Hindrun á leið til Lágvaxtalands – óbreyttir vextir

Hindrun á leið til Lágvaxtalands – óbreyttir vextir

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti í morgun ákvörðun sína um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 4,25%. Ákvörðunin er í takt við væntingar en allir greiningaraðilar höfðu spáð óbreyttum vöxtum. Hagvaxtarspá bankans fyrir árið í ár hefur verið færð niður úr 5,2% í 3,7% (við spáum 4,2%) en engu að síður er talin þörf á aðhaldi þar sem framleiðsluspenna verður áfram nokkur næstu tvö ár hið minnsta. Að sama skapi telur peningastefnunefndin að núverandi aðhald sé hæfilegt, þar sem raunvextir á mismunandi mælikvarða eru 1,8%. Svo virðist sem ný spá og yfirlýsing nefndarinnar gefi til kynna að ekki séu miklar frekari vaxtalækkanir framundan og ólíkt því sem var í október er sérstaklega minnst á óvissu varðandi opinber fjármál og kjarasamninga. Því gætu vextir verið óbreyttir lengur en við bjuggumst við og ekki er hægt að útiloka vaxtahækkanir á næsta ári ef launaþróun og ríkisfjármál þróast til verri vegar. Þó erum við enn á þeirri skoðun að til lengri tíma sé enn að hægt að búast við lægri vöxtum en hafa áður sést. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hækkaði lítillega sem helgast líklega af tóninum í peningastefnunefnd en ekki síður af því að Seðlabankinn virðist ekki á þeim buxunum að breyta bindiskyldunni alveg strax.

Núverandi aðhald hæfilegt að mati peningastefnunefndar

Vaxtalækkanir síðustu missera hafa að miklu leyti ráðist af raunstýrivöxtum miðað við mismunandi mælikvarða. Fyrst til þess að halda þeim á svipuðu róli eða um 2,5% en svo til þess að slaka á peningalegu aðhaldi síðustu mánuði þar sem hægja er tekið á hagvexti og að dregið hefur úr spennu. Í yfirlýsingu nefndarinnar er tekið fram að aðhaldið í dag, sem samsvarar um 1,8% raunstýrivöxtum, sé hæfilegt miðað við núverandi aðstæður. Þar sem spáð er að eitthvað dragi áfram úr framleiðsluspennu með minni hagvexti má ætla að hæfilegt raunvaxtastig komi til með að lækka. Ef verðbólga og verðbólguvæntingar haldast svipaðar á sama tíma mun það leiða til frekari vaxtalækkana að óbreyttu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka.

Dúfurnar leggjast á hreiðrið í bili – fráviksdæmi útilokar ekki vaxtahækkun

Það er þó ekki víst að vextir lækki á næstunni og ef við lesum á milli línanna hafa líkur aukist á að stýrivextir verði 4,25% eitthvað lengur en við höfðum gert ráð fyrir, en í nýrri hagspá Greiningardeildar er gert ráð fyrir einni vaxtalækkun öðru hvoru megin við áramótin. Ástæðan er einkum að það er ennþá nokkur kraftur í hagkerfinu næstu misseri skv. Seðlabanknum. Það sem fær okkur einnig á þá skoðun er að nú eru opinber fjármál og óvissa um kjaramál sérstaklega tiltekin í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Að okkar mati er óvissan upp á við hvað þetta varðar sem myndi kalla á hærri vexti. Í Peningamálum er fráviksdæmi þar sem gert er ráð fyrir neðri mörkum kosningaloforða um ríkisútgjöld eða um 42 ma.kr. á ári. Verði slík aukning raunin mun verðbólga vera meiri en í grunnspá og hagvöxtur meiri til skamms tíma. Saman mun það þýða að vextir Seðlabankans verða um 0,7 prósentustigum hærri en ella árið 2019. Ástæða er til að hrósa sérstaklega fyrir framsetningu sviðsmynda en þær ættu að gagnast vel til hliðsjónar við stefnumótun ríkisfjármála á komandi mánuðum.

Hér að neðan má sjá hvernig vextir Seðlabankans gætu þróast miðað við mismunandi forsendur og sömuleiðis hvernig Seðlabankinn spáir verðbólgu. Þar sem að verðbólga tekur að stíga og framleiðsluspenna verður viðvarandi eitthvað áfram er ekki hægt að útiloka vaxtahækkanir sbr. Taylor ferilinn hér að neðan. Eins og oft hefur komið fram er horft til margra annarra þátt heldur en einfaldrar jöfnu og því er afar hæpið að vextir hækki um heilt prósent á næstu mánuðum. Engu að síður undirstrikar myndin hér að neðan óvissuna um hvert vextirnir stefna og hvernig umhverfið í kringum peningastefnuna hefur breyst með lækkun verðbólguvæntinga og gjörbreyttri stöðu hagkerfisins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Gert ráð fyrir engri verðbólgu við markmið 2021.

Hratt hægir á hagvexti

Fyrir viku síðan birti Greiningardeild nýja hagspá þar sem hagvaxtarspá fyrir árið í ár var færð niður á við, úr 5,3% niður í 4,2%. Seðlabankinn hefur fetað sömu slóð og gerir nú ráð fyrir töluvert minni hagvexti en spáð var í ágústhefti Peningamála, eða 3,7% samanborið við 5,2%. Munurinn felst fyrst og fremst í breyttri sín bankans á utanríkisverslun, en nú er gert ráð fyrir talsvert hægari útflutningsvexti en áður var talið og meiri innflutningsvexti. Þá hefur hægt á atvinnuvegafjárfestingu en aukin einkaneysla hefur vegið á móti. Eftir þessar breytingar er þjóðhagsspá bankans mjög sambærileg uppfærðri hagspá okkar, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Þá virðast Seðlabankinn vera á sama máli og við hvað varðar hina margumtöluðu mjúku lendingu; hún er innan seilingar ef rétt er haldið á spilunum.

Það sem vekur einna helst athygli okkar að þessu sinni er uppfærð spá Seðlabankans um þróun viðskiptajafnaðar, en hingað til höfum við furðað okkur á spá bankans um mikinn viðskiptaafgang í ljósi sterkrar krónu og vaxandi vöruskiptahalla. Nú virðist sem Seðlabankinn skipt um gír og fer viðskiptaafgangur hratt minnkandi út spátímann, enda hefur innflutningsspáin verið færð hressilega upp á við. Þannig er gert ráð fyrir viðskiptaafgangi sem nemur 2,5% af VLF árið 2019, en fyrri spá hljóðaði upp á 4,7%. Þrátt fyrir það telur Seðlabankinn svigrúm til staðar fyrir gengisstyrkingu á næstu árum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Bindiskyldan komin til að vera

Í nýjasta hefti Peningamála er ítarleg rammagrein um bindiskylduna á innflæði fjármagns. Út frá henni er ljóst að bindiskyldan er komin til að vera, í þeim skilningi að hún verði í verkfærakassa peningastefnunnar til frambúðar. Við teljum það koma nokkuð skýrt fram að litlar breytingar eru fyrirhugaðar á núverandi fyrirkomulagi að svo stöddu, en tekið er fram að bindiskyldan sé nauðsynleg enn um sinn. Þá verður hún ekki afnumin í einu lagi heldur í nokkrum skrefum, og ræðst framþróunin af framleiðsluspennunni og hversu hratt hún minnkar. Hér má halda því til haga að framleiðsluspenna táknar í raun framleiðslu hagkerfisins umfram við langtímaframleiðslugetu. Út frá nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans er útlit fyrir áframhaldandi, en hratt minnkandi framleiðsluspennu, sem gæti þá gefið tilefni til að lækka bindiskylduna raungerist sú þróun. Þá væri minni ástæða en ella fyrir því að standa í vegi fyrir innstreymi erlends fjármagns til landsins, ólíkt því sem nú er þegar framleiðsluspenna er mikil.

Samkvæmt fyrrgreindri grein er stefnt að því að lækka bindihlutfallið eins hratt og auðið er niður í núll og að tækið verði að jafnaði ekki virkt. Út frá orðum Seðlabankastjóra á vaxtaákvörðunarfundinum í morgun sjáum við ekki betur en svo að það muni ekki gerast fyrr en að fjármagnshöftum verði að fullu aflétt. Við bíðum spennt eftir morgundeginum en Seðlabankastjóri gaf til kynna að hann muni gera bindiskylduna að umræðuefni sínu á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fram fer þá.