Húsnæðismarkaðurinn: Frá hæli til heilsu

Húsnæðismarkaðurinn: Frá hæli til heilsu

Greiningardeild Arion banka hefur nú birt nýja skýrslu um íbúðamarkaðinn. Í skýrslunni má finna ýmsar upplýsingar sem snúa að þessum mikilvæga markaði, t.d. um eftirspurn, verðþróun, áætlanir um byggingu íbúða og verðspá.

 Húsnæðismarkaðurinn: Frá hæli til heilsu 

Helstu niðurstöður 

  • Húsnæðisverð hækkaði verulega árið 2017, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Mestar hafa hækkanirnar verið í úthverfum höfuðborgarsvæðisins og nágrannasveitarfélögum.
  • Á eftirspurnarhliðinni er fátt sem bendir til almennra verðlækkana á næstu árum. Útlit er fyrir að efnahagsástand verði áfram gott, kaupmáttur muni halda áfram að aukast og að fólksfjölgun verði ör. Þá er fremur gott aðgengi að fjármagni um þessar mundir og vextir af íbúðalánum hafa lækkað.
  • Íbúðafjöldi á landinu jókst um 1700 íbúðir á síðasta ári og aukið framboð er í farvatninu. Byggja þarf hátt í níu þúsund íbúðir á landinu öllu fram til ársloka 2020, ef markmiðið er að vinna á skortinum sem myndast hefur og til að framboð haldi í við fólksfjölgun. Samkvæmt okkar spá er ólíklegt að sá fjöldi náist.
  • Við spáum 6,6% hækkun húsnæðisverðs í ár, 4,1% hækkun á næsta ári og 2,3% hækkun árið 2020. Útlit er fyrir að undir lok spátímans muni raunverð húsnæðis lækka á milli ára. Eins og alltaf er spáin háð ströngum forsendum og sviðsmyndagreining leiðir í ljós að breyttar forsendur gefa breytta spá.
  • Húsnæðisverð hefur hækkað verulega umfram undirliggjandi þætti síðustu tvö ár. Ólíkt stöðunni fyrir rúmu ári síðan á þetta við um öll hverfi, ekki bara miðsvæði Reykjavíkur. Þannig hafa verðhækkanirnar smitast út í jaðrana, sem sést meðal annars í lægra miðborgarálagi.
  • Gangi spá okkar eftir mun ákveðin leiðrétting eiga sér stað á húsnæðismarkaðnum á næstu árum, þ.e.a.s. undirliggjandi þættir, s.s. laun, munu hækka umfram húsnæðisverð. Þó sá möguleiki sé alltaf til staðar er ólíklegt að leiðréttingin eigi sér stað í gegnum lækkun húsnæðisverðs. 

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka