Þrjú skilti og Óskar

Þrjú skilti og Óskar

Fyrir rétt rúmu ári síðan átti sér stað örlagaríkur atburður. Warren Beatty og Faye Dunaway voru að tilkynna heiminum hvaða kvikmynd hefði unnið Óskarsverðlaunin eftirsóttu það árið fyrir bestu kvikmynd. Greiningardeild tók andköf þegar að þau Warren og Faye sögðu orðin: „And the Academy Award...for best picture.... oh common, La La Land“. Í fyrsta sinn í fjögur ár virtist sem okkur hefði tekist að spá fyrir rétt um sigurvegara hátíðarinnar! Sú gleði reyndist heldur betur skammlíf. Eftir að hafa staðið á sviðinu í rétt rúmar tvær mínútur fór að bera á ókyrrð á meðal aðstandenda La La Land og skömmu síðar tilkynntu framleiðundur kvikmyndarinnar, í miðri þakkarræðu, að kvikmyndin hefði í raun og veru lotið í lægra haldi fyrir Moonlight! Þvílík atburðarás. Þvílík spenna. Þvílíkt drama. Þvílík vonbrigði fyrir Greiningardeildina. Hvað sem því líður þá látum við ekki deigan síga og reynum nú fyrir okkur í fimmta skiptið!

Að þessu sinni eru níu myndir sem eru tilnefndar sem besta kvikmyndin, en þær eru: Call Me by Your Name, Darkest Hour, Dunkirk, Get Out, Lady Bird, Phantom Thread, The Post, The Shape of Water, og síðast en ekki síst, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri.

Hagfræðin og Óskarinn

Í þau fjögur skipti sem við höfum birt Óskarsspá höfum við stuðst við líkan hagfræðingsins Andrew B. Bernard, sem árið 2005 útbjó nokkuð einfalt probit-líkan. Fegurð einfaldleikans var ekki bara aðlaðandi heldur einnig árangursrík þar sem spágeta líkansins á þeim tíma, reiknuð afturvirkt, reyndist vera 90%, þ.e. það spáði rétt fyrir í 18 af 20 skiptum. Bernard rannsakaði fjöldann allan af breytum og forspárgildi þeirra á árunum 1984 til 2004, en breyturnar byggðu annars vegar á frammistöðustikum (t.d. velgengni á verðlaunahátíðum) og hins vegar á einkennisstikum (t.d. hvort myndin byggði á bók eða leikriti, hvort aðalhlutverkið deyi ótímabærum dauða eða setjist á hestbak). Líkan Bernard má setja fram á eftirfarandi máta:

Eftir sem árin liðu tók líkan Bernard hins vegar að missa marks sífellt oftar, m.a. vegna breyttrar talningu atkvæða. Vegna þessa tók Greiningardeildin sig til og reyndi eftir bestu getu að betrumbæta líkanið. Hið endurbætta líkan fangaði nýjan raunveruleika og ófyrirsjáanlegri akademíu betur en fyrri líkan Bertrand og var nokkuð lunkið við að spá fyrir um sigurvegara fortíðarinnar. Þrátt fyrir það stóðum við í Greiningardeild í sömu sporum og aðstandendur La La Land undir lok hátíðarinnar: hissa, vonsvikin og tómhent. Þetta undirstrikar vandkvæði tölfræðilíkana við spágerð; þau byggja á sögulegu samhengi sem þarf ekki endilega að eiga enn við rök að styðjast.

Það þýðir hinsvegar ekki að gefast upp þó á móti blási, og með orð Thomas Edison í huga, að öruggasta leiðin til að ná árangri er að reyna aftur, ákváðum við að reyna aftur.

Og Óskarinn hlýtur...

Ævintýralega ástarsagan milli mállausrar ræstingarkonu og dularfullrar vatnsveru eða sótsvarta gamandraman um syrgjandi móður sem tekur málin í sínar eigin hendur? Samkvæmt tölfræðinni koma báðar til greina, og raunar líka hjá veðbönkum, en afar mjótt er á munum milli myndanna. Líkan Bernard reiknar með því að The Shape of Water verði hlutskarpari en Three Billboards Outsde Ebbing, Missouri og gefur ævintýrinu rúmlega 43% sigurlíkur. Okkar endurbætta líkan frá því fyrir tveimur árum síðan spáir því hins vegar að syrgjandi móðirin eigi meira upp á pallborð Óskars akademíunnar og gefur henni um 53% líkur á sigri. Áhugavert er að sjá að spennutryllirinn Get Out, sem hefur verið að fá byr undir báða vængi undanfarið, fær ekki nema 0,7% sigurlíkur samkvæmt líkaninu okkar.

Undanfarin tvö ár höfum við einnig birt stigagjöf byggða á frammistöðu kvikmyndanna á verðlaunahátíðum það árið og sögulegu samhengi þeirra hátíða við sigurvegara Óskarsins. Sú stigagjöf hefur jafnan gefið til kynna harðari samkeppni um gullmanninn eftirsótta en líkönin hér að ofan og höfum við því endurtekið leikinn, einkum og sér í lagi í ljósi þess að líkönin hafa undantekningarlaust spáð rangri mynd nokkuð afgerandi sigri.

Líkt og fyrri ár sýnir stigagjöfin ekki jafn afgerandi niðurstöðu og líkönin hér að ofan, og mætti segja að sigurlíkur forystumyndanna tveggja væru komnar úr sama sveitarfélaga niður í sama póstnúmer. Þrátt fyrir það er aðeins einn sigurvegari, og út frá stigagjöfinni er það The Shape of Water.

Við erum því í hálfgerðum hnút þetta árið. Hvort eigum við að treysta líkaninu okkar, líkani Bernard eða stigagjöfinni? The Shape of Water hefur unnið hug og hjörtu leikstjóra og framleiðenda á meðan Three Billoards Outside Ebbing, Missouri hefur verið hlutskarpari meðal leikara og erlendu pressunnar. Þar sem að leikarar eru í þó nokkrum meirihluta í Óskarsakademíunni höfum við ákveðið að treysta líkaninu enn og aftur og spáum því að Three Billboards Outside Ebbing, Missouri fari heim með verðlaunin.

Og besti leikur fer til...

Með því að heimfæra stigagjöfina hér að ofan yfir á leikara þá birtum við einnig spá fyrir besta leik í aðal- og aukahlutverki. Þær spár hafa gengið prýðilega undanfarin tvö ár og haft rétt fyrir sér í öll skiptin.

Samkvæmt stigagjöfinni á Gary Oldman sigurinn vísan fyrir túlkun sína á Winston Churchill í Darkest Hour og Frances McDormand fyrir leik sinn í myndinni Three Billboards Outside Ebbing, Missouri. Er sú spá í takt við stuðla helstu veðbanka fyrir hátíðina.

Fyrir besta leik í aukahlutverki karla spáum við því að Sam Rockwell fari heim með styttuna gylltu, einnig fyrir leik sinn í Three Billoards Outside Ebbing, Missouri og að Allison Janney beri sigur úr býtum fyrir leik sinn í I, Tonya. Hvort tveggja hafa farið mikinn á yfirstandi verðlaunatímabili og hreppt nánast hver einustu verðlaun sem þau hafa verið tilnefnd til.

Hvernig sem fer þá er hátíðin sjálf hin besta skemmtun. Hvort sem það er tískan á rauða dreglinum, opnunarræða Jimmy Kimmel, ljúfir tónar Common eða Mary J. Blige eða hjartnæmar þakkaræður sigurvegara kvöldsins, Óskarinn hefur eitthvað fyrir alla. Við í Greiningardeildinni erum hins vegar bjartsýn um að þetta verði okkar ár og munum sitja límd við skjáinn. Þannig opnið kókið, poppið poppið og komið ykkur vel fyrir, Óskarshelgin er runnin upp!