Tár, bros og túristar

Tár, bros og túristar

Nú eru 20 dagar í að HM í knattspyrnu hefjist í Rússlandi og óhætt að fullyrða að spennan sé farin að magnast. Síðasta stórmót sem karlalandsliðið tók þátt í hafði merkjanleg áhrif á hagtölurnar, s.s. kortaveltu og utanlandsferðir landsmanna. Í ljósi þess er áhugavert að velta fyrir sér hvaða áhrif þátttakan núna, þegar um er að ræða stærsta knattspyrnuviðburð í heimi, mun hafa á íslenskt efnahagslíf. Greiningardeild spáir því t.a.m. að sala á skyndibita og grillmat muni aukast í kringum leiki liðsins og að framleiðni vinnuafls muni dragast saman. Auk þess verða Aron og Gylfi vinsælustu karlmannsnöfnin í sumar, strákar munu fara að safna hári líkt og Birkir Bjarna og aðsókn í tannlæknanám mun aukast til muna. Að öllu gamni slepptu þá skiptir viðburður eins og HM miklu máli fyrir land eins og Ísland. Ísland hefur verið vinsæll áfangastaður undanfarið en til þess að tolla í tísku þarf umtal og fátt fær jafn mikla umfjöllun og stórmót í knattspyrnu.

Google trends sýnir þetta svart á hvítu. Á myndinni að neðan má sjá leit að „Iceland“ sem hlutfall af hæsta gildi. Aldrei hefur verið jafn mikið leitað að Íslandi og þegar Eyjafjallajökull gaus í apríl 2010. Það sem er hins vegar eftirtektarvert er að undanskildu gosinu í Eyjafjalljökli var þátttaka Íslands á Evrópumótinu árið 2016 það sem kveikt hefur mestan áhuga á landi og þjóð. Önnur eldgos og efnahagshrunið í október 2008 blikna t.a.m. í þessum samanburði.

 Heimild: Google trends

En hvaða efnahagslegu áhrif hefur aukinn áhugi á Íslandi? Atburðarásin gæti verið eitthvað á þessa leið: Góð úrslit á knattspyrnuvellinum í júní, ástríðufullar lýsingar Gumma Ben, dass af húh-i og fyrirmyndarstuðningsmenn gætu aukið umfjöllun um Ísland. Aukin umfjöllun getur leitt til aukins ferðamannastraums til landsins, en þó með einhverri töf. Aukinn straumur ferðamanna leiðir svo til aukinna tekna fyrir þjóðarbúið, jákvæðari þjónustujafnaðar og þ.a.l. meiri viðskiptaafgangs að öllu öðru óbreyttu. Vandinn er hins vegar sá að þó skynsemin segi að þátttaka á stórmóti og aukið gúgl um Ísland leiði til aukinnar ferðamennsku þá er tölfræðilega erfitt að sannreyna þá tilgátu. Meira um að það síðar.

Brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll – EM metið hefur ekki enn verið slegið

Áhrifin á viðskiptajöfnuðinn eru þó ekki einungis í aðra áttina. Ef litið er á brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll árið 2016 á grafinu hér að neðan sjást áhrif Evrópumótsins í Frakklandi greinilega. Alls flugu 60.075 Íslendingar frá Keflavíkurflugvelli í júní 2016 en það er mesta „útrás“ Íslendinga í einum mánuði frá upphafi mælinga Ferðamálastofu.

Kaup Íslendinga á þjónustu erlendis s.s. mat og drykk flokkast sem innflutt þjónusta. Þegar að Íslendingar hópast út fyrir landsteinana í miklu mæli þýðir það að þjónustuinnflutningur eykst sem dregur úr afgangi af þjónustuviðskiptum og þar af leiðandi viðskiptaafgangi. Það er hins vegar erfitt að átta sig á því hversu margir Íslendingar muni fara til Rússlands í sumar og þ.a.l. hversu mikið þjónustuinnflutningur muni aukast. Hafa ber í huga að hvert ferðametið á fætur öðru hefur verið slegið að undanförnu enda krónan sterk og kaupmáttur Íslendinga erlendis aldrei verið meiri. Þetta leiðir til þess að erum að koma af hærri grunn en áður eins og sjá má á myndinni að neðan. Það er eigi að síður mat Greiningardeildar að heildaráhrif HM á viðskiptajöfnuð Íslands verði jákvæð og þeim mun jákvæðari eftir því sem landsliðinu gengur betur á mótinu. Þjónustujöfnuður við Rússland sérstaklega verður þó vafalaust verulega neikvæður í sögulegu samhengi.

 Heimild: Ferðamálastofa

Enginn er eyland - áhrif stórmóta á önnur lönd

Áhrif stórmóts í knattspyrnu takmarkast alls ekki við Ísland. Ef litið er á leit að Úrúgvæ á Google fer ekki á milli mála hvenær stórmót fara fram. Það sem kemur hvað mest á óvart er að það sama virðist eiga við um stórþjóðir á borð við Brasilíu og Þýskaland.

 Heimild: Google trends

Þessi lönd voru valin af því þau eru ólík en eiga það sameiginlegt að skara fram úr á knattspyrnuvellinum. Svo virðist sem meiri hluti toppana í leit að löndunum skýrist af þátttöku á stórmótum. Árið 2006 var heimsmeistaramótið haldið í Þýskalandi og þýska landsliðið lenti í 3. sæti. Úrúgvæ komst hins vegar ekki á mótið og því er enginn toppur hjá þeim. „EM áhrifanna“ gætir að sjálfsögðu einungis hjá Þýskalandi þar sem Úrúgvæ og Brasilía tilheyra Suður-Ameríku.

Löndin þrjú eiga það sameiginlegt að aldrei hefur verið meiri áhugi fyrir þeim en á sama tíma og HM 2014 stóð yfir. Fyrir utan hefðbundin „HM áhrif“ gæti þetta skýrst af því að að mótið var að mörgu leyti einstakt fyrir þau öll. Þýskaland vann Brasilíu 7-1 í undanúrslitum og varð heimsmeistari eftir sigur á Argentínu í úrslitum. Áhuginn á Brasilíu stafar af því að mótið var haldið í Brasilíu, og auðvitað hroðalegu tapi fyrir Þýskalandi. Toppurinn hjá Úrúgvæ orsakast af því að aðalstjarna liðsins, Luis Suarez beit Chiellini, varnarmann ítalska landsliðsins, eins og frægt er orðið. Úrúgvæ var því mikið á milli tannanna á heimsbyggðinni á seinni stigum mótsins.

„HM áhrifin“ eiga ekki einvörðungu við þessi lönd. Það er eiginlega sama hvaða fótboltaþjóð er litið á áhrifin koma alltaf skýrt fram. Prófið til dæmis að fletta upp Togo í Google trends og spyrjið ykkur síðan hvaða ár landið tók þátt á HM. Það er deginum ljósara að heimsbyggðin fylgist grannt með gangi mála á knattspyrnuvellinum.

Hvaða áhrif hefur aukin leit á Google?

Innsæið segir manni að aukin jákvæð umfjöllun ætti að auka líkurnar á góðu ferðamannatímabili í kjölfarið í viðkomandi landi. Í kjölfar árangurs íslenska landsliðsins í Frakklandi jókst ferðamannastraumurinn til landsins umtalsvert þrátt fyrir mikla raungengisstyrkingu. Það segir þó ekki mikið þar sem leitnin upp á við hefur verið mikil frá hruni. Af þeim ástæðum er áhugavert að sjá hvort þetta eigi við annað fámennt land eins og t.d. Úrúgvæ.

 Heimild: The World Bank Data

Það er athyglisvert að sjá að árangur úrúgvæska landsliðsins virðist hafa jákvæða fylgni við ferðamannastraum árið eftir mót. Þegar Úrúgvæ hefur ekki komist á HM hefur fjöldi ferðamanna dregist saman eða staðið í stað árið eftir. Að sama skapi hefur ferðamönnum fjölgað í kjölfar betri árangurs. Ef litið er aftur til ársins 1995 hefur ferðamannastraumur til Úrúgvæ aðeins einu sinni aukist meira en hann gerði árið 2011, ári eftir að þeir lentu í 4. sæti, sem er besti árangur liðsins á HM.

Athugun sem þessi er að sjálfsögðu ekki tölfræðilega marktæk enda margt annað sem hefur áhrif á ferðamannastraum en HM. Leitni í tímaraðagögnum getur einnig valdið svokölluðu delluaðhvarfi sem er mikilvægt að hafa í huga þegar unnið er með tímaraðir. Þessi meinta fylgni milli HM og ferðamannastraums er þó umhugsunarverð þótt erfitt kunni að reynast að sýna fram á tölfræðilega marktækt samband.

Ísland fer heim með mesta verðlaunaféð...m.v. höfðatölu

Efnahagsleg áhrif heimsmeistaramótsins takmarkast þó ekki við vangaveltur um ferðamannastraum og viðskiptajöfnuð. FIFA greiðir nefnilega út 400 milljónir dollara til þátttakenda. Upphæðin sem knattspyrnusamband hvers lands fær fer eftir árangri þess á mótinu. Upphæðirnar á myndinni að neðan eru í milljónum króna og miðað er við að gengi krónu gagnvart Bandaríkjadals sé 105.

 Heimild: FIFA

Ef landsliðið kemst í 8-liða úrslit, eins og á Evrópumótinu, myndi það fá greitt u.þ.b. 1,7 milljarð íslenskra króna frá FIFA. Sigurvegari mótsins hlýtur 4 milljarða íslenskra króna, en það samsvarar 0,3% af öllum útflutningi ársins 2017 eða öllum útflutningi á lúðu frá Íslandi.

Það er ljóst að efnahagsleg áhrif verðlaunafjárins yrðu umtalsvert meiri hér á landi en annars staðar vegna smæðar hagkerfisins, og miðað við höfðatölu liggur nú þegar fyrir að Ísland mun raka til sín stærstum hluta verðlaunafjárins, jafnvel þó við töpum öllum leikjunum.

Efnahagsleg áhrif heimsmeistaramótsins eru margþætt og athyglisverð en HM í Rússlandi snýst þó ekki um þau. Viðburðir sem þessir sameina heimsbyggðina og vonandi munu allir sýna sínar bestu hliðar í sumar, innan sem utan vallar. Í sumar er kjörið tækifæri fyrir landsmenn til að þétta hópinn, skemmta sér yfir leikjum landsliðsins og standa þétt við bakið á strákunum okkar.

ÁFRAM ÍSLAND!