Spáum 0,10% hækkun verðlags í nóvember

Spáum 0,10% hækkun verðlags í nóvember

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,10% milli mánaða í nóvember og er það í samræmi við síðustu skammtímaspá okkar. Við spáum að húsnæðisliðurinn muni drífa verðbólguna áfram en á móti lækki flugfargjöld til útlanda. Reiknuð húsaleiga lækkaði í október en hafði hún ekki lækkað í meira en tvö ár og kom sú lækkun greiningaraðilum á óvart. Við gerum ekki ráð fyrir lækkun reiknaðrar húsaleigu í nóvember en hins vegar eru litlar innistæður fyrir verulegum hækkunum og spáum við því hóflegri hækkun húsnæðisverðs. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 2,0%.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.


Við spáum því að verðlag hækki um 0,2% í desember, lækki um 0,6% í janúar og hækki um 0,8% í febrúar. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 2,1% í febrúar.

Þar kom að því, reiknuð húsaleiga lækkaði milli mánaða

Það dró til tíðinda í síðustu verðbólgutölum og kom húsnæðisliðurinn einna mest á óvart. Reiknuð húsaleiga sem hefur verið dráttarklárinn í verðhækkunum síðustu mánuði og misseri lækkaði um 0,22% milli mánaða en reiknuð húsaleiga hefur ekki lækkað frá því í júnímánuði 2015. Óvist er hversu mikil áhrif vaxtarlækkun Seðlabankans hefur haft á lækkun undirliðarins en mikilvægasti þátturinn er vissulega sú framboðsaukning sem við höfum séð síðastliðna mánuði. Við spáum um 0,25% hækkun í nóvember en það svarar til 0,05% áhrifa á vísitölu neysluverðs. Við teljum líklegt að sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækki lítillega milli mánaða en að fjölbýli standi í stað eða lækki. Erfiðara er að spá fyrir um verðbreytingar utan höfuðborgarsvæðisins, liðurinn er sveiflukenndur vegna fárra samninga og fjölbreyttri eigna. Gangi spáin okkar eftir verður árstakturinn á landinu öllu kominn í 17,5% í nóvember og lækkar úr 18,9% frá því í október.
Undirliðurinn viðhald og viðgerðir hækkaði hressilega í október sökum hækkunar efniskostnaðar. Við teljum líklegt að gengisveikingin í sumar hafi haft sitt að segja en krónan hefur styrkst um 3% frá byrjun október. Þannig er líklegt að verðhækkanir á efniskostnaði sökum gengisveikingar hafi að mestu leiti skilað sér út í verðlag. Við spáum að húsnæðisliðurinn samtals muni hafa um 0,10% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs í nóvember.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Matur og drykkur, sveiflukenndur liður

Að undanförnu hafa miklar breytingar átt sig stað hvað varðar verðlag á mat og drykkjarvörum. Aukin samkeppni á smásölumarkaði stuðlaði t.a.m. að verðlækkunum fyrstu sjö mánuði ársins og svo virtist sem verðlæg gæti lækkað endalaust. Þrátt fyrir aukina samkeppni skilaði gengisveikingin í sumar sér út í verðlagið og í október hækkaði verðlag hressilega yfir alla línuna og því höfðu bæði innfluttar og innlendar vörur áhrif á hækkun verðlags. Við spáum nokkuð stöðugu verði á mat og drykk milli mánaða þar sem við teljum líklegt að innlendur verðbólguþrýstingur sé farinn að aukast, t.d. höfum við að undanförnu séð fréttir um verðhækkanir á mjólkurvörum, en innfluttar vörur hafa áhrif til lækkunar vegna gengisstyrkingar. Við spáum að matvöruliðurinn hafi 0,01% áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs eða samsvarar 0,07% hækkun milli mánaða.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Flugfargjöld til útlanda lækka, hótel og veitingastaðir standa í stað

Við spáum því að flugfargjöld til útlanda lækki um 8,3% milli mánaða í nóvember, en flugfargjöld lækka gjarnan í nóvember. Við gerum þá ráð fyrir ívið minni lækkun í ár en síðasta ár, en þegar litið er á verðþróun frá byrjun árs er hún sambærileg því sem gerðist í fyrra.

Undanfarna mánuði hafa verið litlar breytingar á undirliðnum hótel og veitingastaðir. Svo virðist sem veitingastaðir hafi haldið verðlagi nokkuð stöðugu en gisting hefur lækkað vegna árstíðarsveiflu. Hins vegar hefur gisting töluvert minna vægi í vísitölu neysluverðs og þannig hefur undirliðurinn í heild staðið í stað. Við teljum líklegt að sú verði raunin í nóvember og spáum því óbreyttu verðlagi hótela og veitinga.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Skammtíma verðbólguhorfur

Verðbólga hefur haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í rúm þrjú ár og hafa mælingar Hagstofunnar stöðugt komið greiningaraðilum á óvart. Verðbólgutölur fyrir októbermánuð voru hér engin undantekning og kom húsnæðisliðurinn sérstaklega á óvart. Þá vakti einnig athygli að verulega dró úr þeirri verðhjöðnun sem hefur mælst að undanförnu, bæði hvað varðar innfluttar og innlendar vörur og grænmeti. Þetta bendir til þess að verðþrýstingur sé að aukast, þótt hann þurfi enn að aukast verulega til að koma verðbólgunni verulega af stað. Krónan tók að styrkjast á ný og teljum við því verðhjöðnun innfluttra verða þokkalega lífsseiga það sem eftir er af árinu. Við gerum einnig ráð fyrir hóflegum verðhækkunum á húsnæði það sem eftir lifir ársins. Mikil óvissa er um verðbólguþróun á næsta ári þar sem mikið óvissuástand er um launaþróun, opinber fjármál og aðgerðir komandi ríkisstjórnar en þessir þættir munu skýrast á næstu mánuðum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Desember +0,20%: Flugfargjöld hækka aftur, húsnæðisliðurinn hækkar, aðrir liðir breytast lítillega.
  • Janúar -0,60%: Útsölur ganga í garð, flugfargjöld lækka einnig en áfengi og tóbak og heilsa hækkar.
  • Febrúar +0,80%: Útsölur ganga til baka, allir aðrir liðir hækka. 

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka