Nú falla öll vötn í Haukadal

Nú falla öll vötn í Haukadal

Miðvikudaginn 13. desember nk. tilkynnir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands um vaxtaákvörðun og spáum við óbreyttum stýrivöxtum. Meginvextir verða því áfram 4,25%. Stóra myndin hvað varðar verðbólguhorfur og aðra efnahagsþróun hefur lítið breyst frá síðustu ákvörðun í nóvember, þegar nefndin taldi aðhald peningastefnunnar hæfilegt. Jafnvel þó líklega sé svigrúm fyrir frekari vaxtalækkun/-ir teljum við að það væri slæmt fyrir trúverðugleika peningastefnunefndar að lækka vexti nú þar sem fjárlög liggja ekki fyrir. Þá verða forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði endurskoðaðar í upphafi næsta árs. Einnig eru nýbirtir þjóðhagsreikningar, þar sem hagvöxtur var umfram spá Seðlabankans og vöxtur þjóðarútgjalda 11%, til þess fallnir að draga úr líkum á vaxtalækkun. Þannig falla öll vötn í Haukadal að þessu sinni.

Lítið óvænt að frétta frá síðustu ákvörðun

Stutt er frá því að peningastefnunefnd hittist síðast, eða tæplega einn mánuður, og þó að ný ríkisstjórn hafi verið mynduð í millitíðinni hafa fá stór óvænt tíðindi orðið. Hvað varðar hagtölur og vísbendingar um efnahagsþróunina hefur stóra myndin lítið breyst að okkar mati. Gengi krónunnar hefur veikst um rúmlega 1% en er þó sterkara en það var að jafnaði í október. Þá er verðbólguálag á markaði nærri óbreytt frá síðasta fundi og til 2021 hefur það hækkað um 0,03 prósentustig og er nú 2,49% eða við verðbólgumarkmið. Verðbólguhorfur hafa enda lítið breyst og mælist verðbólga nú 1,7%. Við teljum að verðbólgutakturinn muni þokast nær markmiði á næstu mánuðum og fara yfir markmið á næsta á ári.

Þó að verðbólga fari lítillega yfir markmið teljum við að peningastefnunefnd muni sofa nokkuð rólega yfir því þar sem það er jafn eðlilegt að verðbólga sé aðeins yfir markmiði líkt og aðeins undir því. Þá er ýmislegt sem bendir til þess að kjölfesta verðbólguvæntinga hafi styrkst, sem þýðir að nefndin getur horft fram á meiri verðbólgu til skemmri tíma en áður án þess að grípa til vaxtatækisins. Einnig spáum við því að það hægi á í efnahagslífinu á næsta ári sem kallar á minna aðhald og lægri raunvexti en ella, og því ekki víst að vaxandi verðbólga leiði til hærri vaxta.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Börnin stálust í konfektkassann – tómleg fundargerð

Fundargerð peningastefnunefndar var frekar tómleg að þessu sinni. Ef við líkjum henni við konfektkassa, eins og við höfum áður gert, þá var þetta konfektkassinn sem börnin stálust í. Í fundargerðinni er m.a. fjallað um nýja spá Seðlabankans sem gerir ráð fyrir að hægja sé talsvert á hagvexti. Þó er settur fyrirvari við þá þróun þar sem vísbendingar eru að einhverju leyti misvísandi. Til dæmis er útlánavöxtur að aukast, eins og sést hér að neðan, og nemur ársvöxturinn fyrir innlánsstofanir og lífeyrissjóði samtals 9,5%, þar af jukust lán bakanna um 6,8% milli ára í október. Við teljum að þessi útlánavöxtur muni vega nokkuð þungt í því að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni. 

Einnig vék nefndin að því að verðbólga sé að þróast með þeim hætti að minnkandi framlag húsnæðisliðarins vegi að miklu leyti á móti minnkandi áhrifum gengisstyrkingar. Framsýna leiðsögnin er eins og oftast áður frekar óskýr en þó „voru nefndarmenn sammála um að núverandi aðhald peningastefnunnar virtist að svo stöddu duga til þess að verðbólga verði að jafnaði við markmið“. Þar sem raunstýrivextir miðað við mismunandi mælikvarða hafa lítið breyst teljum við að þetta atriði muni vega þungt í því að vextir verði óbreyttir nú.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hagvöxtur undir okkar væntingum en yfir væntingum Seðlabankans

Nýbirtar tölur Hagstofunnar um þjóðhagsreikninga styrkja okkur í þeirri skoðun að vextir verði óbreyttir í næstu viku. Þó að 3,1% hagvöxtur á 3. ársfjórðungi sé undir okkar væntingum þá er hann nokkuð yfir spá Seðlabankans sem hljóðaði upp á rúmlega 1%. Hagvöxtur umfram spá Seðlabankans og mikil aukning þjóðarútgjalda, sem var meiri en við (og líklega Seðlabankinn) spáðum, eða um 10,7%, er til þess fallin að draga úr líkum á því að vextir verði lækkaðir. Þegar vextir voru lækkaðir á sama tíma í fyrra í kjölfar nýbirtra þjóðhagsreikninga sem gáfu til kynna 10% hagvöxt á 3. fjórðungi var vísað til þess að samsetning hagvaxtar hefði verið sérstaklega hagfelld vegna jákvæðs framlags utanríkisviðskipta. Því er ekki að skipta núna og eru utanríkisviðskiptin með nærri 5% neikvætt framlag til hagvaxtar. Þar ræður mestu að útflutningur dróst saman um 0,1%.

Einkaneysla var minni en við spáðum og jókst um tæp 7% en við höfðum spá 9% vexti. Þá vakti það athygli okkar hve mikill kraftur var í vexti fjárfestingar. Atvinnuvegafjárfesting jókst um 10% og íbúðafjárfesting um 48% en hvort tveggja er í ágætu samræmi við okkar spá. Það sem skýrir muninn á okkar spá og rauntölum er tæplega 40% vöxtur opinberrar fjárfestingar á fjórðungnum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Óvissa um fjárlög og kjaraviðræður

Í umfjöllun um fundargerðina hér að undan skautuðum við framhjá umræðu og orðum peningastefnunefndar um ríkisfjármál og kjarasamninga Þessi atriði verðskulda sérstaka efnisgrein þar sem þau munu skipta mjög miklu máli fyrir þróun verðbólgu og vaxta á komandi misserum. Í huga peningastefnunefndar virðist vera skýrt að ef afgangur ríkissjóðs minnkar muni það kalla á meira aðhald og því hærri vexti en ella. Enda sýnir fráviksdæmi í Peningamálum að vextir muni verða meira en hálfu prósenti hærri en ella ef það sem Seðlabankinn kallar „neðri mörk kosningaloforða“ rætist. Þá losna margir kjarasamningar á næsta ári og mun niðurstaða þeirra hafa sitt að segja um verðlagsþróun næstu ára. Svipuð varnaðarorð heyrðust árið 2015 sem reyndust orðin tóm. Við teljum þó að þau eigi við, enda höfum við lýst því að laun og verðbólga séu svolítið eins og Rachel og Ross í sjónvarpsþáttunum Friends: Í pásu en ekki hætt saman. Líkt og Ross og Rachel munu verðbólga og launaþróun enda saman því við munum ekki alltaf geta treyst á að allt falli með okkur eins og síðustu ár.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Gert er ráð fyrir 42 ma.kr. útgjaldaaukningu umfram ríkisfjármálaáætlun frá og með næsta ári. **Launakostnaður á framleidda einingu að viðbættum framleiðnivexti.