Spáum að vetrar- og sumarvextir frjósi saman

Spáum að vetrar- og sumarvextir frjósi saman

Næstkomandi miðvikudag verður vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans kynnt. Þrátt fyrir að tveir mánuðir séu síðan nefndin kom síðast saman hefur stóra myndin í efnahagsmálum lítið breyst; verðbólgan daðrar við markmið, verðbólguálag á markaði er á svipuðum slóðum, þjóðarskútan hefur siglt lygnan sjó og allt er með ró og spekt á gjaldeyrismarkaði. Af þeim sökum teljum við að vöxtum verði haldið óbreyttum enn um sinn, þó svo nefndin kunni að hnykla brýnnar yfir tvísýnum vinnumarkaði og áhættu í opinberum fjármálum.

Mikil samstaða virðist hafa verið meðal nefndarinnar að undanförnu og mýkri tónn en oft áður hefur einkennt yfirlýsingarnar. Þrátt fyrir að síðustu tvær yfirlýsingar hafi verið tilþrifalitlar má greina að vaxtabreytingar hafa ekki átt upp á pallborðið að undanförnu og teljum við að það muni ekki breytast að svo stöddu. Að okkar mati eru yfirgnæfandi líkur á óbreyttum vöxtum, en ef til breytinga kæmi þá myndi nefndin líklegast frekar horfa til vaxtahækkana en lækkana. Helstu rökin fyrir því má finna í ræðu seðlabankastjóra á ársfundi bankans þar sem eftirfarandi setningu er að finna: „Það þarf því að horfa á það raunsæjum augum hvort vænta megi frekari lækkunar vaxta ef ekki myndast beinlínis slaki í þjóðarbúinu.“ Miðað við nýjustu spár og hagtölur er slaki ekki handan við hornið og því ólíklegt að vaxtalækkanir hljóti náð í augum nefndarinnar – ekki nema til stefnubreytingar komi.

Sömu aðhaldsbuxur, sömu vextir

Líkt og börn með uppáhalds leikfang á peningastefnunefnd það til að taka ástfóstri við ákveðin atriði. Þegar krónan var í hvað mestum styrkingarfasa átti hún hug og hjörtu nefndarinnar og var rauður þráður í gegnum hverja yfirlýsinguna á fætur annarri. Núna er röðin komin að verðbólguvæntingum og kjölfestu þeirra, eitthvað sem hefur vissulega alltaf skipt gríðarlega miklu máli og mun gera áfram, en hefur að undanförnu fengið sífellt meira vægi í orðræðu nefndarinnar.

Í síðustu yfirlýsingu var því veitt sérstök athygli að verðbólguvæntingar virtust hafa hækkað lítillega. Taumhald peningastefnunnar miðað við raunvexti hafði lækkað um 0,1 prósentu milli funda og mældust 1,5% miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða. Miðað við þær tölur sem liggja fyrir þegar þetta er ritað hefur taumhaldið haldist nær óbreytt, enda síðasta verðbólgumæling lág og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði ekki breyst að verulegu ráði. Nefndin mun þó búa yfir frekari upplýsingum þegar ákvörðun verður tekin, s.s. verðbólguvæntingum markaðsaðila sem birtar verða klukkan 16 í dag á vef Seðlabankans, og nýrri verðbólguspá. Það kæmi ekki á óvart ef nýjustu tölur bendi til örlítið slakara taumhalds, en engu að síður teljum við ólíklegt að breytingin verði á þá leið að nefndin túlki sem svo að hrikta sé farið í stoðum kjölfestunnar.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka
Spennan magnast: Hvað verður um framleiðsluspennuna?

Annað eftirlæti peningastefnunefndar að undanförnu hefur verið hin torskilda framleiðsluspenna. Samkvæmt útistandandi spá Seðlabankans er gert ráð fyrir um 1% framleiðsluspennu í ár en að hún fari minnkandi og verði komin í 0,2% undir lok spátímans, árið 2020. Framleiðsluslakinn, ljósið í myrkri vaxtadúfna ef marka má orð seðlabankastjóra hér að ofan, er því ekki á næsta leyti.

Aftur á móti verður ný þjóðhagsspá Seðlabankans birt samhliða vaxtaákvörðun og kæmi ekki á óvart ef hagvaxtarspá fyrir árið í ár verði færð niður á við. Framleiðsluspennan gæti því minnkað hraðar en fyrri spár Seðlabankans gerðu ráð fyrir. Þetta er þó aðeins fugl í skógi en ekki í hendi þar sem það eru tveir þættir sem togast á þegar kemur að framleiðsluspennu; kröftug innlend eftirspurn sem eykur framleiðsluspennuna og hægari vöxtur ferðaþjónustunnar sem dregur úr henni. Eins og sakir standa er ekkert sem bendir til þess að innlend eftirspurn muni gefa verulega eftir á komandi misserum, kortaveltutölur eru sterkar, ríki og sveitarfélög vilja gera allt fyrir alla og ekki ósennilegt að komandi kjarasamningar gangi hart að ríkiskassanum. Allt eru þetta atriði sem peningastefnunefnd mun vafalaust hafa auga á og hnippa í, en taka hvöss orð framyfir róttækar aðgerðar að sinni.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Spá Greiningardeildar fyrir einkaneyslu á 1F 2018.

Á hinum enda framleiðsluspennuvegasaltsins er ferðaþjónustan, sem hægt hefur hratt á undanfarna mánuði. Sem dæmi benda nýjustu tölur til þess að hver erlendur ferðamaður er að eyða minna en hann gerði áður, bæði í krónum og í sinni eigin mynt, enda útlit fyrir að dvalartíminn sé að styttast eftir því sem landið verður dýrari áfangastaður. Þá hafa ferðamannatölur undanfarna fimm mánuði verið nokkuð undir væntingum, bæði okkar og ISAVIA, og útlit fyrir að ferðamönnum hafi fækkað milli ára í apríl skv. Stjórnstöð ferðamála. Nýjasta ferðamannaspá Greiningardeildar hljóðar upp á 5,9% fjölgun erlendra ferðamanna í ár, sem er töluvert hægari fjölgun en áður var gert ráð fyrir. Í fyrsta sinn teljum við að áhættan sé niður á við, það er að ferðamannafjöldinn sé ofmetinn frekar en vanmetinn. Sé það raunin má ætla að framleiðsluspennan minnki hraðar en áður.

Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Vaxandi verðbólguþrýstingur

Í nýju hefti Peningamála verður einnig að finna nýja verðbólguspá Seðlabankans. Það verður að segjast að síðasta verðbólguspá kom okkur nokkuð á óvart þar sem gert var ráð fyrir verðbólgu undir markmiði árið 2019, fyrst og fremst vegna fyrirhugaðra breytinga á virðisaukaskattskerfinu. Í nýjustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er hinsvegar hvergi minnst á slíkar breytingar og því líklegt að spá bankans fyrir mælda verðbólgu hlýtur að hækka. Þrátt fyrir það teljum við að slík breyting hreyfi lítið við nefndarmönnum, enda lá umrædd breyting aldrei endanlega fyrir og verðbólguspá án áhrifa óbeinna skatta til staðar.

Ný verðbólguspá Greiningardeildar er talsvert brattari en verðbólguspá Seðlabankans, og ljóst að svo verður áfram meðan undirliggjandi gengisspár eru jafn ólíkar og raun ber vitni. Í raun og veru undrum við okkur á nafn- og raungengisspá bankans, sérstaklega í ljósi þess að seðlabankastjóri hefur sagt að „umtalsverð frekari hækkun raungengis væri áhættusöm.“ Hvað nákvæmlega hann á við um umtalsverð, þegar landið er nú þegar orðið eitt dýrasta land í heimi hvort sem er á mælikvarða launa eða verðlags, verður látið liggja á milli hluti. Að okkar mati er því óvissan þar af leiðandi upp á við þegar kemur að verðbólguspá Seðlabankans. Þrátt fyrir það teljum við mestar líkur á óbreyttum vöxtum út árið, sérstaklega ef verðbólguvæntingar standast prófraunina þegar verðbólgan sjálf tekur að þokast yfir markmið.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka