Verðbólgan lætur vita af sér

Verðbólgan lætur vita af sér

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,09% á milli mánaða í janúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkaði í 2,4% úr 1,9% í desember. Mæling Hagstofunnar var talsvert hærri en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Opinberar spár gerðu ráð fyrir 0,6% til 0,45% lækkun milli mánaða. Við spáðum 0,45% lækkun. Óvænta efni mælingar Hagstofunnar að þessu sinni er reiknuð og greidd húsaleiga sem var hærri en gert var ráð fyrir. Það skýrist að miklu leyti af gríðarmikilli mældri hækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni sem setur liðinn reiknaða húsaleigu úr skorðum. Að öðru leyti er þróun undirliggjandi þátta ekki óvænt þó verðbólguþrýstingur sé að sönnu meiri en við væntum. 

Hemild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka 

Liðurinn reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,94% (0,19% áhrif á VNV) og greidd húsaleiga hækkaði um 0,88% (0,05% áhrif á VNV). Aðrir liðir sem vekja sérstaka athygli okkar eru flugfargjöld til útlanda sem lækkuðu um 8,9% (-0,1% áhrif á VNV) og matarkarfan sem hækkaði um 0,5% (0,07% áhrif á VNV) eftir 0,45% hækkun körfunnar í desember. Ekki fæst annað séð en að uppsafnaðar þrýstingur á matvöruverð sé að brjótast út nú þegar að áhrif af styrkingu krónunnar og nýrri samkeppni dvína.

Hemild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Syngjandi landsbyggðarsveifla í húsnæðislið

Mæling Hagstofunnar á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hækkaði um hvorki meira né minna en 5,4% á milli mánaða í janúar. Sögulega er afar mikið flökt á þessum lið og eitt sinn hækkaði hann svo mikið sem 8,6% milli mánaða. Verðbólguspámönnum hefur í gegnum tíðina reynst afar erfitt að fylgja því flökti á eftir. Þó svo undirvísitalan markaðsverð íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni sé alla jafna ekki ráðandi í breytingu vísitölunnar þá hefur sveifla af þessari stærð talsverð áhrif. Þróun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt mælingu Hagstofunnar var af öðrum toga milli mánaða. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 2%. Það er sömuleiðis sveifla sem er fullkomlega úr takti við það sem sést hefur undanfarna mánuði.Heilt yfir hækkaði verð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu um 0,8% milli mánaða í janúar samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir 16% hækkun á íbúðaverði á landsbyggðinni undanfarna 12 mánuði, þá lækkaði undirvísitalan fjórum sinnum á því tímabili en verð á höfuðborgarsvæðinu lækkuðu aldrei á milli mánaða. Því kæmi ekki á óvart að íbúðaverð á landsbyggðinni myndi lita einhverja mælingu ársins til lækkunar.

Verðbólguspá fyrir næstu mánuði:

  • Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif byrja að ganga til baka, flugfargjöld hækka.
  • Mars +0,5%: Útsöluáhrif ganga að fullu til baka, tómstundir og flugfargjöld hækka.
  • Apríl +0,3%: Flugfargjöld hækka.    

Hemild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka