Kaupmáttarkrókur á stúfana fer, mörg kíló af keti í kerruna ber

Kaupmáttarkrókur á stúfana fer, mörg kíló af keti í kerruna ber

„Hvað borðar þú á jólunum?“ er spurning sem nær allir landsmenn hafa borið upp, nú eða svarað, að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni (til gamans má geta að svarið er í nær helmings tilfella hamborgarhryggur). Eftir því sem árin færast yfir dvínar spenningurinn fyrir gjöfunum undir trénu og tilhlökkunin beinist í meira mæli að notalegum samverustundum með ástvinum og samviskulausu áti. Jólin eru jú matarhátíð mikil og nota margir tækifærið og gera vel við sig í mat og drykk, enda kræsingar á hverju strái í desember.

Veislumaturinn leikur oft pyngjuna grátt enda kostar hann skildinginn. Fyrir tveimur árum setti Greiningardeild upp pípuna, hattinn og stækkunarglerið og tók saman einfalda jólamatarkörfu til að svara spurningunni hvað jólamaturinn kosti. Í kjölfar þess að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) birti nýja verðkönnun á jólamat undir lok síðustu viku þótti okkur tilvalið að heimsækja aftur þessa spurningu og sjá hvað breyst hefur.

Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að það sem hér á eftir fer miðar við lægsta verð hverju sinni í könnun ASÍ. Þá eru oftar en ekki tilboð á jólamat fyrir hátíðirnar sem geta skekkt samanburð á milli ára. Sem dæmi sýnir myndin hér að neðan að jarðarber hafi hækkað um 2,1% frá desember 2015, sem kemur eflaust einhverjum spánskt fyrir sjónir eftir innreið Costco á jarðarberjamarkaðinn. Hér eru tilboðsverð að öllum líkindum að blekkja í ljósi þess að ef meðalkílóverð á jarðarberjum í desember 2015 er borið saman við meðalkílóverð á jarðarberjum í desember 2017 kemur í ljós að verðið hefur lækkað um tæp 20%, sem er nær annarri berjaþróun. Af 36 vörum hafa níu vörur lækkað í verði, ein staðið í stað og aðrar hækkað. Matarkarfan í heild sinni hefur aftur á móti lækkað um 2,1%.

 

Heimildir: Alþýðusamband Íslands, Greiningardeild Arion banka

Til að skoða verðþróunina yfir nokkurra ára tímabil þarf að skilja einhverjar vörur eftir áður en haldið er að kassanum, þar sem vöruúrtak í verðkönnunum ASÍ er ekki alltaf sambærilegt á milli ára. Þá var ekki birt verðkönnun á jólamat í fyrra svo gripið var til þess ráðs að taka meðalverð á milli áranna 2015 og 2017 til að fá samfellda tímaröð. Frá árinu 2009 og fram til ársins 2015 skar hangilæri sig úr þegar kom að verðþróun, en síðan þá hefur verðið aftur á móti gefið eftir og dregið saman með öðrum vörum. Vinsælasta jólameðlæti Íslendinga, grænar baunir og rauðkál, er langt því frá að vera samstíga þegar kemur að verðþróun þar sem grænar baunir hafa hækkað mest af neðangreindum vörum á meðan rauðkál kostar það sama og árið 2009.

Þróunin á myndinni hér að neðan er dálítið eins og langhlaup; flestir eru nokkuð jafnir til að byrja með, þó auðvitað séu alltaf einhverjir sem rjúka af stað með offorsi, en á endanum er það sá sem heldur dampi og á ennþá orku inni á lokasprettinum sem stendur uppi sem sigurvegari. Í þessu tilfelli eru það laun, sem hafa hækkað um heil 72% frá desember 2009.

 

Heimildir: Alþýðusamband Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kaupmáttur launa mældur í jólamat

Þegar laun hækka umfram almennt verðlag er sagt að kaupmáttur launa hafi aukist, þ.e.a.s. launþegar geta keypt meira fyrir launin sín en þeir gátu áður. Sama hugsun gildir ef laun hækka meira en verð á jólamat, hægt er að kaupa meira magn af jólamat en áður fyrir launaseðilinn. Líkt og fram kom hér að ofan hefur jólamatarkarfan í heild sinni lækkað um 2,1% frá desember 2015. Á sama tíma hafa laun hækkað um 16,2%, sem samsvarar tæplega 19% kaupmáttaraukningu í jólamat á tveimur árum! Til samanburðar hefur kaupmáttur launa, miðað við almennt verðlag, aukist um 12,1%.

Hægt er að taka þessar reikniæfingar skrefinu lengra og mæla kaupmátt launa í einstökum vörum. Þeir sem eiga blá jól án bláberja geta glaðst þar sem kaupmáttur launa mældur í bláberjum hefur aukist um hvorki meira né minna en 124%, á meðan rauðrófuunnendur horfa fram á aukinn kostnað við jólahald. Nammigrísir og sælkerar hafa einnig tilefni til að gleðjast en kaupmáttur mældur í t.d. After Eight, Ferrero Rocher, vanilluhringjum og Nóa konfekti hefur aukist umfram 15% í öllum tilvikum.

 

Heimildir: Alþýðusamband Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Elda skal nú krásirnar af bestu gerð

Að horfa á prósentubreytingar er gott og blessað, en hvað þýðir það nákvæmlega að kaupmáttur launa mældur í birkireyktu úrbeinuðu hangilæri hafi aukist um 23% á tveimur árum?

Inni á vef Hagstofunnar er að finna gögn um meðaltal reglulegra launa í hverjum mánuði eftir starfsstétt. Sem dæmi voru regluleg laun iðnaðarmanna að meðaltali 461 þúsund árið 2015. Fyrir þessa upphæð gat iðnaðarmaður farið út í búð í desember árið 2015 og keypt 128 kíló af birkireyktu hangilæri, 323 kíló af kalkún eða 310 kíló af hamborgarhrygg. Í desember á þessu ári, að gefinni launa og verðlagsþróun, getur sami iðnaðarmaðurinn fengið 31 kílói meira af hangilæri, 35 kílóum meira af kalkún eða 27 kílóum meira af hamborgarhrygg fyrir launin sín en hann gat fyrir tveimur árum síðan. Þetta er sýnt myndrænt á myndinni hér að neðan, þ.e.a.s. hver kílóaaukningin er á milli áranna 2015 og 2017.

Sömu sögu er að segja um aðrar starfsstéttir, enda hefur kaupmáttaraukning í landinu verið nær fordæmalaus. Þennan árangur er nauðsynlegt að hafa í huga þegar gengið er inn í nýja árið og sest að samningaborðum á vinnumarkaði. Líkt og við höfum áður fjallað um, bæði í okkar markaðspunktum og hagspá, þá er staðan á vinnumarkaði viðkvæm og einn helsti áhættuþátturinn fyrir framþróun þjóðarbúsins. Því er gott að taka jólin til að slaka á, borða á sig gat af góðum mat og ígrunda vel næstu skref.

 

Heimildir: Alþýðusamband Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Fyrir árið 2017 er notast við mánaðarlega launavísitölu á almennum vinnumarkaði eftir starfstétt.