Hratt minnkandi viðskiptaafgangur

Hratt minnkandi viðskiptaafgangur

Viðskiptaafgangur við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2017 var 2,8 ma.kr., sem er í senn bæði verulega minni afgangur en á sama tíma árið 2016 og minnsti afgangur á einstaka fjórðungi frá árinu 2014. Þrátt fyrir að afgangurinn sé lítilsháttar minni en við gerðum ráð fyrir í síðustu hagspá okkar (spáin hljóðaði upp á 4,2 ma.kr. afgang) koma tölurnar ekki á óvart, enda höfum við áður fjallað um að útlit væri fyrir nokkuð slakari fjórða fjórðungi í ljósi hægari vaxtar ferðaþjónustunnar og stigvaxandi vöruskiptahalla.

Líkt og áður sagði er niðurstaðan töluvert lakari en á 4F 2016, en þá nam viðskiptaafgangurinn 42 ma.kr. Það verður þó að segjast að það var metfjórðungur, hálfgerður Muhammad Ali fjórðu fjórðunganna, með ferðaþjónustuna í gríðarlegri sókn, hóflegan vöruskiptahalla og metjákvæðar frumþáttatekjur. Skjótt skipast veður í lofti og er staðan nokkuð önnur ári síðar; hægt hefur á vexti ferðaþjónustunnar, vöruskiptahallinn er þrefalt meiri en á 4F 2016 og jöfnuður frumþáttatekna aftur orðinn neikvæður, í fyrsta sinn frá árinu 2015. Þróun frumþáttatekna er í góðu samræmi við okkar væntingar, og raunar töldum við að þær yrðu fyrr neikvæðar á árinu vegna vaxtamunar milli Íslands og útlanda, þrátt fyrir jákvæða erlenda stöðu þjóðarbúsins.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Á árinu 2017 nam viðskiptaafgangur við útlönd 93 ma.kr., samanborið við tæplega 190 ma.kr. afgang árið 2016. Niðurstaðan er í ágætu samræmi við væntingar okkar, enda var stutt liðið á árið þegar ljóst var að viðskiptaafgangur myndi dragast verulega saman frá fyrra ári, sem var metár. Ástæðuna fyrir minni viðskiptaafgangi má sjá á myndinni hér að neðan. Mestu munar um stóraukinn vöruskiptahalla, en hann jókst um alls 65 ma.kr. á árinu, fyrst og fremst vegna gríðarlega mikils innflutningsvaxtar. Þá voru frumþáttatekjur mun minni en árið áður, eða 5,9 ma.kr. samanborið 46 ma.kr. árið 2016. Mestu munar um minni fjárfestingatekjur frá útlöndum en áður, sem má rekja til lægri vaxtagreiðslna, en þær voru óvenju miklar árið 2016.

Í rauninni er aðeins einn undirliður sem hefur jákvætt framlag til viðskiptajafnaðar og það er aukinn afgangur af þjónustuviðskiptum, eða sem nemur 15 ma.kr. Þetta er mun minni aukning en árið 2016 þegar afgangur af þjónustuviðskiptum jókst um tæpa 58 ma.kr., enda fjölgaði erlendum ferðamönnum þá um 40%. Á síðari helming ársins 2017 fór að hægja verulega á vexti ferðaþjónustunnar, sérstaklega á fjórða fjórðungi þegar talsvert færri ferðamenn sóttu landið heim en væntingar stóðu til um.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Stóreignalandið Ísland?

Samkvæmt tölum Seðlabankans hefur erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið betri, en hún nam 190 ma.kr. í lok árs 2017 sem samsvarar 7,5% af vergri landsframleiðslu. Erlenda staðan batnaði þannig um hvorki meira né minna en 63 ma.kr. á fjórða fjórðungi, eða 2,5% af VLF. Þessi mikla aukning skýrist bæði af fjármagnsjöfnuðinum sem fjallað er um hér að neðan, en í meira mæli af verðhækkunum á erlendum hlutabréfamörkuðum og gengisbreytingu krónunnar. Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans skiluðu gengis- og verðbreytingar um 33 ma.kr. til bættrar stöðu þjóðarbúsins á fjórðungnum.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Út með sparnaðinn

Viðskiptajöfnuðurinn er aðeins ein hlið peningsins, á hinni hliðinni er fjármagnsjöfnuðurinn sem mælir flæði fjármagns milli inn- og erlendra aðila. Í takti við viðskiptajöfnuðinn var fjármagnsjöfnuðurinn jákvæður um 73 ma.kr. árið 2017, og þar af 24 ma.kr. á fjórða fjórðungi. Það þýðir að Íslendingar færðu innlendar eignir yfir í erlendar umfram tilfærslu erlendra aðila í innlendar eignir sem því nemur. Þannig var eignastaða Íslendinga gagnvart útlöndum að batna sem endurspeglast í bættri erlendri stöðu.

Á síðustu mánuðum hefur krónan verið tiltölulega stöðug og sveiflast á nokkuð þröngu bili. Því virðist sem betra jafnvægi sé að skapast á gjaldeyrismarkaðnum en áður. Á fjórða fjórðungi lækkuðu erlendar eignir Íslendinga um 85 ma.kr., sem skýrist fyrst og fremst af minni beinni fjárfestingu fyrir eigið fjármagn. Aftur á móti lækkuðu skuldir ennþá meira, eða innlend eign erlendra aðila á myndinni hér að neðan, sem einnig má rekja til beinnar fjárfestingar, sem skýrir af hverju fjármagnsjöfnuðurinn var jákvæður á fjórðungnum.

Út frá fjármagnsjöfnuðinum má lesa að innlendir aðilar hafi tekið haftalosun fagnandi en fjárfesting í erlendum verðbréfum hefur aukist verulega. Sem dæmi fjárfestu innlendir aðilar fyrir 90 ma.kr. í erlendum verðbréfum á síðari helming ársins, þar af 47 ma.kr. á fjórða fjórðungi.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þó að tölur um verðbréfafjárfestingu geti litast af einskiptisliðum og skekkjum, og lýsi gjaldeyrisviðskiptum aðeins að takmörkuðu leyti, gefa þær engu að síður ákveðna vísbendingu um flæði á gjaldeyrismarkaði. Hér að neðan sést enn skýrar hvernig verðbréfafjárfesting innlendra aðila hefur aukist frá haftalosun og var um 10-20 ma.kr. á mánuði allan síðari helming ársins. Á sama tíma hefur verðbréfafjárfesting erlendra aðila hér á landi verið takmörkuð, og beinst nær eingöngu að hlutabréfum enda eru fjárfestingar erlendra aðila í skuldabréfum takmörkunum háð.

Eins og við höfum áður fjallað um munum við þurfa talsverðan viðskiptaafgang á næstu árum út frá stærð lífeyriskerfisins. Niðurstöður skýrslu starfshóps um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs endurspegla álit flestra, að mikilvægt sé að sjóðirnir auki vægi erlendra eigna á næstu árum. Með auknu innflæði í lífeyrissjóðina sökum hækkun iðgjalda er ljóst að um er að ræða verulegar fjárhæðir sem fjárfesta þarf erlendis. Ef viðskiptaafgangur minnkar, sem útlit er fyrir að hann geri samkvæmt spám greiningaraðila, þurfa fjárfestingar erlendra aðila hér á landi að aukast þeim mun meira svo ekki komi til skakkafalla fyrir gengi krónunnar.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka