Áfram minnka arðgreiðslur

Áfram minnka arðgreiðslur

Fimmtán af þeim sextán félögum sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar hafa nú skilað ársuppgjörum sínum fyrir síðastliðið rekstrarár. Hagar birta sitt ársuppgjör í byrjun sumars enda rekstrarár félagsins frá marsbyrjun til febrúarloka ár hvert.

2017 verður líklega skráð í sögubækur íslensks hlutabréfamarkaðar sem ár breytts samkeppnisumhverfis og ytri vaxtar. Innkoma nýrra aðila á íslenskan smásölumarkað hafði töluverð áhrif á einstök félög frá byrjun sumars ásamt því að stórar sameiningar, þar sem félög eru að leitast við að renna styrkari og fjölbreyttari stoðum undir rekstur sinn, eru ýmist til umfjöllunar hjá eftirlitsaðilum áður en þær geta gengið í gegn eða ný frágengin.

Samhliða ársuppgjörum leggja stjórnir félaga fram tillögu um það hvort og hvernig koma megi fjármunum aftur til hluthafanna, oftast nær er þetta gert í formi arðgreiðslna og eða endurkaupa á eigin bréfum. Útlit er fyrir að skráðu félögin greiði um 19,5 ma.kr. til hluthafa sinna vegna reksturs 2017, eða tæplega 40% af hagnaði ársins. Upphæðin er þó ekki meitluð í stein þar sem aðalfundir félaganna eiga flestir eftir að fara fram ásamt því að rúmum fimmtungi af upphæðinni er gert ráð fyrir að verði ráðstafað með kaupum á eigin bréfum og/eða með formlegri endurkaupaáætlun.

10 ma.kr. samdráttur frá 2016

Heimild: Tilkynningar félaga og áætlun Greiningardeildar

Þetta er nokkur samdráttur í arðgreiðslum frá því sem verið hefur á undanförnum árum. En líkt og sjá má á myndinni hér að ofan hafa arðgreiðslurnar dregist saman um tæplega 10 ma.kr. frá 2016, þegar þær náðu hámarki í 29 ma.kr. Arðgreiðslurnar í hlutfalli af markaðsvirði félaganna hafa einnig dregist nokkuð saman og hefur hlutfallið nú ekki verið lægra síðan a.m.k 2014. Með nokkurri einföldun má því segja að fjárfestir sem keypti körfu hlutabréfa í Kauphöll Íslands fái nú kaupverðið endurgreitt á tæpum 42 árum samanborið við 26 ár árið 2016.

 

Heimild: Tilkynningar félaga og áætlun Greiningardeildar. *Reikningsár Haga er annað og nær til 28. febrúar 2018 og er áætlun miðað við það

Af félögunum greiðir stærsta félag hlutabréfamarkaðarins, Marel, stærstu arðgreiðsluna, eða rúmlega 3,6 ma.kr. sem samsvarar 30% af hagnaði síðastliðins rekstrarárs. Þar á eftir koma Reitir og TM með um 2,5 ma.kr. hvort sem, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan, skiptist á milli annarsvegar arðgreiðslu og hinsvegar endurkaupaáætlunar. Að þessu sinni hyggjast fjögur félög ekki greiða út arð til hluthafa sinna, en Origo og Reginn hafa ekki greitt arð undanfarin ár ásamt því að Vodafone og N1 hafa ýmist nýlega gengið frá umfangsmiklum fyrirtækjakaupum eða eru með slík mál til umfjöllunar hjá eftirlitsaðilum. Þá er einnig rétt að geta að óvissa er um hver arðgreiðsla Haga kann að verða í ljósi þess að fjárhagsár félagsins er annað en einnig gæti félagið kosið að hverfa frá arðgreiðslu ef sátt næst við eftirlitsaðila vegna kaupanna á Olís.

Hvers vegna eru arðgreiðslurnar að dragast saman?

Margar ástæður geta legið að baki því að arðgreiðslur skráðu félaganna eru að dragast saman. Á liðnum árum hafa óreglubundnar arðgreiðslur haft nokkur áhrif á heildararðgreiðslur skráðu félaganna. Sem dæmi má nefna niðurfærslur hlutafjár hjá N1 og Vodafone ásamt því að tryggingafélögin voru nokkuð umsvifamikil í arðgreiðslum fyrir nokkrum árum síðan þegar þau endurmátu fjármagnsskipan sína í aðdraganda innleiðingar nýrrar löggjafar um fjárhagslega umgjörð vátryggingastarfsemi. Jafnframt er ekki hægt að líta hjá því að afkoma margra félaganna hefur versnað.

Heimild: Ársreikningar félaganna og áætlun Greiningardeildar. *Spá Greiningardeildar fyrir hagnað Haga

Samanlagður hagnaður skráðu félaganna dróst saman milli ára hjá sjö af sextán félögum Kauphallarinnar. Mestur var samdrátturinn hjá Icelandair Group þar sem hagnaður dróst saman um tæplega 6 ma.kr. milli ára. Í stærra samhengi er áhugavert að sjá að frá 2015 hefur hagnaður skráðu félaganna dregist saman ár frá ári og var tæplega 15% minni en 2015. Styrking krónunnar hefur vitanlega áhrif á hagnað félaganna í íslenskum krónum en á móti kemur hefur félögum fjölgað og sum þeirra stækkað með ytri vexti.