Er þetta aprílgabb?<br />Verðbólgan í apríl 2,3%

Er þetta aprílgabb?
Verðbólgan í apríl 2,3%

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,04% á milli mánaða í apríl skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkaði þar með í 2,3%, úr 2,8% í mars. Verðbólguspár voru á bilinu 0,1-0,25% og er mælingin því fyrir neðan spábil greiningaraðila. Við spáðum 0,25% hækkun.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 0,3% (0% áhrif á VNV). Mæling okkar benti til lækkunar á flugfargjöldum og gerðum við ráð fyrir 5% lækkun á undirliðnum. Matarkarfan hækkaði um 0,05% (0,01% áhrif á VNV). Bensínverð hækkaði en við gerðum við ráð fyrir óbreyttu bensínverði á milli mánaða. Við mælum bensínverð reglulega og þegar okkar mæling fór fram, sem var í upphafi mælingarviku Hagstofunnar, voru verðin óbreytt miðað við mánuðinn á undan en tók síðan að hækka síðar í vikunni. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þróun húsnæðisverðs misvísandi

Undirvísitölur húsnæðisliðarins bæði hækka og lækka. Sérbýlisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 1,6% en fjölbýli hækkar einungis um 0,1% sem er ekki í takt við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá sendir frá sér mánaðarlega. Samkvæmt Þjóðskrá lækkaði verð sérbýlis um 1,2% í mars en fjölbýli hækkaði um 0,2%. Undanfarna þrjá mánuði hefur verð á sérbýli lækkað um 0,7% en verð fjölbýlis hækkað um tæp 2%. Mæling Hagstofunnar bendir til að sérbýlisverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 12% (Þjóðskrá: 8,1%) og verð á fjölbýli hækkað um 8% (Þjóðskrá: 7,3%) undanfarna 12 mánuði. Verð húsnæðis á landsbyggðinni lækkar um 2,6% og lækkar árstaktur úr 22% í 15%. Eins og við höfum bent á þá flöktir verðmæling hagstofunnar á fasteignaverði á landsbyggðinni mikið.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá áhrif undirliða vísitölu neysluverðs eftir eðli og uppruna á verðbólguna. Frá því snemma árið 2014 hafa innfluttar vörur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu og hitti heppilega á því að mestu hækkanir fasteignaverðs áttu sér einmitt stað þegar áhrif innfluttra vara til lækkunar á verðbólguna var hvað mest. Áhrif verðlækkana vegna innfluttra vara (áhrif vegna styrkingar krónu og vegna lækkandi verðlags á sumum vörum á heimsmarkaði) hafa hinsvegar minnkað en á sama tíma hefur ekki dregið jafn mikið úr áhrifum vegna minni hækkana fasteignaverðs. Því hefur 12 mánaða taktur verðbólgunnar heldur farið hækkandi að undanförnu þar sem ekkert er að vega upp á móti fasteignaverðshækkunum. Í samanburði við síðasta mánuð hefur ekki mikið breyst hvað þetta varðar, enn frekar hefur dregið úr verðlækkunaráhrifum innfluttra vara ásamt því að áhrif húsnæðis til hækkunar fer þverrandi. Breytingin í samsetningu verðbólgunnar sést best í því hvernig verðhjöðnun vísitölu neysluverðs án húsnæðis fer minnkandi og stendur hún í dag í -0,2% en var lægst -3,1% í september 2017.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vægi húsnæðis og bílakaupa eykst en dregur úr vægi matarkörfunnar

Hagstofan uppfærði vigtir undirvísitalna í vísitölu neysluverðs í mars og áhugavert er að skoða hvað breyttist helst. Vægi reiknaðrar húsaleiga jókst um 1,3 prósentustig og fer í 21,3% en vægi greiddrar húsaleigu lækkaði um 1,3 prósentustig í 4,3%. Vægi rafmagns og hita hækkar um 0,4 prósentustig, vægi bílakaupa hækkar um 1,3 prósentustig í 8,4% og rekstur ökutækja hækkar um 0,8 prósentustig í 6,7%. Vægi matarkörfunnar lækkar um 2,3 prósentustig í 11,2%. Vægi bensín eykst um 0,85 prósentustig og vægi dísel um 0,44 prósentustig (ný vigt dísel er 244% hærri en hún var, 0,62% á móti 0,18%). Svo virðist sem að vísitölufjölskyldan hafi aukið bensínneyslu sína á sama tíma og hún hóf að kaupa nýja bíla af meiri krafti. Einnig er áhugavert að vægi flugfargjalda til útlanda hækkar um 0,24 prósentustig í 1,32% og munu áhrif sveiflna í flugfargjöldum því aukast. Yfirlit yfir helstu breytingar í prósentustigum má sjá hér fyrir neðan.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hækki næstu tvo mánuði og fari í 2,4% í apríl og 2,7% í júní en lækki síðan í 2,5% í júlí. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs en taki þá að stíga. Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Maí +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld hækka, áhrifa samnings um niðurfellingu tolla við Evrópusambandið hafa áhrif til lækkunar, hótelgisting hækkar.
  • Júní +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld, hótelgisting hækkar.
  • Júlí -0,2%: Húsnæði, flugfargjöld, hótelgisting hækkar, útsölur.
  • Ágúst: Flugfargjöld far lækkandi eftir hækkanir sumars.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka