Verðbólga í markmiði

Verðbólga í markmiði

Við spáum 0,25% hækkun á vísitölu neysluverðs í apríl sem er nokkurn veginn í takt við bráðabirgðaspá okkar sem hljóðaði upp á 0,3% sem síðast var uppfærð og birt í lok mars. Tólf mánaða taktur verðbólgunnar lækkar í 2,5% úr 2,75% frá því í síðasta mánuði gangi spáin eftir. Þar með yrði 12 mánaða verðbólga í verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Hagstofan mun birta verðbólgutölur 27. apríl næstkomandi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld og fasteignaverð

Eins og við bentum á í síðustu verðbólguspá þá væri verðbólguspágerð auðveldari ef ekki væri fyrir þróun fasteignaverðs og flugfargjalda. Liðurinn flugfargjöld til útlanda vegur aðeins um 1% í vísitölu neysluverðs. Hins vegar flöktir liðurinn afar mikið og hefur því tilhneigingu til að hafa áhrif langt umfram vægi á verðlagsþróun milli mánaða, upp eða niður. Mæling okkar að þessu sinni bendir til þess að flugfargjöld hafi lækkað á milli mánaða sem er þvert á sögulega reynslu. Páskarnir í ár voru í lok mars en á síðasta ári féllu páskar á miðjan apríl og því eðlilegt að verð á flugfargjöldum haldist hátt yfir páskahátíðina en lækki síðan í framhaldinu. Þrátt fyrir að mæling bendi til lækkunar á flugfargjöldum þá benda mælingar flugfargjalda tvo mánuði fram í tímann (þ.e. breyting á flugfargjöldum fyrir flug í júní mælt í þessari viku m.v. mælingu á flugfargjöldum í maí mælt fyrir mánuði) til þess að verð séu farin að hækka sem er í takt við sögulega reynslu. ARIMA-módel sem spáir fyrir um verð flugfargjalda, og tekur mið af lækkunarferli undanfarinna ára og árstíðabundnum sveiflum, bendir til að verð ætti að hækka í apríl um tæp 9%. Það væri samt mikil hækkun þar sem meðalbreyting í apríl hefur verið 4,2% m.v. undanfarin 5 ár. Skynsamlegast er að halda sig við verðmælingu flugfargjalda og spá því að verðlækkun sé að eiga sér stað vegna páskaáhrifa og að hækkun tefjist um einn mánuð. Horft næstu mánuði fram tímann þá er nokkuð líklegt að undirvísitalan hækki fram á sumar og miðað við reynslu undanfarinna ára þá toppar hún í júlí. Grunnspáin spáir hæsta gildi í 172 í júlí (samanborið við 191 í júlí 2017 og 128,8 í síðustu mælingu Hagstofunnar) áður en vísitalan lækkar í ágúst og september. Ef þessi spá rætist þá bætast við 0,32% ofan á vísitölu neysluverðs fram í júlí einungis vegna flugfargjalda áður en áhrifin hverfa þegar líður á haustið. Spá okkar gerir ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda lækki um 5% í apríl (-0,054% áhrif á vnv).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fylgni 12 mánaða breytingar á íbúðaverði og fjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu bendir til þess að 12 mánaða taktur fasteignaverðs sé um 9%. Reiknuð húsaleiga síðustu þrjá mánuði hefur hækkað um 12,95% á ársgrundvelli og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 8,9%. Þróun á fjölda samninga undanfarna mánuði benda til minni umsvifa sem ætti að draga úr hækkunargetu m.v. sögulega fylgni. Því er líklegast að 12 mánaða takturinn lækki, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eftir miklar hækkanir á fasteignaverði á landsbyggðinni undanfarna mánuði (+10,6% undanfarna þrjá mánuði eða 49,5% á ársgrundvelli) þá teljum við líklegt að það dragi úr verðhækkunum á landsbyggðinni á næstu mánuðum. Áhugavert er að skoða breytingar á undirvísitölum fasteignaverðs sem Hagstofan birtir. Sjá má á myndinni hér fyrir neðan þriggja mánaða breytingu á undirvísitölum fasteignaverðs og þar sést að miklum verðhækkunum fylgja minni hækkanir og síðan má einnig sjá að sveiflur í mælingu Hagstofunnar á fasteignaverði á landsbyggðinni eru meiri en í mælingu á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. gula línan hefur hærri og lægri öfgagildi en hinar línurnar. Einnig er áhugavert að skoða verðbreytingar einn ársfjórðung fram í tímann á vísitölunum þegar verðin hafa hækkað skarpt. Í þau skipti sem undirvísitölur fasteignaverðs hafa hækkað yfir 5% á þriggja mánaða tímabili þá námu þriggja mánaða breytingar þremur mánuðum síðar að meðaltali: 0,76% á landsbyggðinni, 5,16% fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og 5,04% sérbýli á höfuðborgarsvæðinu. Útreikningarnir benda því til meiri stöðugleika í mælingum á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu og að út frá sögulegri reynslu að líklegt sé að það dragi úr mældum verðhækkunum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
Ef 12 mánaða taktur fasteignaverðshækkana á landinu er 9% þá nemur það 0,72% hækkun á mánuði á reiknaðri húsaleigu. Við erum því að gera ráð fyrir að hækkunartakturinn sé um 0,7% en fari lækkandi næstu ársfjórðunga. Spá fyrir apríl mánuði gerir ráð fyrir 0,7% hækkun reiknaðrar húsaleiga (0,13% áhrif á vnv).

Matarkarfan og aðrir liðir

Í spánni er gert ráð fyrir hækkun á matarkörfunni og öðrum liðum. Bensínverð hefur haldist óbreytt og hefur það þá haldist óbreytt nánast tvo mánuði í röð. Einnig er gert ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki en haldi þó ekki í við hækkun reiknaðrar húsaleigu. Húsnæðiskostnaður fyrir utan húsaleigu er einnig líklegur til að hækka.

Bráðabirgðaspá:

Við teljum að árstakturinn sveiflist fram á sumar en fari síðan í um 3% undir lok árs. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Seðlabankinn hefur hækkað sína spá fyrir fyrsta ársfjórðung 2018 úr 2% í 2,4% verðbólgu (12 mánaða taktur). Þegar líða tekur á sumarið hækka flugfargjöld og ná sínum hæstu hæðum í júli og verð á hótelgistingu er líklegt til að hækka frá því í maí þar til í ágúst og lækka síðan í verði í september. Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.
Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Maí +0,3%: Húsnæði og flugfargjöld hækka, samningar um niðurfellingu tolla við Evrópusambandið hafa áhrif til lækkunar

  • Júní +0,35%: Húsnæði og flugfargjöld hækka

  • Júlí -0,2%: Útsöluáhrif einkenna verðbólguna í júlí, húsnæði og flugfargjöld hækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka