Þess vegna spáum við gengisveikingu

Þess vegna spáum við gengisveikingu

Tæpt ár er síðan gengi krónunnar tók rispu, Bandaríkjadalur fór undir 100 krónur í fyrsta sinn frá hruni og í þrjá daga kostaði evran 110 krónur. Fjölmiðlar loguðu, útflutningsaðilar kvörtuðu sáran og við í Greiningardeildinni lögðum orð í belg: Krónan var of sterk. Ári síðar, þrátt fyrir gengisveikingu, erum við ennþá sömu skoðunar.

Fyrir stuttu kom út ný hagspá Greiningardeildar sem ber yfirskriftina Varúð, brothætt! Þar kennir ýmissa grasa og má meðal annars finna verðbólguspá, ferðamannaspá og síðast en ekki síst, gengisspá. Að okkar mati getur krónan styrkst lítilsháttar á næstunni, enda aðstæður ennþá góðar í hagkerfinu, útilit fyrir nokkuð kröftugan hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi og vaxtamunur ennþá til staðar. Innistæðan fyrir gengisstyrkingunni er hinsvegar lítil sem engin og spáum við gengisveikingu í kjölfarið og út spátímann, sem nær út árið 2020.

Orðtiltækið „allar spár eru rangar en sumar eru gagnlegar“ á vissulega við um hagspána og alla undirliði hennar, en það verður að viðurkennast að gengisspáin er sér á báti þegar kemur að óvissu. Það er vel þekkt innan fræðanna að nær ómögulegt sé að spá fyrir um gengi gjaldmiðla til skemmri tíma, og vilja sumir meina að það er allt eins nákvæmt sé að kasta krónu til að spá fyrir um gengishreyfingar. Gengisspána hér að neðan á því ekki að taka of hátíðlega þegar kemur að eiginlegum gildum heldur frekar að líta á hana sem skoðun okkar á stefnu gengisþróunar á næstu misserum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í ljósi þess að við erum að spá áframhaldandi hagvexti, fjölgun ferðamanna og viðskiptaafgangi gæti það komið einhverjum spánskt fyrir sjónir að sjá gengisveikingu. Af hverju ætti krónan að veikjast við þessar aðstæður?

Viðskiptaafgangur er ekki ávísun á gengisstyrkingu

Aldrei er góð vísa of oft kveðin: Það er ekki samasemmerki á milli viðskiptaafgangs og gengisstyrkingar. Viðskiptaafgangur er ekki gjaldeyrisþyrla sem flýgur yfir hagkerfið og veldur gengisstyrkingu einn og sér, ekki einu sinni á jafn grunnum gjaldeyrismarkaði og hinum íslenska. Þá verður að hafa í huga að ekki er víst að öll viðskipti valdi gjaldeyrisflæði. Það er ekki þar með sagt að viðskiptaafgangurinn skipti ekki máli, hann leikur vissulega eitt aðalhlutverkið á gjaldeyrismarkaðnum, en í staðinn fyrir að vera Járnmaðurinn í sinni eigin mynd er hann frekar eins og Járnmaðurinn í nýjustu Hefnenda myndinni, einn af mörgum. Þetta sést glögglega á myndinni hér að neðan þar sem gjaldeyrisflæði á síðasta ári er teiknað upp.

Af gjaldeyrisinnflæði inn í landið vógu viðskiptaafgangur og nýfjárfesting þyngst á síðasta ári, eða 205 ma.kr. samtals. Annað innflæði taldi minna, s.s. útlán í erlendum gjaldmiðli og erlend lántaka. Á hinni hliðinni á gjaldeyrismarkaði voru Seðlabankinn og lífeyrissjóðirnir fyrirferðamestir, Seðlabankinn með forðasöfnun sinni á fyrsta ársfjórðungi og lífeyrissjóðirnir í óða önn að auka vægi erlendra eigna sinna í kjölfar haftalosunar. Það verður að teljast ólíklegt að Seðlabankinn verði stórtækur í gjaldeyriskaupum á þessu ári, ekki nema til stefnubreytingar komi, en bankinn hefur ekki látið sjá sig á gjaldeyrismarkaði það sem af er ári. Við teljum að lífeyrissjóðirnir munu aftur á móti halda áfram að fjárfesta erlendis og að sambærilegri upphæð og í fyrra verði varið til erlendrar fjárfestingar.

Hvað varðar innflæði spáum við minnkandi viðskiptaafgangi, eða í kringum 60 ma.kr. í ár, en erfiðara er að segja til um nýfjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Á fyrsta ársfjórðungi námu skráðar nýfjárfestingar fyrir erlent fjármagn 24 ma.kr., taktur sem mögulega heldur áfram en ómögulegt að segja til um eftir því sem hægir á hagvexti, vaxtamunur minnkar og bindiskyldan stendur óbreytt. Hversu þungur fjármagnstraumurinn verður án bindiskyldu kemur ekki í ljós fyrr en henni verður aflétt og til framtíðar liggur sá straumur síðan í báðar áttir og mun ýmist stuðla að styrkingu eða veikingu krónunnar.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Dýrt, dýrara, dýrast (í heimi)

Gengisspár eru jafn mismunandi eins og þær eru margar og engin ein aðferð virðist bera höfuð og herðar yfir aðrar. Eitt af því sem hagfræðingar geta þó sammælst um þegar kemur að gengisspám er að til lengri tíma ætti kenningin um kaupmáttarjafnvægi að geta útskýrt gengisþróun. Hér kemur raungengið til sögunnar, hugtak sem hefur fengið mun minni athygli en það á skilið miðað við mikilvægi þess fyrir þjóðarbúskapinn. Í stuttu máli lýsir raungengið hversu mikið vörur og þjónusta kosta í tilteknu landi í hlutfalli við önnur lönd. Nafngengisstyrking og hækkun verðlags geta því stuðlað að hærra raungengi.

Sum hugtök eru þeim eiginleikum gædd að þau birtast ljóslifandi fyrir augunum á manni. Raungengið virðist því miður ekki búa yfir þeim eiginleika og hefur þar af leiðandi átt erfitt uppdráttar í kaffistofuspjöllum landsmanna. Til að sjá raungengið fyrir sér er oft betra að hugsa um einföld dæmi í staðinn fyrir að horfa á feril á grafi. Latte-vísitala tímaritsins Wall Street Journal er gott dæmi, en þar er tekið saman hvað latte á Starbucks kostar í ólíkum borgum. Í ljósi þess að Starbucks-keðjuna er ekki að finna hér á landi er notast við verð á latte bolla hjá innlendum kaffihúsakeðjum. Þessi einfalda æfing leiðir í ljós að latte bolli í Reykjavík er sá dýrasti í heimi. Önnur drykkjarföng segja svipaða sögu, meira að segja vatnið sem við stærum okkur af að sé best í heimi, beint úr krana, er annað dýrasta í heimi sé það keypt í flösku!

Heimildir: Numbeo, Wall Street Journal, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Niðurstöðurnar hér að framan einskorðast ekki við drykkjarföng, heldur er Ísland eitt dýrasta, ef ekki allra dýrasta, land í heimi þegar kemur að vöru og þjónustu. Þar með höfum við siglt framúr t.d. Noregi og Sviss, löndum sem hingað til hafa prýtt efstu sæti lista yfir dýrustu lönd í heimi. Svo virðist sem aðeins eitt ríki geti skákað okkur um þessar mundir, innflutningstollaparadísin Bermúda. Þetta háa verðlag hér á landi skýrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á Íslandi er ekki í hópi með kaupmætti norskra og danskra launa þó svo kaupmáttur íslenskra launa erlendis sé í kringum toppinn.

Heimildir: Seðlabanki Íslands

Laun og verðlag hækka, samkeppnisstaðan versnar

Raungengi er hægt að mæla á tvo mismunandi mælikvarða, annars vegar út frá verðlagi og hins vegar út frá launum. Sama hvorn mælikvarðann er horft á, Ísland blandar sér í toppbaráttuna. Sem dæmi, árið 2017 voru laun á vinnustund hér á landi með því hæsta sem gerist innan OECD, mæld í evrum. Hafa ber í huga að hér er ekki verið að velta upp kaupmætti launa, þ.e.a.s. hversu mikið af vörum og þjónustu er hægt að kaupa fyrir launaseðilinn, heldur aðeins hversu há launin eru í alþjóðlegum samanburði, enda skiptir það gríðarlega miklu máli fyrir lítið opið hagkerfi eins og hið íslenska sem byggir verðmætasköpun sína að miklu leyti á útflutningi.

Þegar verðlag og laun hér á landi hækka umfram það sem gengur og gerist í okkar helstu viðskiptalöndum segir það sig sjálft að samkeppnisstaða þjóðarbúsins versnar. Af hverju ættu ferðamenn að koma til Íslands þegar fjölmargir aðrir, ódýrari, áfangastaðir standa til boða? Af hverju ættu erlend fyrirtæki að kaupa þjónustu af íslenskum fyrirtækjum ef hægt er að fá sambærilega þjónustu á lægra verði? Af hverju ætti latte bolli í Reykjavík að vera dýrari en í Zürich? Það er okkar mat að hagkerfið standi ekki undir svo háu raungengi til lengdar, þó vissulega sé alltaf gríðarleg óvissa um hvert raungengið ætti í raun og veru að vera. Með sögulega þróun til hliðsjónar verður að teljast ólíklegt að laun eða verðlag hér á landi muni lækka, eða hækka minna en hjá viðskiptalöndum okkar, á næstu árum. Þeir þættir munu því ekki stuðla að lægra raungengi. Hvað stendur þá eftir? Nafngengi krónunnar, sem við teljum að muni gefa eftir.

Heimildir: Hagstofa Íslands, OECD, Bloomberg, Greiningardeild Arion banka. *M.v. gengi gjaldmiðla á móti evrunni um miðjan apríl.