Dúfurnar taka yfir Haukadal - spáum óbreyttum stýrivöxtum

Dúfurnar taka yfir Haukadal - spáum óbreyttum stýrivöxtum

Í slangri um efnahagsmál er stundum tekið svo til orða að þeir sem aðhyllast lágvaxtastefnu séu vaxtadúfur en á öndverðu meiði séu vaxtahaukarnir. Miðvikudaginn 15. nóvember nk. tilkynnir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands um vaxtaákvörðun og spáum við óbreyttum stýrivöxtum. Meginvextir verða því áfram 4,25%. Það sem helst mælir með óbreyttum vöxtum er að aðhald peningastefnunnar hefur ef eitthvað er slaknað, enda hækkaði verðbólgan úr 1,4% í 1,9% í október. Aðrir þættir hafa lítið breyst, óvissa í ríkisfjármálum er enn til staðar og nokkuð stutt er frá síðustu vaxtaákvörðun. Engu að síður er ekki útilokað að vextir lækki. Vaxtalækkunin í október var að okkar mati í talsverðri mótsögn við fyrri orð nefndarinnar og kom flestum að óvart. Þannig fáum við ekki betur séð en að peningastefnunefnd langi virkilega að lækka vexti. Það má því segja að sjónarmið dúfnanna eigi upp á pallborðið hjá peningastefnunefnd um þessar mundir fremur en sjónarmið haukanna. Enda gerum við ráð fyrir því að vextir geti lækkað um 25 punkta í viðbót á næstunni, mögulega í desember.

Verðbólgan hækkaði og óvissa um ríkisfjármál hefur síst minnkað

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur stóra myndin lítið breyst. Gengi krónunnar hefur verið fremur stöðugt og styrkst um rúmlega 2%. Þá hefur lítið skýrst varðandi ríkisfjármál þar sem ekki hefur verið mynduð ríkisstjórn, en að okkar mati er líklegast að afgangur ríkissjóðs verði minni sem kallar á meira peningalegt aðhald. Í það minnsta sjáum við ekki að pólitískur vilji til þess að ráðast í ýmiskonar útgjaldaaukningu haldist í hendur við viljann til þess að sækja auknar tekjur, sem mun óhjákvæmilega leiða til minni afgangs af ríkissjóð.
Helsta breytingin sl. mánuð er að verðbólgan hækkaði úr 1,4% upp í 1,9% í október sl. þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% milli mánaða. Hækkunin var nokkuð umfram spár og það sem einna helst kom á óvart var 1,9% hækkun matarkörfunnar og 0,2% lækkun reiknaðrar húsaleigu. Báðar hreyfingar eru í takt við það sem peningastefnunefnd hefur verið tíðrætt um síðustu mánuði, þ.e. að hægja muni á hækkunartakti húsnæðisverðs en á sama tíma fari áhrif gengisstyrkingar að fjara út. Samspil þessara þátta munu skipta sköpum hvað varðar verðbólguþróun næstu mánaða og fróðlegt verður að sjá mat Seðlabankans og peningastefnunefndar á því. Í nýrri hagspá Greiningardeildar er gert ráð fyrir því að verðbólgan taki að þokast upp á við á næsta ári, en verði þó vel innan vikmarka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

 

Við spáum hægari hagvexti og vaxtalækkun í desember

Peningastefnunefnd mun hafa nýja þjóðhagsspá Seðlabankans til hliðsjónar við vaxtaákvörðunina. Við gerum ráð fyrir því að hún verði í megindráttum svipuð nýútkominni hagspá Greiningardeildar þar sem spáð er 4,2% hagvexti ár og 2,6% hagvexti á næsta ári. Við gætum þó trúað að verðbólguspá Seðlabankans næstu ár verði lítillega lægri en okkar, sem helgast aðallega af ólíkum forsendum um gengi krónunnar. Við spáum styrkingu næstu mánuði sem snýst svo í veikingu en ef við lesum Seðlabankann rétt, þá býst hann við lítilsháttar styrkingu út spátímann.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Í hagspá okkar birtum við stýrivaxtaspá fyrir næstu árin þar sem gert er ráð fyrir vaxtalækkun nú í desember, óbreyttum vöxtum fram til loka 2018 en svo lítilsháttar vaxtahækkun á fyrri hluta 2019 þegar verðbólga tekur að rísa. Um þessa spá ríkir að sjálfsögðu óvissa bæði vegna óvissu um verðbólgu og aðra efnahagsþróun en einnig vegna þess að það er hægara sagt en gert að lesa í hvert peningastefnunefnd stefnir. Miðað við einfalda reglu um peningastefnu, eða svokallaða Taylor-reglu, og forsendur okkar um efnahagsþróun ættu vextir að hækka nú. Að okkar mati er þó greinilegt að peningastefnunefnd langar ekki að hækka vexti og horfir líklega til lægri verðbólgu en við og jafnvel minni framleiðsluspennu þannig að þeirra vaxtaferill liggur væntanlega neðan við Taylor-ferilinn. Þess vegna höfum við líka teiknað Taylor vaxtaferil ef verðbólga verður við markmið og framleiðsluspenna fjarar hratt út. Verði það raunin gætum við sé meginvexti Seðlabankans lækka niður í 3,5% á fyrri hluta næsta árs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Framsýn leiðsögn óskast

Það er óhætt að segja að peningastefnunefnd hafi komið flestum mjög á óvart með ákvörðun sinni um að lækka vexti í október. Það skal ekki undra því ef rýnt er í hvað peningastefnunefnd hefur sagt síðustu mánuði og misseri virtist sem vaxtalækkun væri ólíkleg og hvað þá að allir nefndarmenn myndu kjósa með vaxtalækkun. Það sem fyrst kom upp í huga Greiningardeildar var: „Hver ert þú og hvað gerðirðu við peningastefnunefnd?“ Að öllu gamni slepptu má samt spyrja hvort ekki hefði verið heppilegra í október að gefa í skyn að vaxtalækkun væri í pípunum að gefnum ákveðnum forsendum.

Það var einkum þrennt sem skaut skökku við. Í fyrsta lagi var ekki minnst á óvissu um ríkisfjármál í yfirlýsingunni og skautað fínlega framhjá þeim í fundargerðinni. Fyrir um ári síðan vó óvissa um stefnu í ríkisfjármálum sérstaklega þungt í þeirri ákvörðun að halda vöxtum óbreyttum. Nefndin heldur því fram að aukinn trúverðugleiki hennar geri auðveldara að horfa í gegnum pólitískan óróa. Það kann að vera rétt, en að okkar mati hefur trúverðugleikinn ekki breyst svo mikið á einu ári og hafa verðbólguvæntingar til lengri tíma raunar hækkað frá því í fyrra. Þar fyrir utan er óvissan um afgang af ríkisfjármálum síst minni nú en í fyrra ef höfð eru í huga vilyrði nánast allra flokka í þá átt að lækka skatta eða auka ríkisútgjöld sem mun óhjákvæmilega kalla á meira aðhald peningastefnunnar.

Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka.

Í öðru lagi var ekki minnst á kjarasamninga og launaþróun í umræðu um vaxtaákvörðunina skv. fundargerð nefndarinnar sem er mjög ólíkt okkar reynslunni af áhersluatriðum nefndarinnar. Að okkar mati er þar launaþróun einn helsti þátturinn sem getur ógnað verðstöðugleika á næstunni en stutt er í mikilvæga kjarasamninga. Eins og sést glögglega hér að neðan er erfitt að sjá að innstæða sé fyrir verulegum almennum launahækkunum að óbreyttu án þess að þær leiði beint út í verðlag.

Heimildir: OECD, Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Gert er ráð fyrir að framleiðni vaxi um 1,5% á ári til 2020.

Í þriðja lagi virðist peningastefnunefndin hafa litlar áhyggjur af því að hagvöxtur sé ekki eins hagstæður og áður hefur verið. Þegar nefndin lækkaði vexti í desember var sérstaklega minnst á að samsetning hagvaxtar væri hagstæðari en spáð hafði verið vegna framlags utanríkisviðskipta, þó að hagvöxtur væri mun meiri en skv. spá. Aftur á móti var ekkert talað um það síðasta að samsetningin væri ekki eins hagstæð og áður. Það er umhugsunarvert þar sem nýjustu tölur og hátíðnivísbendingar benda til þess að síst sé að hægja á innlendri eftirspurn og útlánavöxtur að komast á skrið, þó að vafalaust sé að hægja á hagvexti.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Þó að peningastefnan hafi náð góðum árangri og að vaxtalækkanir síðustu mánaða hafi verið byggðar á góðum rökum er þessi óljósa stefna engu að síður mjög óheppileg og getur á endanum dregið úr trúverðugleika peningastefnunefndarinnar. Við höfum t.d. séð vexti lækka um eitt og hálft prósentustig og aðhald peningastefnunnar minnka talsvert á sama tíma og framsýna leiðsögnin hefur fyrst og fremst snúist um að tryggja þurfi aðhald. Þá var síðasta vaxtaákvörðun ekki sú fyrsta sem var í harkalegri mótsögn við fyrri orð. Besta dæmið er líklega í ágúst 2016 þegar nefndin kom öllum að óvörum og lækkaði vexti um 50 punkta þegar síðasta yfirlýsing þar á undan sagði að líklegt væri að auka þyrfti aðhald og ekkert í fyrri orðum benti til þess að vextir gætu lækkað fljótlega. Með þetta allt í huga má efast um að peningastefnunefnd sé að veita nægilega framsýna leiðsögn og ef það er raunin er það umhugsunarvert.

 

Góður tími til að slaka á bindiskyldu

Í byrjun júní 2016 var komið á 40% bindiskyldu til eins árs á erlenda fjárfestingu í innlánum og skuldabréfum. Síðan þá hafa stýrivextir lækkað á Íslandi, verðbólguhorfur batnað og dregið úr spennu í hagkerfinu, sem allt hefur leitt til þess að vaxtamunur til skemmri og lengri tíma við Evrópu og Bandaríkin hefur minnkað um 1,5-2,5 prósentustig. Forsendur fyrir bindiskyldunni eru því mun veikari og hníga flest rök að því að slaka skuli á henni. Enda hefur margoft komið fram opinberlega að hún sé ekki varanleg heldur að hún sé einungis tæki sem hægt er að grípa til ef aðstæður kalla á. Ef ekki er tími til að slaka á bindiskyldunni nú þá erfitt að sjá hvenær og því kæmi það okkur ekki á óvart ef tilkynnt verður um breytingar þar að lútandi á næstunni – hugsanlega samhliða vaxtaákvörðun í næstu viku.

Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka.