Harðnar í ári hjá vaxtadúfum

Harðnar í ári hjá vaxtadúfum

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti í morgun ákvörðun sína um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 4,25%, sem er í takt við væntingar flestra greiningaraðila. Ákvörðunin er fyrst og fremst rökstudd með kröftugum hagvexti og að litlar breytingar hafi orðið á gengi krónunnar og verðbólguvæntingum. Það sem helst vekur athygli okkar er nokkuð harðari tónn en í síðustu ákvörðunum og beinist hann að miklu leyti að opinberum fjármálum. Annars vegar þætti þeirra í meiri vexti innlendrar eftirspurnar en spáð hafði verið en einnig í framsýnu leiðsögninni sem segir berum orðum að slakara aðhald ríkisfjármála kalli á meira peningalegt aðhald en ella. Þannig mun niðurstaða fjárlaga hafa áhrif á hvað nefndin gerir þegar hún hittist næst 7. febrúar. Þó að stóra myndin í efnahagsþróuninni hafi lítið breyst síðustu vikur þykir okkur ástæða til að fjalla um og benda á að ferðamönnum hefur ekki fjölgað jafn lítið í sjö ár og er fjölgun þeirra í nóvember langt undir spá ISAVIA. Útlit er fyrir að mun hægari vöxtur sé framundan í ferðaþjónustu sem mun vafalítið móta peningastefnuna á nýju ári.

Er vaxtalækkunarferlinu að ljúka?

Fátt kom okkur á óvart í fremur þunnri yfirlýsingu nefndarinnar en fjallað er um að hagvöxtur hafi verið umfram spá Seðlabankans. Einnig er fjallað um samspil áhrifa hægari hækkana húsnæðisverðs og minnkandi áhrifa gengisstyrkingar á verðbólgu auk lítilla breytinga á raunvöxtum, verðbólguvæntingum og á gjaldeyrismarkaði. Ákvörðunin og umræður á kynningarfundi í kjölfar hennar styrkja okkur í þeirri skoðun að peningastefnunefnd telji að lítið svigrúm sé til staðar fyrir frekari vaxtalækkanir að svo stöddu og mögulega ekkert nema óvænt aðhald sé að finna í komandi fjárlögum. Seðlabankastjóri talaði á kynningarfundinum í morgun á þeim nótum að hversu mikið vextir hafa lækkað á síðustu 16 mánuðum hafi ásamt öðru leitt til óbreyttra vaxta nú.

Í verðbólguspá okkar fyrir desember er því spað að verðbólgutakturinn fari upp í 2% í fyrsta sinn í rúmt ár. Þar kemur einnig fram að horfur eru á því að verðbólga muni þokast nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði í mars. Í hagspá okkar og spá Seðlabankans er enn fremur gert ráð fyrir að verðbólga fari yfir markmið á næsta ári. Óvissuþættirnir eru margir og hafa oft verið taldir upp af okkur og Seðlabankanum. Það sem við viljum þó benda á er að ytri þættir eins og gengisstyrking vegna ferðamannastraums og lítil erlend verðbólga virðast hættir að leggjast á móti verðbólgunni. Það þýðir ekki endilega að verðbólga muni rjúka af stað, heldur að má minna út af bregða en fyrir nokkrum misserum til að verðbólga fari yfir verðbólgumarkmið.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hið opinbera: Óþekka barnið á vaxtaballinu

Það sem einnig styrkir þá skoðun að lítið svigrúm sé fyrir vaxtalækkanir á næstu misserum eru horfur í opinberum fjármálum. Það má með sanni segja að fjármál hins opinbera hafi verið í aðalhlutverki í jólayfirlýsingu peningastefnunefndar, en tæplega 20% yfirlýsingarinnar beindist að þeim. Í nóvemberhefti Peningamála birti Seðlabankinn nýja þjóðhagsspá þar sem gert var ráð fyrir 3,7% hagvexti í ár. Eftir birtingu þjóðhagsreikninga síðasta föstudag er ljóst að hagvöxtur verði nokkuð meiri, einkum sökum vaxtar í innlendri eftirspurn eða þjóðarútgjalda. Að miklu leyti á hið opinbera hlut í máli en bæði samneyslan og fjárfesting hins opinbera hafa aukist meira en væntingar Seðlabankans stóðu til um. Þannig hefur samneyslan ekki vaxið jafn hratt frá árinu 2008 á meðan fjárfesting hins opinbera hefur sjaldan vaxið jafn mikið, en nýtt met var slegið á þriðja ársfjórðungi þessa árs þegar vöxturinn mældist 40%. Hafa ber þó í huga að fjárfesting hins opinbera er að koma af lágum grunni og hefur setið nokkuð á hakanum frá fjármálakreppunni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar kemur fram að slakni á aðhaldi í ríkisfjármálum á næsta ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í Peningamálum þurfi peningastefnan að vera aðhaldssamari ella. Þar sem nýtt fjárlagafrumvarp verður lagt fram á morgun er vandasamt á þessum tímapunkti að spá í spilin fyrir næsta ár. Það sem hefur þó komið fram er að væntanlegur afgangur af nýju fjárlagafrumvarpi verði mun minni en þeir 44 milljarðar sem upphaflega var gert ráð fyrir, sem bendir til að harðna fari í ári hjá vaxtadúfum.

Minnsta fjölgun ferðamanna í sex ár

Þó að peningastefnunefnd hafi ekki vakið sérstaka athygli á því þá vöktu nýjar tölur um fjölda ferðamanna athygli okkar. Enda skipta þær miklu máli þar sem um er að ræða langstærstu atvinnugreinina og ráðandi þátt í efnahagsþróuninni. Ferðamönnum fjölgaði um tæp 9,8% milli ára, sem á flestum stöðum í heiminum myndi teljast býsna gott. Í samhengi þróunarinnar á Íslandi sl. sjö ár er þetta þó hæg fjölgun og sú minnsta í sex ár. Síðustu mánuði hefur hægt verulega á fjölgun ferðamanna og spáum við 11% fjölgun ferðamanna á næsta ári, líkt og ISAVIA.

Heimild: Ferðamálastofa

Það er jafnvel athyglisverðara að í nóvember fjölgaði ferðamönnum mun minna en skv. spá ISAVIA sem birt var í nóvember og gerði ráð fyrir 31% fjölgun. Að hluta til skýrist þetta af því að farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 20% en ekki 24% eins og spáð hafði verið. Einnig skiptir máli að hlutfall skiptifarþega var fimm prósentustigum hærra en spáð hafði verið eða 34%. Með það í huga og að Pólverjar stóðu undir nærri fimmtungi fjölgunar erlendra farþega sem fara frá landinu er því líklegt að raunverulegur fjöldi erlendra ferðamanna hafi verið lægri í nóvember. Stærsti hópur erlendra ríkisborga hér á landi er sem kunnugt er með pólskt ríkisfang, eða 46% erlendra ríkisborgara, og því er væntanlega um að ræða íbúa landsins að miklu leyti í tölum um brottfarir Pólverja.

Heimildir: Ferðamálastofa, ISAVIA, Greiningardeild Arion banka.

Ef hægari fjölgun ferðamanna er það sem koma skal, sérstaklega ef hún verður undir spám, mun það hægja á vexti hagkerfisins að óbreyttu. Það gæti því opnað á svigrúm til frekari vaxtalækkana á næsta ári. Það er þó háð ýmsu og mögulega óskhyggja því hægari fjölgun ferðamanna eða stöðnun í fjölda þeirra gæti jafnvel leitt til að krónan gefi eitthvað eftir á næstunni sem myndi auka verðbólgu og því kalla á hærri vexti en ella.