Spáum 0,7% hækkun verðlags í febrúar

Spáum 0,7% hækkun verðlags í febrúar

Í febrúar ganga útsölur venjulega að mestu leyti til baka og í ár verður engin undantekning á því. Ef spá okkar gengur eftir þá hækkar vísitala neysluverðs um 0,7% í febrúar sem þýðir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar lækkar í 2,3%. Í febrúar fyrir ári hækkaði vísitalan um 0,7% sem nú dettur út úr 12 mánaða taktinum. Hagstofan mælir vísitölu neysluverðs í þessari viku og niðurstaðan verður birt 26. febrúar næstkomandi.

Helstu áhrifaþættir til hækkunar að þessu sinni eru útsöluáhrif sem ganga að mestu til baka, t.d. spáum við að verð á húsgögnum hækki um 5,1% (0,21% áhrif á VNV) og fata- og skóverð hækki um 4,1% (0,16% áhrif á VNV) milli mánaða. Þá bendir mæling okkar til þess að flugliðurinn hækki um rúmlega 10% (0,11% áhrif á VNV). Bensínverð hefur einnig hækkað og samkvæmt mælingu okkar þá hækkar bensínlítri um 0,56% og dísellítri um 0,85% (0,01% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Útsölur ganga til baka eftir minni útsöluáhrif en oft áður

Verð á fatnaði lækkaði um 10,3% í janúar og skóverð um 8,5% en undanfarin 4 ár hafa verðlækkanirnar verið ívið meiri eða um 12,3% á fatnaði og 12,0% á skóm. Af þeim sökum gerum við ráð fyrir minni verðhækkunum á þessum liðum í ár þar sem útsöluáhrifin voru minni en undanfarin ár. Hvað varðar húsgögn þá lækkuðu verðin um 5,9% í janúar sem er í takti við árin á undan og því gerum við ráð fyrir að verðhækkun húsgagna verði í takti við meðaltal undanfarinna ára eða um 5% hækkun á milli mánaða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vísbendingar um að fasteignaverð sé hætt að hækka en ásett verð í fasteignaauglýsingum hækkar enn

Vísitala íbúðaverðs hefur staðið nánast í stað frá því í maí 2017, þ.e. þótt verðin hafi hækkað eitthvað þá eru hækkanirnar miklu minni en árin á undan og lækkunarmánuður læddist inn í mælingu Þjóðskrár í nóvember. Ásett verð í fasteignaauglýsingum bæði fyrir sérbýli og fjölbýli halda hinsvegar áfram að hækka og hefur ásett verð sérbýlis ekki mælst jafn hátt frá því Greiningardeildin hóf að mæla ásett verð í fasteignaauglýsingum. Í verðbólguspánni erum við því að gera ráð fyrir léttum stíganda í fasteignaverði en engri flugeldasýningu. En síðan er spurning hvort að húsnæðisverðs á landsbyggðinni hafi áhrif á þessa mælingu.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hækki á komandi mánuðum og standi í 2,7% í mars, en slíkar tölur hafa ekki sést frá því í janúar 2014. Við teljum þó að árstakturinn sé síðan líklegur til að lækka þegar líður á sumarið. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Seðlabankinn hefur hækkað sína spá fyrir fyrsta ársfjórðung 2018 úr 2% í 2,4% verðbólgu (12 mánaða taktur).

Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Mars +0,4%: Útsöluáhrif ganga að fullu til baka, húsnæði, tómstundir og flugfargjöld hækka.
  • Apríl +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld hækka.
  • Maí +0,2%: Húsnæði, flugfargjöld hækka, áhrifa samnings um niðurfellingu tolla við Evrópusambandið hafa áhrif til lækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka