Verðbólga í takti við væntingar

Verðbólga í takti við væntingar

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,6% á milli mánaða í febrúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkaði þar með í 2,3%, úr 2,4% í janúar. Mæling Hagstofunnar var í takti við spár greiningaraðilar en spár voru eilítið hærri eða á bilinu 0,6-0,7%. Við spáðum 0,7% hækkun. Bensínverð lækkaði lítillega og verð á flugfargjöldum lækkaði einnig eða um 4,9% (-0,05% áhrif á VNV). Mæling okkar benti til hækkunar á flugfargjöldum og gerðum við ráð fyrir 10% hækkun á undirliðnum. Matarkarfan lækkaði um 0,09% (-0,01% áhrif á VNV) eftir að hafa hækkað um 0,4% í desember og 0,5% í janúar.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Enn og aftur þá hækkaði reiknuð húsaleiga og nam mánaðarbreytingin 0,74% (0,14% áhrif á VNV) og kemur kraftur hækkunarinnar að að einhverju leyti á óvart. Fasteignaverð á landsbyggðinni hækkaði um 1,64% samkvæmt mælingunni á meðan verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% og verð á sérbýli um 0,9%. Greidd húsaleiga hækkaði minna eða um 0,26%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Útsölur ganga til baka í takti við væntingar

Verð á fatnaði hækkaði um 4,9% vegna útsöluloka (0,18% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir 4,1% hækkun. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 5,8% (0,24% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir 5,1% hækkun á þeim lið. Í janúar lækkaði verð á fötum og skóm um 9,9% og eru því útsöluáhrifin tæplega gengin að helmingi til baka. Fyrir ári þá lækkaði verð á fötum og skóm um 10% vegna útsalna en í febrúarmælingunni þá hækkaði undirvísitalan um 0,72% og síðan um 7,95% mánuði síðar. Í mars á síðasta ári var því verð á fatnaði og skóm 2,1% lægra en í desember þar á undan. Ef við gefum okkur að útsöluáhrif á fatnaði og skóm gangi til baka í mars í sama mæli og í fyrra, þá þyrfti verð undirvísitölunnar að hækka um 3,65% í næsta mánuði (0,14% áhrif á VNV). Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um 5,9% í janúar og þarf því einungis að koma til 0,4% hækkun í mars til að verð á undirliðnum til að hann nái sama gildi og í desember.

Verðbólguspá fyrir næstu mánuði:

  • Mars +0,5%: Útsöluáhrif af fatnaði og skóm ganga að fullu til baka, tómstundir ogflugfargjöld hækka, undirliggjandi hækkun fasteignaverðs.
  • Apríl +0,3%: Flugfargjöld hækka, undirliggjandi hækkun fasteignaverðs.
  • Maí +0,2%: Undirliggjandi hækkun fasteignaverðs, matarkarfan gæti lækkað eitthvað fram á sumar vegna þess að samningur Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur tekur gildi 1. maí og falla þá niður tollar á 340 vörunúmerum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka