Mikill en minnkandi viðskiptaafgangur

Mikill en minnkandi viðskiptaafgangur

Viðskiptaafgangur var 68 ma.kr. á 3. ársfjórðungi sem er minna en á sama tíma í fyrra þegar met var slegið og skýrist það aðallega af 25 ma.kr. aukningu vöruskiptahalla. Viðskiptaafgangurinn er aðeins minni en við spáðum en þó í meginatriðum í samræmi við okkar væntingar. Þessi mikli viðskiptaafgangur og losun fjármagnshafta hefur skapað grundvöll fyrir auknar fjárfestingar Íslendinga erlendis og nam verðbréfafjárfesting innlendra aðila erlendis 96 ma.kr. frá júní til október. Það, ásamt öðru, hefur vafalítið átt þátt í veikingu krónunnar sl. sumar. Erlend staða þjóðabúsins hefur að líkindum aldrei verið betri og viðvarandi viðskiptaafgangur er sömuleiðis nýmæli í íslenskri hagsögu. Horft til gengisstöðugleika er viðskiptaafgangurinn kærkominn en líka ef litið er til þess að lífeyrissjóðir og aðrir þurfa í auknum mæli að fjárfesta erlendis.

Þjónustujöfnuður viðheldur viðskiptaafgangi

Viðskiptaafgangur var á flesta mælikvarða mikill á 3. ársfjórðungi eða 68 ma.kr. Það er þó minna en á sama tíma í fyrra þegar met var slegið og skýrist það aðallega af 25 ma.kr. aukningu vöruskiptahalla. Eins og sést hér að neðan er það þjónustujöfnuðurinn sem ber uppi viðskiptajöfnuðinn og skýrist það fyrst og fremst af umsvifum í ferðaþjónustu. Nýjustu tölur benda til þess að þar sé farið að hægja á. Á 3. fjórðungi jukust þó tekjur af ferðamönnum um 12% milli ára á föstu gengi sem hlýtur að teljast kraftmikill vöxtur. Þessar tölur eru í ágætu samræmi okkar hagspá en þó er afgangurinn heldur minni en við bjuggumst við. Það skýrist af ýmsu en aðallega því að annar þjónustuútflutningur en ferðaþjónusta dróst saman um 21% á föstu gengi og að útflutningstekjur af farþegaflugi voru minni en við spáðum.

Það vekur nokkra athygli okkar að enn og aftur voru frumþáttatekjur (fjármagns- og launatekjur/gjöld gagnvart útlöndum) jákvæðar eða um 1,6 ma.kr. en við höfðum gert ráð fyrir því að þær myndu verða neikvæðar nú á seinni hluta ársins. Þó að erlend staða þjóðarbúsins sé jákvæð höfðum við gert ráð fyrir að vaxtamunur milli Íslands og útlanda myndi þýða meiri fjármagnsgjöld en -tekjur gagnvart útlöndum. Á hinn bóginn voru rekstrarframlög nokkuð neikvæð eða um 3,5 ma.kr. og jókst hallinn um rúman milljarð króna frá fyrra ári, einkum vegna aukningar peningasendinga einstaklinga til útlanda, sem skýrist líklega af fjölgun erlends vinnuafls hér á landi.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *leiðrétt fyrir slitabúum bankanna

Íslendingar fjárfesta erlendis fyrir viðskiptaafganginn

Hvað gerum við fyrir viðskiptaafganginn? Svarið við því er misjafnt og oft óljóst, en að þessu sinni er það nokkuð skýrt miðað við myndina hér vinstra megin að neðan: Við höfum fjárfest erlendis fyrir hann og greitt niður skuldir. Á fjórðungnum fjárfestu íslenskir aðilar fyrir 43 ma.kr. í erlendum verðbréfum en einnig jókst afleiðustaða gagnvart útlöndum um nærri 11 ma.kr. Innlendir fjárfestar virðast því hafa tekið losun fjármagnshafta fyrr á árinu fegins hendi. Innlendir aðilar greiddu sömuleiðis niður skuldir gagnvart útlöndum um 44 ma.kr. og munar mestu um liðinn „annað“ á myndinni til vinstri. Stærsti liðurinn sem fellur þar undir er viðskiptakröfur erlendra aðila á innlenda aðila og minnkuðu þær um 31 ma.kr. á fjórðungnum. Athyglisvert er hvernig þessi liður hefur verið árstíðabundinn síðustu ár. Innlendir aðilar virðast sem heild safna viðskiptaskuldum frá ca. október og fram á sumar en greiða þær svo að jafnaði niður yfir hásumarið og fram á haust. Þetta er einkum athyglisvert þar sem skuldirnar eru greiddar niður á þeim tíma sem viðskiptaafgangur er mestur og þetta vegur því á móti árstíðarsveiflum á gjaldeyrisflæði, einkum vegna ferðaþjónustu. Það er því ekki að undra að engin árstíðasveifla mælist á gengi krónunnar.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Á fjórðungnum var nærri 400 ma.kr. neikvæð bein fjárfesting með lánsfé bæði eigna og skuldamegin í fjármagnsjöfnuði. Mögulega er þar á ferðinni eitthvað tengt eignarhaldsfélögum um eignir gömlu bankana og/eða alþjóðlegra fyrirtækja skráðra hér á landi.

Nú eftir losun fjármagnshafta mun fjármagnsflæði milli landa ráða meira en áður um gengi krónunnar. Stór liður í því er verðbréfafjárfesting milli landa og sjá má hér að neðan hvernig hún hefur þróast. Taka skal fram að þessar tölur geta litast af einskiptisliðum og skekkjum. Við viljum vekja sérstaklega athygli á þróuninni frá því vor. Í maí virðist sem gjaldeyrisinnflæði vegna verðbréfafjárfestingar hafi numið nærri 24 ma.kr. og á sama tíma styrktist krónan um 5,6%. Líkt og fyrr segir tók krónan aftur á móti að veikjast í júní og nam veikingin fram í ágúst 15% þegar mest lét. Á því tímabili og út október hefur gjaldeyrir leitað erlendis til fjárfestingar og nemur útflæði verðbréfafjárfestingar samtals 97 milljörðum króna. Þó að skekkjur geti verið á þessum tölum og þær lýsa gjaldeyrisviðskiptum að takmörkuðu leyti teljum viða afar líklegt að þessar fjárfestingar hafi átt þátt í veikingu krónunnar sl. sumar.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ísland aftur í plús – erlend staða þjóðarbúsins (líklega) aldrei betri

Sú breyting sem orðið hefur á erlendri stöðu þjóðarbúsins (eignir að frádregnum skuldum gagnvart útlöndum) á síðustu árum er allt að því undraverð. Eftir örlítið bakslag á 2. ársfjórðungi varð erlend staða þjóðarbúsins aftur jákvæð sem nemur 4,4% af landsframleiðslu í lok september. Það skýrist bæði af fjármagnsjöfnuðinum sem fjallað var um hér á undan, en einnig af veikingu krónunnar og verðhækkunum á erlendum hlutabréfamörkuðum. Þannig hefur erlend staða þjóðarbúsins líklega aldrei verið betri og í það minnsta aldrei betri frá árinu 1960. Viðskiptajöfnuðurinn, sem ræður að mjög miklu leyti erlendri stöðu þjóðarbúsins, hefur að sama skapi gjörbreyst og er viðvarandi viðskiptaafgangur algjörlega ný staða í íslenskri hagsögu. Þessi þróun getur ásamt öðru leitt til þess að á Íslandi lækki vaxtastig almennt á næstu árum eða áratugum eins og við fjölluðum um í nýrri greiningu sem kallast „Lágvaxtalandið Ísland: Hvenær kemur þú?“.

Við munum líka að óbreyttu þurfa myndarlegan viðskiptaafgang á komandi árum ef við horfum eingöngu til stærðar lífeyriskerfisins. Árleg fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er meiri en 200 ma.kr. og hlutfall erlendra eigna einungis 23% sem að flestra mati er of lágt. Með auknu innstreymi í lífeyrissjóði mun því vera mikil þörf fyrir viðskiptaafgangi til þess að þeir geti fjárfest erlendis og þá er ótalin þörf annarra, t.d. fyrirtækja og heimila, til að fjárfesta erlendis. Ef viðskiptaafgangur minnkar þurfa fjárfestingar erlendra aðila hér á landi að vera þeim mun meiri til að hægt sé að uppfylla erlenda fjárfestingaþörf innlendra aðila án skakkafalla fyrir gengi krónunnar.

Heimildir: Rammagrein í Peningamálum Seðlabankans 16/2. Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Miðað við spá Greiningardeildar fyrir 2017.