Spáum 0,45% hækkun á vísitölu neysluverðs í mars

Spáum 0,45% hækkun á vísitölu neysluverðs í mars

Við spáum 0,45% hækkun á vísitölu neysluverðs í mars, sem er nokkurn veginn í takt við bráðabirgðaspá okkar sem síðast var uppfærð og birt í lok febrúar og hljóðaði upp á 0,4% hækkun. 12 mánaða taktur verðbólgunnar hækkar í 2,6% og fer því upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans í fyrsta skipti síðan í janúar 2014.

Heimildir: Hagstofa Íslands, greiningardeild Arion banka

Verðbólguspá án flugliðar og húsnæðisverðs á landsbyggðinni?

Ef að greiningaraðilar myndu eingöngu spá fyrir um vísitölu neysluverðs án flugfargjalda til útlanda og fasteignaverðs á landsbyggðinni þá væri líf þeirra talsvert einfaldara, í það minnsta ef höfð er til hliðsjónar verðbólguþróun undanfarinna mánaða. Til að reyna að spá fyrir um verðþróun fasteignaverðs er hægt að fylgjast með verðþróun ásetts verðs í fasteignaauglýsingum. Þróun ásetts verðs hefur undanfarin ár getað spáð fyrir um átt verðbreytinga, þ.e.a.s. hækkun eða lækkun, en ekki náð að spá fyrir um magnbreytingar. Ásett verð fasteignaauglýsinga hefur farið hækkandi undanfarið og sem dæmi má nefna að ásett verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu frá áramótum hefur hækkað um 1,2% og verð á sérbýli um 1,4%. Einnig hefur fjöldi kaupsamninga verið góð vísbending um verðþróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu: Fjöldi kaupsamninga hefur aukist þegar verðhækkanir eru miklar en litlar verðhækkanir/verðlækkanir hafa verið samfara fáum kaupsamningum. Nýjustu tölur yfir fjölda kaupsamninga benda til að verðhækkunarþrýstingurinn fari minnkandi, sem endurspeglast í verðvísitölum Þjóðskrár sem og undirvísitölum Hagstofunnar. Samkvæmt vikulegum fjölda kaupsamninga þá nam fjöldi kaupsamninga í febrúar u.þ.b. 430 samningum sem er fækkun úr 563 samningum í janúar. Undanfarna 12 mánuði hefur meðalfjöldi kaupsamninga á mánuði verið 583 og út frá því má áætla að 12 mánaða taktur fasteignaverðs sé enn að lækka. Einfalt líkan sem notar fylgni 12 mánaða breytingar fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu og mánaðarmeðaltal kaupsamninga, spáir að hækkunartaktur fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu á ársgrundvelli sé um 12%, sem er lækkun úr 13% í síðasta mánuði. Samkvæmt tölum Þjóðskrár þá nam 12 mánaða taktur fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu 11% í janúar (0,1% áhrif á VNV).

 

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld til útlanda er annað svona ólíkindatól og ef eitthvað er þá er erfiðara að spá fyrir um þann lið heldur en fasteignaverð. Greiningardeild Arion banka mælir flugfargjöld á netinu í hverjum mánuði, með því markmiði að spá fyrir um þróun liðarins og þó megi sjá samhengi á milli netmælinga greiningardeildar og mælingu Hagstofu, þá kemur fyrir að miklu skeikar. Hver svo sem ástæðan er, þá teljum við líklegast að miklar verðbreytingar eigi sér stað á innan vikunnar og jafnvel innan dagsins. Við gerð síðustu verðbólguspár mældum við um 10% hækkun á flugfargjöldum samanborið við mánuðinn á undan en mæling Hagstofunnar benti til -4,9% lækkunar. Mæling Greiningardeildar í þetta skiptið bendir til -10% lækkunar á milli netmælinga en þar sem mælingin síðast var svona langt frá mælingu Hagstofu er eðlilegast að gera ráð fyrir að hún hafi verið mæld á slæmum tímapunkti og kannski eðlilegra að nota janúarmælingu, reikna hana upp m.v. mælingu Hagstofu og nýta hana til samanburðar. Netmælingin nú er því borin saman við leiðrétta netmælingu frá því síðast og fæst þá að verðhækkanir haldist innan skynsamlegra marka, þ.e. skynsamlegra m.v. sögulegar verðbreytingar flugfargjalda eða um 2% hækkun (0,02% áhrif á VNV).

Útsölur fatnaðar ganga enn frekar til baka

Janúarútsölur á fatnaði í ár leiddu til 10,3% lækkunar á fataverði og 8,5% lækkunar á skóverði. Undanfarin fimm ár hafa útsölur gengið til baka næstu tvo mánuðina á eftir en þó ekki að fullu, þ.e. tveimur mánuðum síðar var verð enn að meðaltali um 2% lægra en í desember. Ef slíkt endurtekur sig, þyrfti verð á fatnaði að hækka um 3,3% (0,1% áhrif á VNV) og verð á skóm um 5% (0,033% áhrif á VNV). Vísbendingar eru uppi um að matarkarfan sé að hækka og gerum við ráð fyrir 0,25% hækkun (0,04% áhrif á VNV) en einnig gerum við ráð fyrir einhverjum hækkunum á öðrum neysluliðum. Mæling bensínverðs bendir til um 0,8% hækkunar á bensínverði og óbreyttu verði dísil (0,014% áhrif á VNV).

Bráðabirgðaspá:

Við teljum þó að árstakturinn sé síðan líklegur til að lækka þegar líður á sumarið. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Seðlabankinn hefur hækkað sína spá fyrir fyrsta ársfjórðung 2018 úr 2% í 2,4% verðbólgu (12 mánaða taktur). Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Apríl +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld hækka
  • Maí +0,2%: Húsnæði, flugfargjöld hækka, áhrifa samnings um niðurfellingu tolla við Evrópusambandið hafa áhrif til lækkunar
  • Júní +0,35%: Húsnæði og flugfargjöld hækka

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, greiningardeild Arion banka