Furðulegt háttalag verðlags um vetur

Furðulegt háttalag verðlags um vetur

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,16% milli mánaða í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkar því í 1,7% úr 1,9% í október. Lækkunin var nokkuð umfram væntingar greiningaraðila en spár fyrir nóvember lágu á bilinu 0,1% lækkunar til 0,2% hækkunar milli mánaða. Við spáðum 0,1% hækkun, sem samsvarar 1,9% ársverðbólgu. Það má segja að samsetning verðbólgunnar hafi dottið í sama gamla farið aftur, þ.e.a.s húsnæðisliðurinn dreif verðbólguna áfram með reiknaða húsaleigu í broddi fylkingar. Sé húsnæðisliðurinn undanskilinn mældist 2,3% verðhjöðnun í nóvember, sem er sama verðhjöðnun og mældist í október. Nokkuð hefur hægt á verðhjöðnuninni en hún hefur verið í kringum 3% frá því í júní. Á móti húsnæðisliðnum vógu ferðir og flutningar (-0,19% áhrif á VNV) og föt og skór (-0,13% áhrif á VNV).

Þó verðbólgumælingin í nóvember hafi verið vel undir væntingum greiningaraðila og því mögulega opnað á vaxtalækkanir í desember, teljum við að nýtt fjárlagafrumvarp og áætlanir nýrrar ríkisstjórnar vegi þyngra í huga peningastefnunefndar.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hægt að gera góð kaup í nóvember

Það hefur vart verið þverfótað fyrir tilboðum í nóvember, hvort sem er á fötum eða skóm, búsáhöldum eða raftækjum. Miðnæturopnanir, Svartur föstudagur og Cyber Monday hafa þannig dunið á landsmönnum í nóvember og spurning hvort slík tilboð, ásamt samkeppni verslana um jólaösina, hafi litað mælingar Hagstofunnar að þessu sinni. Þá getur lítilsháttar styrking krónunnar haft sitt að segja. Föt og skór lækkuðu verulega í nóvember, eða um tæp 3,4% (-0,13% áhrif á VNV). Mjög óalgengt er að sjá svo miklar lækkanir utan útsölutímans (janúar og júlí) og hafa föt og skór aldrei lækkað jafn mikið í nóvember og í ár. Mest lækkaði fataefni í verði, eða um 32,7%, og hefur það aldrei lækkað jafn mikið í einum mánuði. Þá lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður einnig lítillega (-0,01% áhrif á VNV). 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld lækka, matarkarfan hækkar

Ferðaliðurinn í heild sinni hafði -0,19% áhrif á VNV í nóvember og vegur þar þyngst lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,21% áhrif á VNV). Þetta er nokkuð meiri lækkun en við höfðum gert ráð fyrir, og nokkuð meiri lækkun en sést yfirleitt í nóvember. Að þessu sinni hækkuðu flestir aðrir undirliðir ferðaliðarins, að varahlutum (s.s. hjólbörðum) undanskildum. Hótel og veitingastaðir lækkuðu einnig lítillega (-0,03% áhrif á VNV) og munar þar mestu lækkun á verði gististaða. Þetta er fjórði mánuðurinn í röð sem verð á gistingu lækkar, að þessu sinni um tæp 5% sem er töluvert meiri lækkun en undanfarna mánuði og vel umfram okkar spá. Þróunin er þó í takti við fyrri ár en verð á gistingu gefur jafnan eftir á þessum árstíma þegar hægja fer á ferðamannastraumnum til landsins.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem matarkarfan hækkar í verði í nóvember (+0,02% áhrif á VNV) en undanfarin ár hafa útsölur/tilboð á ýmsum matvælum látið á sér kræla á svipuðum tíma og jólageitin er sett upp í Ikea, Léttbylgjan verður jólastöð og blóðþrýstingur landsmanna hækkar. Matarkarfan hækkaði hressilega í október og hækkuðu bæði innflutt og innlend matvæli í verð. Sama var uppi á teningnum í nóvember og því eitthvað annað að verki en einfaldlega gengisþróun síðustu mánaða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð hækkar á ný

Húsnæðisliðurinn hækkaði um 0,45% milli mánaða í nóvember (+0,14% áhrif á VNV). Eftir nokkuð athyglisverðan októbermánuð, þegar viðhaldskostnaður dreif húsnæðisliðinn áfram, virðist þróunin vera komin aftur í sama hjólfarið, þ.e.a.s. húsnæðisverð (+0,14% áhrif á VNV) hrifsaði aftur til sín keflið og heldur húsnæðisliðnum uppi. Alls hækkaði húsnæðisverð um 0,72% milli mánaða, sem er nokkuð meiri hækkun en við höfðum gert ráð fyrir. Nokkuð hefur hægt á hækkunartaktinum á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem litið er til fjölbýlis eða einbýlis. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% á milli mánaða í nóvember á meðan einbýli lækkaði um 0,2%. Húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðis tók aftur á móti kipp og hækkaði um 2,8% milli mánaða, en varast ber að draga of sterkar ályktanir af þeirri þróun enda fáir samningar og ólíkar eignir sem standa þar að baki.

Við teljum líklegt að litlar hækkanir, eins og hafa sést í tölum Þjóðskrár og Hagstofunnar síðustu mánuði, séu það sem koma skal. Mjög litlar hækkanir ásetts verð og stöðug aukning söluframboðs styðja ennfremur við að meiri ró sé að færast yfir markaðinn, enda gerir hagspá okkar ráð fyrir því að íbúðaverð hækki um 7,3% á næsta ári. Íbúðaverð hefur hækkað það mikið að innstæðan fyrir frekari hækkunum er minni, en einnig gerum við ráð fyrir hægari launahækkunum og fjölgun nýbygginga sem mun líklega hægt og bítandi slá á húsnæðisskortinn.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Lítil verðbólga yfir jólahátíðina

Verðbólguþróun næstu mánaða er ekki til þess fallin til að auka á jólastress landsmanna, en útlit er fyrir að verðbólga haldist undir 2% næstu mánuði og standi í 1,9% í febrúar. Líkt og við bentum á í hagspá okkar sem kom út fyrr í mánuðinum er útlit fyrir að verðbólga taki að stíga um mitt næsta ár. Samsetning verðbólgunnar verður þó önnur en við höfum vanist að undanförnu þar sem gert er ráð fyrir að innfluttar vörur taki að leggjast á sveif með innlendum samhliða vaxandi verðbólgu í okkar helstu viðskiptalöndum, en á móti fari vægi húsnæðisliðarins minnkandi.

Líkt og með allar spár er alltaf óvissa fyrir hendi en það sem skiptir einna mestu máli fyrir verðbólguhorfurnar er launaþróun á komandi mánuðum. Mikill fjöldi kjarasamninga eru lausir um þessar mundir og fleiri losna á næsta ári. Samkvæmt fréttum síðustu daga hyggst væntanleg ríkisstjórn beita sér í komandi kjaraviðræðum, s.s. með skattalækkunum til að koma til móts við vinnumarkaðinn. Hver endanleg niðurstaða verður mun hafa töluverð áhrif á framþróun verðbólgunnar á næsta ári, en teljast verður erfitt fyrir innlend fyrirtæki að taka á sig jafn miklar hækkanir launakostnaðar aftur án þess að velta þeim út í verðlagið.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Desember +0,23%: Flugfargjöld og húsnæðisliðurinn hækkar, aðrir liðir breytast lítið.
Janúar -0,49%: Útsölur á fötum og skóm og húsgögnum ganga í garð.
Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif ganga til baka, flugfargjöld og húsnæðisverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka