Drungi í desember, verðbólgan 2%, svo skelfing lítil er

Drungi í desember, verðbólgan 2%, svo skelfing lítil er

Er líða fer að jólum, og hátíð fer í hönd, á vísitala neysluverðs (VNV) það til að hækka (frá árinu 1968 hefur vísitalan aðeins lækkað níu sinnum í desember). Við spáum að þessi þróun haldi áfram og að verðlag hækki um 0,4% milli mánaða í desember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan hækka úr 1,7% í 2%. Þetta er nokkuð meiri verðbólga en bráðabirgðaspá okkar frá því í nóvember hljóðaði upp á og stafar það aðallega af meiri hækkun flugfargjalda til útlanda en þá var gert ráð fyrir. Aðrir liðir sem vega til hækkunar í desember eru húsnæðisliðurinn, einkum reiknuð húsaleiga (+0,08% áhrif á VNV) og föt og skór (+0,04% áhrif á VNV), á meðan aðrir liðir hækka minna. Fáir liðir synda á móti straumnum að þessu sinni, en við gerum ráð fyrir matarkarfan og póstur og sími lækki lítillega (hvor liður hefur -0,01% áhrif á VNV).

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 Við spáum að verðlag lækki um 0,4% í janúarútsölum, hækki um 0,6% í febrúar, þegar útsölurnar byrja að ganga til baka, og hækki um 0,4% í mars. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 2,4% í mars á næsta ári. 

Komdu um jólin – en kauptu flugmiðann snemma

Að þessu sinni er það flugliðurinn sem dregur verðbólgusleðann, með flugfargjöld til útlanda í hlutverki Rúdólfs. Flugfargjöld til útlanda hækka alla jafna í desember enda fólk hvaðanæva af úr heiminum að fljúga til síns heima yfir hátíðarnar, margir sem þeysast til útlanda til að klára jólagjafakaupin á meðan enn aðrir flýja jólastressið og halda erlendis. Við teljum að flugfargjöld til útlanda hækki um 11% í desember (+0,22% áhrif á VNV), sem er nokkuð meiri hækkun en á sama tíma í fyrra, en í hóflegri kantinum í sögulegu samhengi. Þannig gengur lækkun nóvembermánaðar að einhverju leyti til baka, en hún var nokkuð meiri en væntingar stóðu til um. Við spáum að flugfargjöld lækki aftur í janúar, en að lækkunin verði ekki jafn mikil og í upphafi þessa árs í ljósi þess að alþjóðleg þróun bendir til þess að meðalfargjöld hafi náð botninum - allavega í bili.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Skreytum hús með hærra verði

Við spáum að húsnæðisverð haldi áfram að hækka í desember, eða um 0,3% (+0,06% áhrif á VNV). Verulega hefur hægt á hækkunum húsnæðisverðs að undanförnu samhliða stöðugri aukningu söluframboðs. Líkt og margoft hefur komið fram í okkar skrifum teljum við að þetta sé þróunin sem koma skal enda er lítið svigrúm fyrir frekari hækkanir eftir rússíbanareiðina í upphafi árs. Hér ber að hafa í huga að hægari hækkanir eru ekki það sama og lækkanir. Við teljum óverulegar líkur á því að húsnæðisverð taki að lækka á komandi mánuðum enda er ennþá húsnæðisskortur til staðar, góður gangur í hagkerfinu og útlit fyrir að laun muni halda áfram að hækka. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu verður því áfram jákvætt en minna en síðustu misseri.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Gjaldskrárbreytingar falla, á allt og alla

Þó að verðbólguþróunin næstu mánuði auki líklega ekki á jólastress landsmanna þá gæti hún hækkað blóðþrýsting nefndarmanna peningastefnunefndar lítið eitt. Útlit er fyrir að verðbólga hækki nokkuð skarpt á komandi mánuðum og standi í 2,4% í mars, en slíkar tölur hafa ekki sést frá því í júlí 2014. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta næsta árs og taki þá að stíga.

Það sem vegur þyngst í verðbólguþróun yfir áramótin er sem fyrr reiptog útsala og gjaldskrárhækkana. Við teljum að útsöluáhrifin verði líkt og í fyrra, nokkuð minni en hefur gengið og gerst. Ástæðan er fyrst og fremst sú að verð á fatnaði, skóm og húsgögnum hefur lækkað jafnt og þétt að undanförnu, bæði vegna styrkingar krónunnar og aukinnar samkeppni. Á móti vegur að útsöluáhrifin fjara ekki jafn hratt né harkalega út og áður. Hvað varðar gjaldskrárhækkanirnar þá er sú staða upp á teningnum að fjárlagafrumvarp liggur ekki fyrir. Fjármálaráðherra hefur ekki viljað gefa mikið upp um efnisatriði frumvarpsins nema að kolefnisgjaldið mun hækka um 50% um áramótin og að eldsneytisgjöldin, eins og þau voru kynnt í haust, verða tekin til endurskoðunar. Einnig munu aðrir skattabreytingar sem geta komið fram til lækkunar vísitölunnar, s.s. skattar á bækur, tónlist og ritmál, ekki koma fram um áramótin sökum undirbúningsvinnu. Þá má ekki gleyma að Reykjavíkurborg er að hækka ýmsar gjaldskrár um áramótin sem að öllum líkindum mun hafa áhrif til hækkunar verðlags í janúar.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Janúar -0,4%: Útsölur á fötum og skóm og húsgögnum ganga í garð, gjaldskrárhækkanir vega á móti.
  • Febrúar +0,6%: Útsöluáhrif byrja að ganga til baka, flugfargjöld og húsnæði hækkar.
  • Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga að fullu til baka, húsnæði, tómstundir og flugfargjöld hækka.
 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka