Nýtt ár, sömu vextir

Nýtt ár, sömu vextir

Vaxtákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt nk. miðvikudag, ásamt því að ný Peningamál verða birt. Í fyrsta sinn í meira en ár teljum við að valið standi ekki á milli lægri og óbreyttra vaxta, heldur teljum við að vaxtahækkanir séu að þoka sér inn á borðið á nýjan leik sem raunhæfur möguleiki. Engu að síður erum við býsna sannfærð um að nefndin ákveði að halda vöxtum óbreyttum í þetta sinn, enda tiltölulega stutt í næstu vaxtaákvörðun í mars og ljóst að stórar ákvarðanir á vinnumarkaði verða teknar í millitíðinni. Það verður þó að segjast eins og er að séð með gleraugum nefndarmanna hafa ákvörðunarþættir fremur þróast í átt til þess að nefndin telji meira aðhalds þörf heldur en minna. Rök fyrir óbreyttum vöxtum eru þó enn yfirgnæfandi en við teljum að tónn nefndarinnar verði eftir sem áður harður.

Við síðustu vaxtaákvörðun í um miðjan desember kvað við mun harðari tón en áður hjá peningastefnunefnd í garð opinberra fjármála. Nefndin sagði slaka í opinberum fjármálum síðasta árs m.a. skýra aukinn hraða í innlendri eftirspurn og varaði við auknum slaka í opinberum fjármálum á þessu ári sem kallaði á meira aðhald en ella. Fjárlagafrumvarp ársins 2018 var unnið á grunni þess frumvarps sem lá fyrir við síðasta vaxtaákvörðunarfund þó vissulega beri það merki meiri slaka en þar hafði verið gert ráð fyrir. Þá hefur einnig borið á auknum slaki í fjármálastefnu sveitarfélaganna. Peningastefnunefnd mun því vafalítið ítreka varnaðarorð sín.

Heimildir: Fjármálaráðuneytið, Greiningardeild Arion banka

Vaxtavendinum veifað að vinnumarkaði

Þá mun nefndin nær örugglega brýna fyrir aðilum vinnumarkaðarins að semja á þeim nótum að það samræmist verðbólgumarkmiðið. Á vígstöðvum liggja reyndar leiðir opinberra fjármála og launaþróunar í landinu saman með mjög mikilvægum hætti nú í vor þegar semja þarf við stórar stéttir starfsmanna sveitarfélaganna. Sveitarstjórnarmenn þurfa sterk bein til að standa í orrahríð erfiðra kjaraviðræðna í undanfara sveitarstjórnarkosninga. Þá virkjast endurskoðunarákvæði kjarasamninga aðildarfélaga innan ASÍ í febrúar og verður þá hægt að segja upp samningum. Verði þeim sagt upp virkjast endurskoðunarákvæði í samningum BSRB. Afar mikið hangir á launaþróun komandi mánaða og alveg ljóst að ákvarðanir kjararáðs hafa gert stöðuna snúnari en ella.

Það er hins vegar ekkert sem bendir til að þjóðarskútan ráði við verulega hækkun launakostnaðar án þess að það skili sér beint út í verðlag. Síðustu árin hefur styrking krónunnar haldið aftur af verðbólgunni að viðbættum Costco/H&M-áhrifum. Nú þarf hins vegar eitthvað mjög óvænt að gerast til að raungengi krónunnar styrkist til muna á meðan veruleg hækkun launa mun nær örugglega stuðla að minni viðskiptaafgangi og veikingu krónunnar. Peningastefnunefnd sér því væntanlega ekki annað í spilunum en að verðbólga fari yfir markmið ef illa fer á vinnumarkaði. Þess vegna mun Peningastefnunefnd líkast til senda skýr skilaboð til aðila vinnumarkaðarins á miðvikudaginn.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Spár úr PM 2017/4.

„I told you so“ í farvatninu?

Seðlabankinn hefur í útgáfum sínum í auknum mæli kynnt með hvaða hætti frávik á borð við aukinn slakai í opinberum fjármálum eða minni viðskiptaafgangur hafa á vexti Seðlabankans. Reikna má með því að svipað verði uppi á teningnum í Peningamálum sem bankinn gefur út samhliða vaxtaákvörðun. Ef peningastefnunefnd sér fyrir sér brotlendingu í ríkisfjármálum og/eða á vinnumarkaði munum við því síðar á þessu ári, eða því næsta, verða vitni að „I told you so“- vaxtahækkunum frá Seðlabankanum. Það er hins vegar ekki tímabært. Við erum t.a.m. enn í grófum dráttum þeirrar skoðunar að launhækkanir verði hóflegar og þær muni ekki setja slíkan þrýsting á verðlag að Peningastefnunefnd telji sig knúna til að hækka vexti. Sú skoðun er byggð á hagspá frá í nóvember sem ber raunsanna yfirskrift: „Of gott til að vera satt?“

Heimildir: Kodiak, NasdaqOMX, Greiningardeild Arion banka

Aðhaldsstig stýrivaxta hefur lækkað síðustu mánuði mælt í raunstýrivöxtum á markaði. Í því felst að markaðsaðilar hafa væntingar um að verðbólga á næstu árum verði meiri en var við síðustu vaxtaákvörðun. Seðlabankinn lítur til fleiri þátta við mat á verðbólguvæntingum, t.d. kannana meðal fyrirtækja og heimila. Aðhaldsstig stýrivaxta á þennan mælikvarða hefur ekki verið lægra síðan í ágúst 2015. Við eigum þó ekki von á því að peningastefnunefnd horfi þannig á málið að verulega sé að hrikta í stoðum „kjölfestu verðbólguvæntinga“ en mun vafalítið hafa augun á þessari þróun.

Ekki vanmeta peningastefnunefnd

Að finna rök fyrir vaxtalækkunum má ekki beint líkja við að finna nál í heystakk, meira eins og að finna prjón, þó ekki megi vanmeta hæfileika nefndarmanna að draga hin ýmsu rök upp úr hattinum til að styðja við mál sitt. Prjónninn að þessu sinni er hægari útflutningsvöxtur og útlit fyrir versnandi viðskiptajöfnuð. Líkt og við höfum áður bent á eru fjölmargar vísbendingar þess efnis að ferðaþjónustan sé komin yfir mesta vaxtarkúfinn í bili. Fjöldatölur voru nokkuð undir væntingum á síðasta ársfjórðungi og kortaveltuvöxturinn, jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir flugi, var lítill. Hægari vöxtur í ferðaþjónustunni þýðir að öðru óbreyttu hægari vöxt hagkerfisins og minnkandi framleiðsluspennu, sem gæti þar af leiðandi gefið smá smugu til vaxtalækkana. Í ljósi ofangreindra atriða er snúa að vinnumarkaðnum og opinberum fjármálum teljum við að nefndin muni ekki finna prjóninn í þetta sinn.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Rannsóknarsetur verslunarinnar, Greiningardeild Arion banka

Lítið að marka síðustu húsnæðismælingu

Síðasta verðbólgumæling kom greiningaraðilum í opna skjöldu og má ætla að við fyrstu sýn hafi nefndarmenn lyft brúnum. Við nánari skoðun er þó ljóst að mælingin var nokkuð undarleg fyrir þær sakir að húsnæðisliðurinn litaðist af 5,4% hækkun húsnæðis á landsbyggðinni og 2,0% lækkun sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu milli desember og janúar. Það getur varla talist lýsandi fyrir það sem er að gerast á húsnæðismarkaði um þessar mundir. Við erum því áfram þeirrar skoðunar að taktur hækkunar húsnæðisverðs muni koma niður á yfirstandandi ári og á næstu árum eins og fram kemur í nýrri skýrslu Greiningardeildar um húsnæðismarkaðinn. Verðbólgutölurnar sýna þó svo ekki sé um villst að verðbólga mjakast upp á við og bráðabirgðaverðbólguspá okkar gerir ráð fyrir að verðbólga fari yfir markmið í mars.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Utan áhrifasvæðis Seðlabankans

Loks má benda á að verðbólga í helstu viðskiptalöndum hefur farið stigvaxandi og koma þar m.a. til áhrif af hækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði. Áhugavert verður að sjá hvaða augum peningastefnunefnd lítur verðbólguþrýsting vegna hækkunar eldsneytisverðs á heimsmarkaði. Sú hækkun er utan áhrifasviðs peningastefnu hér á landi og ættu áhrif af henni að vera tímabundin.