Gleði, friðar og vaxandi verðbólgujól

Gleði, friðar og vaxandi verðbólgujól

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,27% milli mánaða í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar því í 1,9% úr 1,7% í nóvember. Að þessu sinni var hækkunin nokkurn veginn í takti við væntingar greiningaraðila en spár fyrir desember lágu á bilinu 0,2% til 0,5% hækkunar milli mánaða en við spáðum 0,4% hækkun. Ákveðnar sviptingar hafa átt sér stað í samsetningu verðbólgunnar síðustu mánuði. Í nóvember kvað við gamalkunnugt stef, húsnæðisliðurinn dreif verðbólguna áfram, en í desember er eins og skipt hafi verið um útvarpsstöð: Húsnæðisliðurinn lækkaði um 0,44% milli mánaða (-0,15% áhrif á VNV) sem einvörðungu má rekja til lækkunar á reiknaðri húsaleigu um -1,08% (-0,22% áhrif á VNV). Leita þarf aftur til október árið 2012 til að finna viðlíka lækkun í einum mánuði. Aðrir undirliðir húsnæðisliðarins hækkuðu, einkum greidd húsaleiga sem hækkaði um 1% (+0,06% áhrif á VNV) og rafmagn sem hækkaði um 0,57%. (+0,01% áhrif á VNV). Á móti lækkun húsnæðisverðs vógu þyngst flugfargjöld til útlanda (+0,26% áhrif á VNV), matarkarfan (+0,06% áhrif á VNV) og föt og skór (+0,05% áhrif á VNV).

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Það var einkum tvennt sem kom okkur á óvart að þessu sinni í verðbólgumælingunni. Í fyrsta lagi var það talsverð hækkun á mat og drykkjarvörum, en matarkarfan hækkaði um 0,41% milli mánaða. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem matarkarfan hækkar og hefur hún nú hækkað um tæp 2% á hálfu ári, eftir nær samfellda lækkunarhrinu frá miðju ári 2016. Í spá okkar reiknuðum við með að aukin samkeppni milli verslana um jólaösina myndi setja þrýsting á verð en svo reyndist ekki vera. Þá hefur krónan verið nokkuð stöðug síðustu mánuði en. Því má velta fyrir sér hvort hækkandi kostnaður fyrirtækja og sé að skila sér í auknum mæli út í verðlagið.

Í öðru kom lækkun húsnæðisverðs okkur talsvert á óvart en við spáðum lítilsháttar hækkun. Að þessu sinni var það húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins sem keyrði lækkunina áfram en það lækkaði um 3,2% milli mánaða. Lækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu um 1,3% milli mánaða kom okkur líka í opna skjöldu, sérstaklega hversu hratt og mikil lækkunin var. Aftur á móti kemur ekki á óvart að verulega sé að hægja á hækkunartakti íbúðaverðs, enda höfum við fjallað um vísbendingar um það allt frá því sl. vor. Þó húsnæðisverð lækki einn og einn mánuð teljum við að almennar verðlækkanir séu ólíklegar.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sama verðbólga – ólík samsetning

Án húsnæðisliðarins mældist verðhjöðnun upp á -1,6%. Verulega hefur dregið úr verðhjöðnuninni undanfarna mánuði en hún var í kringum 3% í sumar. Þó að verðhjöðnun sé ennþá til staðar eru engu að síður vísbendingar um að innlendur verðbólguþrýstingur sé að taka við sér. Sem dæmi hafa innlendar vörur og grænmeti tekið að hækka á ný og sömuleiðis hefur dregið úr verðhjöðnun á innfluttum vörum, sem kemur beint og óbeint fram í verðlagi. Á sama tíma er að draga úr framlagi húsnæðisliðarins, svo samsetning verðbólgunnar er að breytast.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

K-in þrjú: Kjarasamningar, kaupverð og krónan

Verðbólguhorfurnar næstu misseri eru ekki til þess fallnar að ræna meðlimi peningastefnunefndar af gleðilegum jólum. Útlit er fyrir að verðbólgan taki að stíga á næstu mánuðum og verði komin í 2,3% í mars, en komið er meira en ár síðan verðbólgan rauf síðast 2% múrinn. Einnig má geta þess að Seðlabankinn spáði í nóvember 1,9% verðbólgu á ársfjórðungnum en raunin varð 1,8%. Til skemmri tíma litið er það reiptog útsala og gjaldskrárhækkana sem vegur þyngst í verðbólguþróun næstu mánuði. Helstu gjaldskrárhækkanir á vegum ríkisins sem koma til kasta um áramótin er hækkun kolefnagjalds, en áhrif þess á VNV eru metin til 0,03% hækkunar. Gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar eru heldur víðtækari og munu að öllum líkindum hafa áhrif til hækkunar verðlags um áramótin.

Hvað varðar verðbólguþróun næsta árið leika k-in þrjú aðalhlutverkið, þ.e.a.s. kjarasamningar, kaupverð húsnæðis og krónan. Verkfall flugvirkja og nýlegar ákvarðanir kjararáðs eru ekki til þess fallnar að viðhalda friði á vinnumarkaði, en tekin verður ákvörðun í febrúar hvort kjarasamningum verði rift. Nefndarmenn peningastefnunnar munu beina haukfránum augum að þróuninni á vinnumarkaði, en verði samningum rift er verður að teljast ólíklegt að vextir verði lækkaðir á næstunni. Haldi innlendur verðbólguþrýstingur áfram að aukast á komandi mánuðum er ljóst að hægja verður verulega á húsnæðisverðhækkunum til að halda verðbólgunni undir markmiði.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Janúar -0,5%: Útsölur á fötum og skóm ganga í garð, gjaldskrárhækkanir vega á móti.
Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif byrja að ganga til baka og flugfargjöld hækka.
Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga að fullu til baka, flugfargjöld og tómstundir hækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka