4F 2017: Íslendingar standast væntingar, ferðamenn ekki

4F 2017: Íslendingar standast væntingar, ferðamenn ekki

Með fyrirsögninni hér að ofan er hvorki átt við gáfur, fegurð eða listræna tilburði, heldur eyðslu. Síðustu daga hafa komið fram tölur sem gefa ákveðnar vísbendingar um þróun einkaneyslu og og viðskiptajafnaðar á fjórða ársfjórðungi (4F) 2017, en fyrir helgi birti Ferðamálastofa fjölda erlendra ferðamanna í desember og í gær birti svo Seðlabankinn kortaveltutölur. Til að gera langa sögu stutta þá ollu ferðamenn okkur vonbrigðum, bæði komu færri en við áttum von á og þeir héldu fastar um budduna en við höfðum reiknað með, á meðan hegðun Íslendinga var meira í takti við okkar væntingar, þ.e.a.s. aukinn kaupmáttur og sterk króna nýtt til hins ýtrasta sem endurspeglaðist í miklum innflutningsvexti og sterkum kortaveltuvexti. Þetta þýðir að búast má við slökum viðskiptajöfnuði á 4F og útilokum við ekki að viðskiptahalli verði raunin, í fyrsta skipti á ársfjórðungi frá árinu 2014.

Ferðaþjónustan komin yfir mesta vaxtarkúfinn

Síðastliðin föstudag birti Ferðmálastofa tölur um brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll í desember. Fjölgunin í desember nam samtals 8,4% milli ára, sem er minnsti vöxturinn í einum mánuði í sjö ár og talsvert undir væntingum, bæði okkar og ISAVIA. Samtals fjölgaði því erlendum ferðamönnum hér á landi um 24% milli ára, sbr. 40% fjölgun árið áður. Í hagspá okkar frá því í byrjun nóvember var gert ráð fyrir 25% fjölgun erlendra ferðamanna á árinu, enda reiknuðum við með nokkuð sterkari tölum á síðasta fjórðungi ársins.

Ef uppgangi ferðaþjónustunnar væri líkt við þroska einstaklings mætti segja að flest benti til þess að greinin sé komin yfir táningsaldurinn, hinn hraði vöxtur sé liðinn og framundan sé þroskaskeið þar sem álkulegur líkaminn tekur að samsvara sér betur. Vísbendingunum fjölgar hratt og er kortaveltan þar engin undantekning. Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans dróst erlend kortavelta hér á landi saman í desember, annan mánuðinn í röð, hvort sem miðað er við fast eða breytilegt gengi. Nóvember var fyrsti mánuðurinn síðan í júní 2010 sem erlend kortavelta dróst saman á föstu gengi. Kortavelta á hvern ferðamann dróst því saman um 13% í nóvember og 12% í desember. Með öðrum orðum, hver erlendur ferðamaður er að eyða minna í sinni eigin mynt en hann gerði áður, sem getur verið ein birtingarmynd þess að ferðamenn eru að dvelja skemur á landinu. Hafa ber í huga að þetta eru miklar breytingar á milli ára og má vera að sveiflur í flugliðnum séu að lita niðurstöðurnar, en flugliðurinn endurspeglar ekki endilega neyslu ferðamanna á Íslandi. Það mun skýrast betur þegar Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) birtir sundurliðaðar kortaveltutölur. 

Heimildir: Ferðamálastofa, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í hagspá okkar sem birt var í byrjun nóvember var gert ráð fyrir nokkuð hraðari fjölgun ferðamanna en raun bar vitni á síðasta fjórðungi ársins, en einnig kom fremur lítil kortavelta á hvern ferðamann okkur á óvart. Margt bendir því til þess að þjónustuafgangur á 4F verði talsvert lakari en við höfðum áður áætlað. Á sama tíma hefur vöruskiptahallinn farið hratt vaxandi og endaði árið 2017 í 172 ma.kr. halla, sem er nærri 5 ma.kr. meiri halli en við höfðum áður spáð. Það lítur því út fyrir að viðskiptajöfnuður á 4F verið töluvert lakari en við reiknuðum með, og er ekki loku fyrir það skotið að viðskiptahalli verði raunin, í fyrsta skipti á ársfjórðungi frá árinu 2014.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innlend kort vinna fyrir árgjaldinu

Áfram mældist kraftmikill vöxtur í heildarkortaveltu Íslendinga, þó eilítið hafi hægt á. Þannig jókst kortaveltan um 7% milli ára á föstu gengi og verðlagi, sem er nokkuð minni vöxtur en undanfarna mánuði sem hafa einkennst af tveggja stafa vaxtartölum. Sem fyrr var vöxturinn drifinn áfram af kortaveltu erlendis, enda hafa landsmenn verið duglegir að nýta sér mikinn kaupmátt og sterkt gengi, bæði til að skreppa til útlanda og halda starfsmönnum flutningafyrirtækja uppteknum með stóraukinni netverslun.

Á 4F jókst heildarkortavelta landsmanna um 10,1%, sem er í góðu samræmi við okkar væntingar og hagspá. Kortaveltan hefur jafnan ágætt forspárgildi um þróun einkaneyslu, þó örlítið hafa dregið í sundur með þessum stærðum líkt og sást á þriðja ársfjórðungi þegar kortaveltan jókst umtalsvert umfram einkaneyslu. Kortaveltutölur fyrir 4F gefa að okkar mati ekki sérstakt tilefni til að endurmeta einkaneysluspá okkar frá því í nóvember, sem gerir ráð fyrir rúmlega 7% vexti.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka