Verðbólgan lítur yfir verðbólgumarkmið

Verðbólgan lítur yfir verðbólgumarkmið

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,56% á milli mánaða í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 2,8%, úr 2,3% í febrúar. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,4-0,56% og er mælingin því í efri mörkum spábilsins. Við spáðum 0,45% hækkun. Síðast var 12 mánaða taktur verðbólgunnar fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans í janúar 2014 og eru einungis þrír mánuðir síðan takturinn fór yfir 2% mörkin eftir 13 mánuði fyrir neðan það hlutfall.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 3% (0,03% áhrif á VNV). Mæling okkar benti til hækkunar á flugfargjöldum og gerðum við ráð fyrir 2% hækkun á undirliðnum. Matarkarfan hækkaði um 0,18% (0,02% áhrif á VNV). Bensínverð hélst óbreytt á milli mánaða. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð hækkar – landsbyggðin leiðir hækkanir

Enn og aftur þá hækkaði reiknuð húsaleiga og nam mánaðarbreytingin 1,4% (0,26% áhrif á VNV) og hefur undirliðurinn ekki hækkað jafn mikið síðan í júlí á síðasta ári. Enn og aftur kemur kraftur hækkunarinnar að einhverju leyti á óvart og þá sérstaklega hversu mikið fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkar. Vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 3,2% og undanfarna þrjá mánuði hefur hún hækkað um 10,6%. Frá því Hagstofan hóf að reikna vísitölu fyrir markaðsverð íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins og birta sérstaklega (mars 2000) hefur þriggja mánaða hækkun undirliðarins aldrei verið jafn mikil. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1% og verð á sérbýli um 0,7%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá áhrif undirliða vísitölu neysluverðs, eftir eðli og uppruna, á verðbólguna. Frá því snemma árs 2014 hafa innfluttar vörur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu. Það hefur komið sér vel því lækkun þeirra hefur vegið á móti áhrifum hækkandi fasteignaverðs á verðbólgumælinguna. Áhrif verðlækkana vegna innfluttra vara (áhrif vegna styrkingar krónu og vegna lækkandi verðlags á sumum vörum á heimsmarkaði) hafa hinsvegar minnkað að undanförnu, en á sama tíma hefur ekki dregið jafn mikið úr verðbólguáhrifum vegna hækkunar fasteignaverðs og er því 12 mánaða taktur verðbólgunnar að hækka og er nú komin upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar lækki á komandi mánuðum og fari í 2,5% í apríl. Við teljum líklegt að árstakturinn haldist í kringum verðbólgumarkmið fram á sumar. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Einnig er mögulegt að mælingar Hagstofu á fasteignaverði flökti eitthvað næstu mánuði þannig að eftir miklar verðhækkanir komi fram verðlækkanir í mælingu, og þá sérstaklega á landsbyggðinni þar sem viðskipti með fasteignir þar eru strjálari. Gögnin benda til talsvert meira flökts á þeirri undirvísitölu á milli mánaða en á verði fasteigna á höfuðborgarsvæðinu.

Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Apríl +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld hækka.
  • Maí +0,2%: Húsnæði, flugfargjöld hækka, áhrifa samnings um niðurfellingu tolla við Evrópusambandið hafa áhrif til lækkunar, hótelgisting hækkar.
  • Júní +0,2%: Húsnæði, flugfargjöld, hótelgisting hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka