a.m. á það í nýlegri skýrslu að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi væri um 372 ma.kr. Nýverið gáfum við út Markaðspunkt þar sem sjónum var beint að fjárhagsstöðu stærstu sveitarfélaga landsins en innviðir landsins eru að stórum hluta í eigu eða á ábyrgð þeirra. Niðurstaða samantektarinnar var jákvæð á flesta vegu, skuldastaða hefur batnað ár frá ári og fjárhagsstaða sveitarfélaga almennt færst til betra vegar. En á sama tíma hafa fjárfestingar hins vegar setið á hakanum.

Alla jafna flokkast meirihluti eigna sveitarsjóðs (A-hluta) sem fasteignir og gatnakerfi á meðan að í B-hluta þeirra má jafnan finna t.d. hafnir og hita-, vatns- og fráveitur. Það er þó allur gangur á því hvernig sveitarfélögin hátta eignarhaldinu og eru dæmi um að veitu- og/eða hafnarstarfsemi falli undir A-hluta. Á árunum 2002 til 2005 fjárfestu sveitarsjóðir landsins að jafnaði 25 ma.kr. á ári (verðlag 2016) í varanlegum rekstrarfjármunum en sé B-hlutinn tekinn með í myndina hækkar fjárhæðin í 55 ma.kr. Á eftirhrunsárum hefur myndin hins vegar gerbreyst. Fjárfestingar A-hluta sveitarfélaganna hafa að jafnaði verið um 20 ma.kr. frá 2010 til 2016 á meðan að samstæðurnar í heild hafa að meðaltali fjárfest fyrir 38 ma.kr.

Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga, Greiningardeild Arion banka

Fjárfestingar drógust langsamlega mest saman á árunum 2010 til 2013 og 2012 voru þær nálægt því að vera minni en afskriftir. Heilt yfir hafa fjárfestingar sveitarfélaganna farið stígandi síðan þá og námu tæpum 17 ma.kr. umfram afskriftir í fyrra. Til samanburðar námu fjárfestingar umfram afskriftir að jafnaði 32 ma.kr. á árunum 2002-2005 og um 73 ma.kr. frá 2006-2008.

Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga, Greiningardeild Arion banka

Samkvæmt Samtökum Iðnaðarins er uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegum og fasteignum sveitarfélaga landsins um 61-81 ma.kr., en líkt og nefnt var hér að ofan hafa sveitarfélögin ýmsa aðra innviði á sinni könnu sem ekki er sérstaklega sundurliðað gagnvart þeim í skýrslu samtakanna. Við reynum ekki að áætla nákvæma fjárfestingaþörf niður á einstaka innviði í þessum Markaðspunkti en engu að síður er hægt að skoða og bera saman núverandi fjárfestingarstig í samanburði við fyrri tímabil og þannig áætla hvað upp á vantar til að standa því tímabili jafnfætis. Við notumst við gögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem byggja á ársreikningum sveitarfélaganna og ná þau gögn aftur til ársins 2002. Mikill fjárfestingarkúfur var á uppgangsárunum 2006-2008 og horfum við því til tímabilsins 2002-2005 sem „eðlilegt“ fjárfestingarstig. Sé meðaltal fjárfestinga þeirra ára hjá A-hluta sveitarfélaga landsins fært á verðlag ársins 2016 má leiða út að uppsöfnuð fjárfestingarþörf frá 2010 til 2016 sé um 35 ma.kr.

Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga, Greiningardeild Arion banka

Sé B-hlutinn tekinn með í myndina og sömuleiðis tekið mið af meðalfjárfestingu frá 2002-2005 hækkar fjárhæðin í tæpa 120 ma.kr. Það kann að hljóma há fjárhæð en til að setja hana í samhengi þá nam t.d. bókfært virði eigna sveitarfélaga landsins (A- og B-hluti) í árslok 2016 um 970 ma.kr. Einnig má nefna að sveitarfélögin fjárfestu fyrir rúmlega 120 ma.kr. árið 2008 eitt og sér. Líkt og kom fram að ofan eru eignir í B-hluta í mörgum tilvikum hafnir og veitur, en samkvæmt SI er uppsöfnuð viðhaldþörf í höfnum, hita-, vatns- og fráveitum um 73-103 ma.kr, en þær tölur ná bæði yfir opinbera- og einkaaðila.

Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga, Greiningardeild Arion banka

Þó að erfitt sé að draga miklar ályktanir af fjárhæðunum sem koma fram hér að ofan er engu að síður ljóst að uppsöfnuð fjárfestingarþörf sveitarfélaganna er umtalsverð, líkt og skýrsla SI undirstrikar. Sveitarfélögin hafa verið að fjárfesta töluvert minna en söguleg meðaltöl sýna. Eins og áður segir eru tölurnar sem við horfum til unnar upp úr ársreikningum sveitarfélaganna og ná aftur til ársins 2002, en ef miðað er við tölur Hagstofunnar sem ná til 1998 er sama upp á teningnum þar. Jákvæð teikn er þó á lofti en samkvæmt fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaga landsins er stefnt að auka umtalsvert við fjárfestingarnar á komandi árum.

Heimild: Ársreikningar og fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna, miðað við nýjustu fjárhagsáætlun

Séu þær áætlanir settar í samhengi við söguna má sjá að heildarfjárfestingar stærstu sex sveitarfélaganna þokast á þessu ári yfir meðaltal fjárfestingar 2002-2005. Sögulega hafa fjárfestingar þeirra numið um 77% af heildarfjárfestingu sveitarfélaga landsins. Gangi áætlanirnar eftir má því segja að fjárfestingarstig sveitarfélaganna sé að þokast í rétta átt.

Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga, ársreikningar og fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna, Greiningardeild Arion banka