Vaxtaákvörðunin sem snerist um bindiskylduna

Vaxtaákvörðunin sem snerist um bindiskylduna

Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar kom líklega fáum á óvart, óbreyttir vextir í samræmi við spár. Yfirlýsing nefndarinnar er sömuleiðis stórtíðindalaus. Seðlabankinn notaði hins vegar tækifærið til þess að ræða bindiskyldu á erlenda nýfjárfestingu á skuldabréfamarkaði. Að undanförnu hefur sú bindiskylda mikið verið rædd og umfang hennar gagnrýnt, m.a. af okkur í nýlegum Markaðspunkti. Í stuttu máli skiljum við skilaboð bankans þannig að ekki sé tímabært að ráðast í verulegar breytingar á bindiskyldunni. Tæknileg útfærsla væri hins vegar í skoðun og mætti horfa til þess þegar að líður á árið. Þeir sem væntingar höfðu til verulegra breytinga á bindiskyldunni hafa því líklega orðið fyrir vonbrigðum með yfirlýsingu Seðlabankans.

Þið auglýsið eitt og annað, eitt og annað!

Spenna greip um sig á skuldabréfamarkaði rétt fyrir opnun markaða þegar erlendar fréttaveitur greindu frá því að von væri á yfirlýsingu frá Seðlabankanum um innflæðishöftin (bindiskylduna). Krafa á sérstaklega langa endanum á skuldabréfamarkaði lækkaði þó nokkuð við opnun, væntanlega vegna væntinga um að yfirlýsingin fæli í sér stefnubreytingu. Þegar Seðlabankastjóri síðan fór yfir helstu atriði yfirlýsingarinnar hækkaði ávöxtunarkrafan á ný og nú má segja að viðbrögð markaða við vaxtaákvörðun og innihaldi yfirlýsingar séu eins og við mátti búast, lítil en blendin. Um leið og við fögnum því að Seðlabankinn bregðist við gagnrýni og noti tækifæri sem þetta til að skýra nánar stefnu sína þá verður að segjast að innihald yfirlýsingarinnar sé ekki endilega þess eðlis að það kalli á sérstaka tilkynningu til fréttamiðla að von hafi verið á slíkri yfirlýsingu. Eðlilegra hefði verið að birta yfirlýsinguna fyrir opnun markaða líkt og gert var með yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Í grófum dráttum má segja að Seðlabankinn skilgreini gagnrýnina tvíþætta:

    1. Að bindiskylda hafi stuðlað að hærri vöxtum og að í ljósi slaknandi spennu sé fremur ástæða til að örva erlenda fjárfestingu heldur en hitt. Jafnvel hefur verið fullyrt að síðustu vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ekki skilað sér í lægri vöxtum fyrir heimili og     fyrirtæki.

    2. Að tæknileg útfærsla bindiskyldunnar sætt gagnrýni, m.a. hvað varðar eignaflokka sem falla undir bindiskyldu og hugsanleg neikvæð áhrif á virkni einstakra markaða.

Í yfirlýsingunni blæs Seðlabankinn á fyrri gagnrýnina en hann telur hins vegar ástæðu til að fara yfir þau atriði sem snúa að seinni gagnrýninni og er það fagnaðarefni að okkar mati, þó vissulega sé grunnt í árinni tekið. Niðurstaðan er hins vegar afdráttarlaus: „Samantekið er það afstaða Seðlabankans að ekki sé að svo komnu máli tilefni til að slaka á hinni sérstöku bindiskyldu. Þær aðstæður munu hins vegar skapast á næstu misserum ef spár ganga eftir og aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum breytast eins og nú er búist við, og fyrr ef einhverjir þeir atburðir verða sem valda því að spenna slaknar hraðar og sérstaklega ef hún snýst í slaka. Seðlabankinn og peningastefnunefnd vaka yfir framvindunni og leggja til viðbrögð eftir því sem við á og tilefni gefst til. Almennt má segja að aðstæðurnar til slökunar batni eftir því sem vaxtamunur minnkar, gengi lækkar eitthvað og spenna slaknar.”

Grámyglulegur vaxtaákvörðunarmiðvikudagshversdagsleiki

Líkt og áður sagði kynnti peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi í morgun ákvörðun sína um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 4,25%, ákvörðun sem er í fullu samræmi við spá Greiningardeildar og aðrar opinberar spár. Líkt og í febrúar var yfirlýsingin í styttri kantinum og lítið bitastætt þar að finna. Að þessu sinni byggir ákvörðunin á fyrirsjáanleika og óbreyttu ástandi: hagvöxtur árið 2017 var í takti við væntingar Seðlabankans, verðbólguhorfur hafa lítið breyst, gjaldeyrismarkaður er áfram í ágætu jafnvægi, ennþá eru horfur á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum, ennþá er þörf fyrir peningalegt aðhald til að halda aftur af innlendri eftirspurn og ennþá er undirliggjandi spenna á vinnumarkaðnum, þó dregið hafi úr hættu á ósjálfbærum launahækkunum til skamms tíma. Opinber fjármál sleppa að þessu sinni við beina áminningu og er tónn nefndarinnar áfram í mýkri kantinum. Þrátt fyrir það er erfitt að sjá að vaxtalækkanir séu á næsta leyti, ekki nema verulega taki að hrikta í íslensku efnahagsvélinni og framleiðsluspennan minnki hraðar en væntingar standa til um.

Minni kjölfesta í meiri ólgusjó?

Það sem vakti einna helst athygli okkar í yfirlýsingu nefndarinnar var að sjá orðin „kjölfesta“ og „veikst“ í sömu setningu. Verðbólguvæntingar hafa að undanförnu verið rauður þráður í máli nefndarinnar, þá fyrst og fremst í því samhengi að kjölfesta verðbólguvæntinga hafi styrkst, skoðun sem niðurstöður rannsóknarritgerðar á vegum Seðlabankans hafa rennt stoðum undir. Það er því sérstaklega athyglisvert að sjá nefndina nefna að kjölfestan sé mögulega ekki jafn sterk og áður virtist, jafnvel þó fram komi í yfirlýsingunni að of snemmt sé að draga ályktanir, og alltof alltof snemmt ef marka má orð seðlabankastjóra á kynningarfundi vaxtaákvörðunar.

Ef hækkun verðbólguvæntinga reynist skammvinn og tilefnislaus ótti getur peningastefnunefnd horft framhjá sveiflum í verðbólgunni, eða eins og sagði í síðustu fundargerð: „Ástæðulaust væri að bregðast við minni háttar frávikum verðbólgu frá markmiði meðan sveiflurnar væru hóflegar og verðbólguvæntingar héldust við markmið.“ Ef hinsvegar kjölfesta verðbólguvæntinga reynist minni gæti nefndin þurft að bregðast harðar við stígandi verðbólgu. Það sem gerir núverandi þróun sérstaklega áhugaverða er að hækkandi verðbólguvæntingar einskorðast ekki við verðbólguálag á markaði, heldur má skilja út frá máli seðlabankastjóra að verðbólguvæntingar annarra aðila, s.s. fyrirtækja og heimila, hafi einnig hækkað. Hér getur spilað inn í að fréttaflutningur af undirliggjandi spennu á vinnumarkaði og breytingum í verkalýðshreyfingunni hefur farið hátt. Við deilum þó skoðun nefndarinnar að of snemmt sé að draga sterkar ályktanir á þessu stigi málsins, raunverulegi prófsteinninn verður þegar verðbólgan þokast upp fyrir markmið, eitthvað sem gerist strax í mars skv. verðbólguspá okkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Fámál peningastefnunefnd

Það vekur alltaf ákveðna athygli Greiningardeildar þegar yfirlýsingar peningastefnunefndar eru í styttri kantinum, eins og raunin er í þetta sinn. Stuttar, þunnar yfirlýsingar gera vaxtaákvörðunarmiðvikudaga svo sannarlega hversdagslegri en ella í lífi greinenda, minna úr að moða og færri línur til að lesa á milli. Það er áhugavert að sjá að á síðasta árið má greina ákveðna leitni í yfirlýsingum peningastefnunefndar, þær urðu sífellt styttri. Nýjasta yfirlýsingin er 193 orð, sem er fjórða stysta yfirlýsingin frá árinu 2013. Þá er það spurningin, hvort er nefndin hnitmiðaðri en áður, eða fylgir mottóinu: Ef þú hefur ekkert merkilegt að segja, segðu þá sem minnst?

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka