Hjöðnun í hjaðnúar

Hjöðnun í hjaðnúar

Janúar er venjulega útsölumánuðir, sem þýðir lækkun verðlags á milli mánaða, að því gefnu að króna og fasteignamarkaður séu til friðs. Allt bendir til að útsölurnar beri sigur úr býtum í viðureigninni við gjaldskrárhækkanir og húsnæðisliðinn að þessu sinni og spáum við 0,45% lækkun verðlags milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir er 12 mánaða taktur verðbólgunnar 2,0% sem er hækkun úr 1,9% frá því í desember. Fyrir ári var 12 mánaða taktur verðbólgunnar 1,9% eftir 0,57% lækkun vísitölunnar í janúar 2017. Helstu áhrifaþættir til hækkunar eru húsnæðisliðurinn, bensínverð og gjaldskrárhækkanir, en helstu áhrifaþættir til lækkunar eru útsölur á fatnaði og húsgögnum og flugfargjöld til útlanda.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði bendir til þess að verðlag hækki um 0,8% í febrúar, 0,5% í mars og 0,3% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa 2,5% í mars og í 2,3% í apríl.

Útsölur og flugfargjöld toga niður mælinguna

Mæld útsöluáhrif Hagstofunnar í janúar hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Talsverðar sveiflur hafa verið á útsöluáhrifum fataliðarins í janúar en á undanförnum tveimur árum hafa janúarlækkanirnar farið minnkandi. Aukin samkeppni hefur væntanlega skilað minni sveigjanleika til að lækka verð í janúar. Á móti hafa janúarlækkanir húsgagnaverslana færst í aukana. Við gerum ráð fyrir 10% lækkun á fatalið (-0,38% áhrif á VNV) og 7,5% lækkun á húsgögnum (-0,3% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Mæling á verði flugfargjalda bendir til töluverðar lækkunar á liðnum að þessu sinni. Undanfarin þrjú ár hefur liðurinn lækkað á bilinu 5-15% í janúar. Að undanförnu hafa komið fram merki þess efnis að flugfargjöld séu ekki undir jafn mikilli pressu og undanfarin ár, hvort svo sem það komi fram í nýjustu mælingu Hagstofunnar eða ekki, og teljum við líklegt að næstu mánuði gæti komið til undirliggjandi verðhækkana. Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda lækki um 15% í janúar (-0,12% áhrif á VNV) sem er í takti við lækkunina í fyrra. Þannig gengur hækkunin í desember að hluta til baka, en hún var nokkuð meiri en væntingar stóðu til um.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð farið af hraðbrautinni en ekki búið að leggja

Þrátt fyrir að dregið hafi úr verðhækkunum á húsnæði þá eru fáar vísbendingar um að verð fari lækkandi. Hér ber að hafa í huga að hægari hækkanir eru ekki það sama og lækkanir. Við teljum óverulegar líkur á því að húsnæðisverð taki að lækka á komandi mánuðum enda er ennþá húsnæðisskortur til staðar, góður gangur í hagkerfinu og útlit fyrir að laun muni halda áfram að hækka. Þá benda hátíðnivísbendingar til þess að nýjasta þróun á fasteignamarkaðnum sé tímabundin, til að mynda er söluframboð að aukast mun hægar og ásett verð íbúða að hækka, eða að minnsta kosti hætt að lækka. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu mun því verða áfram jákvætt en mun minna en síðustu misseri. Við spáum að húsnæðisverð haldi áfram að hækka í janúar, eða um 0,16% (+0,03% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kolefnisgjald var hækkað um áramótin með tilheyrandi áhrifum á bensínverð. Mæling bendir til að verð á bensínlítra hafi hækkað um 2,8% á milli mánaða en tæp 4% á dísellítra ( samtals +0,054% áhrif á VNV).

Gjaldskrárbreytingar koma til áhrifa og útsölur ganga til baka í febrúar-mars

Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hækki á komandi mánuðum og standi í 2,6% í mars, en slíkar tölur hafa ekki sést frá því í júlí 2014. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Seðlabankinn spáir 2% verðbólgu (12 mánaða taktur) á fyrsta ársfjórðungi 2018 og ef spá greiningardeildar gengur eftir þá dregur það úr líkum á stýrivaxtalækkun.

Gjaldskrárhækkanir ganga að mestu í gegn í janúar en einhverjar gjaldskrárhækkanir sem tilkynnt var um í kringum áramót, koma til framkvæmda á næstu mánuðum. Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
• Febrúar +0,8%: Útsöluáhrif byrja að ganga til baka, flugfargjöld og húsnæði hækkar.
• Mars +0,5%: Útsöluáhrif ganga að fullu til baka, húsnæði, tómstundir og flugfargjöld hækka.
• Apríl +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld hækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka