Verðbólgan gengur fyrir bensíni

Verðbólgan gengur fyrir bensíni

Við spáum 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í maí, sem er í takt við bráðabirgðaspá okkar sem síðast var uppfærð og birt í lok apríl. Tólf mánaða taktur verðbólgunnar hækkar í 2,4% úr 2,3% frá því í síðasta mánuði. Helstu áhrifaliðir á verðbólguna í maí í ár eru fasteignaverð, bensínverð og flugfargjöld, fyrstu tveir liðirnir til hækkunar en sá síðasti til lækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Undanfarna mánuði og misseri höfum við verið að gera ráð fyrir fasteignaverð haldi áfram að hækka en að það dragi úr hækkunarhraða og að árstaktur fasteignaverðs fari undir 10%. Samningum með fasteignir fer fækkandi sem bendir til minni verðþrýstings til hækkunar þar sem það er góð fylgni á milli fjölda samninga (12 mánaða meðaltali) og 12 mánaða breytingar á fasteignaverði. Ársmeðaltal fjölda samninga með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu stóð í 570 í mars samanborið við 585 í febrúar, en alls nam fjöldi samninga 594 samanborið við 776 samninga á sama tíma í fyrra. Fjöldi samninga með fasteignir á landsbyggðinni fer einnig fækkandi og námu 322 samningum samanborið við 488 samningum í mars í fyrra. Hinsvegar er alls ekki ólíklegt að fasteignaverð á landsbyggðinni geti haldið áfram að hækka umfram verð á höfuðborgarsvæðinu, enda er fasteignaverð á mörgum stöðum talsvert undir byggingarkostnaði ásamt því að mikill verðmunur við höfuðborgarsvæðið getur stutt við verðhækkanir. Einnig má ekki gleyma því að hækkun á verði tiltekinnar fasteignar upp á 1 milljón á landsbyggðinni hefur miklu meiri áhrif á fasteignaverð til hækkunar en 1 milljón króna hækkun á eign á höfuðborgarsvæðinu. Ef kaupandi horfir til fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu þá skiptir hann litlu máli hvort að hann kaupir sérbýli á 20 milljónir í stað 19 milljóna. Áhrifin á mælingu vísitölu neysluverðs eru því talsvert meiri af ákveðinni krónutölu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Blússandi bensínverð

Við spáum að bensínlítrinn hækkar um 4% og dísellítrinn um 3,44% samanborgið við mánuðinn á undan. Vægi eldsneytis í vísitölu neysluverðs hefur aukist í 3,15% úr 1,86% og áhrifin eru því meiri nú en þau hefðu orðið fyrir nokkrum mánuðum. Fyrir mánuði mældum við að eldsneytisverð hafi haldist óbreytt á milli mánaða en mæling Hagstofunnar leiddi til hækkunar á vísitölu neysluverðs upp á 0,03%. Þar af leiðandi leiðréttum við okkar spá og gerum ráð fyrir að áhrifin í maí verði 0,09%.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Ég flýg í fríið

Mæling okkar á flugfargjöldum bendir til lækkunar upp á um rúmlega 4% (-0,06% áhrif á VNV). Fyrir um mánuði mældum við lækkun flugfargjalda upp á 5% en mæling Hagstofunnar var nánast óbreytt. Ef við gefum okkur að mæling Greiningardeildar endurspegli raunverulega verðþróun og maímæling Hagstofunnar verði í takti við mælingu okkar, þá gætu áhrifin verið til meiri lækkunar en hér er gert ráð fyrir. Undanfarin 5 ár hefur Hagstofan alltaf mælt lækkun flugfargjalda í maí samanborið við apríl en 6 ár þar á undan mældi Hagstofan alltaf hækkun í maí. Árstíðaleiðrétt ARIMA spámódel gerir ráð fyrir 2,3% lækkun í maí en hækkun upp á 12,4% í júní og 18,6% hækkun í júlí en spáir síðan lækkun upp á 11,9% í ágúst og síðan 21% lækkun í september.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Línudans á verðbólgumarkmiði

Við teljum að árstakturinn sveiflist í kringum verðbólgumarkmið fram á sumar en fari síðan í um 3% í haust. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Síðasta verðbólguspá Seðlabankans, sem birt var í febrúar, sýnir sömu þróun en ný verðbólguspá er væntanleg í næstu viku. Þegar líða tekur á sumarið hækka flugfargjöld og ná sínum hæstu hæðum í júlí þegar ferðamannatímabilið nær hámarki. Þá er verð á hótelgistingu líklegt til að hækka frá því í maí þar til í ágúst og lækka síðan í verði í september.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júní +0,3%: Húsnæði, hótel, veitingastaðir og flugfargjöld hækka
  • Júlí -0,2%: Húsnæði og flugfargjöld hækka
  • Ágúst 0,4%: Húsnæði hækkar, flugfargjöld lækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka