Stýrivaxtaspá: Haukarnir fuku með febrúarlægðunum

Stýrivaxtaspá: Haukarnir fuku með febrúarlægðunum

Næstkomandi miðvikudag verður vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans kynnt. Stutt er síðan nefndin kom síðast saman og hefur stóra myndin í efnahagsmálum lítið breyst; þjóðarskútan hefur hægt á sér en forðast stærstu skerin. Af þeim sökum teljum við að vöxtum verði haldið óbreyttum enn um sinn.

Fyrir síðustu vaxtaákvörðun reiknuðum við með að nefndin yrði hvöss í máli og myndi senda vinnumarkaðnum og hinu opinbera viðvörunarmerki. Þannig áttum við allt eins von á því að vaxtahækkanir yrðu nefndar sem raunhæfur möguleiki og að yfirlýsing nefndarinnar yrði til merkis um að nefndin væri reiðubúin að láta sverfa til stáls. Raunin varð hinsvegar önnur. Þó nefndarmenn hafi kannski ekki riðið fram með hvíta fána var tónninn í mýkri kantinum og hvergi minnst á vaxtahækkanir. Reyndar áttu vaxtalækkanir ekki heldur upp á pallborðið og var nefndin sammála um óbreytta vexti. Í ljósi þess hve mild í máli nefndin var og að til skemmri tíma séð hefur dregið úr óvissu á vinnumarkaði teljum við að vaxtahækkanir séu komnar í aftursætið, í bili, og að valið standi frekar á milli vaxtalækkunar eða óbreyttra vaxta. Rök fyrir óbreyttum vöxtum eru þó yfirgnæfandi að okkar mati.

Frá síðasta fundi hafa litlar breytingar átt sér stað í opinberum fjármálum, olíuverð er á svipuðum slóðum þrátt fyrir nokkrar sviptingar í millitíðinni, og krónan hefur siglt lygnan sjó. Við teljum að sem fyrr muni nefndin hnippa í opinber fjármál og líta á stöðugleika krónunnar jákvæðum augun, en muni ekki sjá þörf til að hliðra vöxtum út frá þessum atriðum.

Meiri spenna, hagfelldari samsetning

Hagstofa Íslands birti í dag landsframleiðslutölur fyrir fjórða fjórðung 2017 og þar með árið í heild sinni. Samkvæmt bráðabirgðatölunum var 3,6% hagvöxtur árið 2017, sem er örlítið meiri vöxtur en Seðlabankinn reiknaði með í síðustu þjóðhagsspá sinni (3,4%). Það er því ekki að hægja alveg jafn hratt á hagkerfinu og bankinn taldi. Aftur á móti voru þjóðarútgjöld að vaxa hægar en reiknað var með, m.a. vegna minni vaxtar samneyslunnar sem peningastefnunefnd mun væntanlega líta jákvæðum augum, fjárfesting örlítið meira og framlag utanríkisverslunar ekki jafn neikvætt og virtist í fyrstu sökum töluverðs útflutningsvaxtar á fjórða ársfjórðungi. Samsetning hagvaxtar var því lítilsháttar hagfelldari en talið var, sem vegur á móti meiri framleiðsluspennu. Við teljum því að tölurnar muni ekki ýta við peningastefnunefnd að sinni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Stígandi verðbólga – so what?

Verðbólgumælingin í janúar virðist hafa valdið nefndinni nokkrum heilabrotum, þ.e.a.s. hvort hækkun húsnæðis á landsbyggðinni, sem var drifkraftur verðbólgunnar, endurspegli undirliggjandi þróun á húsnæðismarkaði eða verið einstakt tilfelli. Út frá febrúarmælingu virðist hinsvegar sem húsnæðismarkaðurinn sé hvergi nærri af baki dottinn þar sem húsnæðisverð hækkaði um 0,74% milli mánaða. Þar af hækkaði húsnæðisverð á landsbyggðinni um 1,64% á meðan fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% og sérbýli um 0,9%. Þetta var nokkuð meiri hækkun en væntingar okkar stóðu til um en í skýrslu okkar um húsnæðismarkaðinn sem kom út í lok janúar var gert ráð fyrir lognmollu á markaðnum á fyrsta ársfjórðungi og að hækkunartakturinn myndi gefa aftur í þegar líða tæki á árið. Fyrstu tölur ársins gefa til kynna að útlit sé fyrir að árstíðatakturinn verði með öðrum hætti.

Það má reikna með því að hækkun húsnæðisliðarins í febrúar hafi gert nefndinni gramt í geði, enda mikilvægt nú þegar undirliggjandi verðbólguþrýstingur er að aukast og gengisáhrifin að fjara út, að hratt dragi úr áhrifum húsnæðisverðs á verðbólgu til að halda henni innan marka. Jafnvel þó hækkanir á húsnæðismarkaðnum séu lífseigari en margir væntu og útlit fyrir að verðbólga muni rísa nokkuð skarpt á komandi mánuðum, m.a. vegna hækkandi innflutningsverðlags, teljum við að nefndin muni ekki missa svefn yfir þeirri þróun, né sjá sig knúna til að grípa til vaxtatækisins. Eins og segir í fundargerðinni: „Ástæðulaust væri að bregðast við minni háttar frávikum verðbólgu frá markmiði meðan sveiflurnar væru hóflegar og verðbólguvæntingar héldust við markmið.“ Þá taldi nefndin jákvætt að verðbólga væri komin í markmið. Hver ertu og hvað gerðirðu við peningastefnunefndina?

 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eins og kemur fram hér að ofan er helsta ástæða þess að nefndin telur sig geta horft í gegnum sveiflur í verðbólgunni er aukin kjölfesta verðbólguvæntinga. Ef satt reynist er það svo sannarlega fagnaðarefni fyrir peningamálastjórn, og vissulega stóðst kjölfestan fyrstu prófraunina á síðasta ári þegar gengi krónunnar veiktist. Hversu sterk kjölfestan reynist ef verðbólgan sjálf tekur að stíga verður fróðlegt að sjá en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hækkað lítilsháttar að undanförnu. Nefndin hefur hingað til ekki talið það áhyggjuefni og hefur bent á að þróunin geti að miklu leyti endurspeglað hækkun áhættuþóknunar. Jafnvel þótt aðhald peningastefnunnar hafi örlítið slaknað milli funda á þennan mælikvarða teljum við að í ljósi þess hve litlar breytingarnar hafa verið að nefndin kippi sér ekki sérstaklega upp við það og láti kyrrt liggja.

 Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Vinnumarkaðurinn innan marka

Ein stærsta breytingin frá síðustu vaxtaákvörðun er að dregið hefur úr óvissu á vinnumarkaði, til skemmri tíma litið en í lok febrúar var tilkynnt að kjarasamningar myndu halda út árið. Launaþróun komandi missera skiptir mjög miklu máli fyrir verðbólguþróun í landinu og hefur niðurstaðan því vafalaust glatt peningastefnunefnd og aðra sem hag hafa af lítilli verðbólgu. Útistandandi verðbólguspár, bæði okkar og Seðlabankans, byggja á þeim forsendum að rammasamkomulagið haldi, í grófum dráttum að minnsta kosti, og að launahækkanir verði innan marka sem peningastefnan þolir á næstu árum.

Þrátt fyrir það teljum við að óvissan um launaþróun til lengri tíma litið hafi aukist ef eitthvað er. Út frá fréttaflutningi síðustu daga og vikna lítur út fyrir að stríðandi fylkingar séu byrjaðar að brýna vopnin fyrir næstu rimmu og að hart verði tekist á. Við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd láti þessa þróun hafa áhrif á ákvörðun sína núna, fagni frekar þeim árangri sem náðst hefur, en mun vafalítið hafa augun á þessari þróun og fylgjast náið með.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands