Verðbólga áfram lítil – húsnæðisverð slökkti verðbólguneistann í maí

Verðbólga áfram lítil – húsnæðisverð slökkti verðbólguneistann í maí

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,09% á milli mánaða í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkaði þar með í 2,0%, úr 2,3% í apríl. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,1-0,3% og er mælingin því fyrir neðan spábil greiningaraðila sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,3% hækkun. Verðhjöðnun í maí kemur okkur því verulega á óvart og þá fyrst og fremst lítils háttar lækkun húsnæðisverðs og veruleg lækkun flugfargjalda milli mánaða. Við spáum því að verðbólga muni haldast undir 2,5% verðbólgumarkmiði a.m.k. út sumarið. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 9,7% (-0,13% áhrif á VNV). Mæling okkar benti til lækkunar á flugfargjöldum og gerðum við ráð fyrir 4,3% lækkun á undirliðnum. Flugfargjöld hafa lækkað í maí undanfarin ár en mælingin nú er meiri en almennt var gert ráð fyrir. Matarkarfan lækkaði um 0,09% (-0,01% áhrif á VNV). Bensínverð hækkaði um 2,4% en við gerðum við ráð fyrir 2,9% hækkun á milli mánaða. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð lækkar eða stendur í stað – fer eftir tegund og staðsetningu

Undirvísitölur húsnæðisliðarins benda til þess að fasteignir sem hafa hækkað hvað mest í verði undanfarna 12 mánuði, séu að lækka þessa dagana. Húsnæðisverð á landsbyggðinni sem hækkað hefur 12,3% undanfarna 12 mánuði lækkar um 0,8% á milli mánaða og verð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu sem hækkað hefur 8,8% á milli ára lækkar um 0,9% í maí miðað við mánuðinn á undan. Fjölbýlisverð á höfuðborgarsvæðinu stendur í stað en það hefur hækkað minnst af þessum þremur undirliðum eða um 5% undanfarna 12 mánuði. Á heildina litið mælir Hagstofan lækkun á fasteignaverði upp á 0,4% á milli mánaða (7% hækkun undanfarna 12 mánuði) en reiknuð húsaleiga sem reiknuð út frá þróun fasteignaverðs og fjármögnunarkostnaðar lækkar um 0,4% á milli mánaða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Þó mælingin hafi verið undir væntingum greiningaraðila þá staðfestir mæling Hagstofunnar undirliggjandi þróun á undirliðum verðbólgunnar. Horft 12 mánuði aftur í tímann þá sést að áhrif frá hækkandi húsnæðisverði til hækkunar á verðbólgu minnka en verðhjöðnunaráhrif vegna innfluttra vara halda áfram að dragast saman. Í fyrsta sinn síðan í júlí 2016 mælist nú verðbólga án húsnæðis, eða upp á 0,2%, en í án húsnæðisverðs hafði mælst verðhjöðnun í 22 mánuði í röð. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá áhrif undirliða vísitölu neysluverðs eftir eðli og uppruna á verðbólguna. Frá því snemma árið 2014 hafa innfluttar vörur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu og hitt heppilega á því að mestu hækkanir fasteignaverðs áttu sér einmitt stað þegar áhrif innfluttra vara til lækkunar á verðbólguna var hvað mest. Áhrif verðlækkana vegna innfluttra vara (áhrif vegna styrkingar krónu og lækkandi verðlags á sumum vörum á heimsmarkaði) hafa hinsvegar minnkað en á sama tíma hefur ekki dregið jafn mikið úr áhrifum vegna minni hækkana fasteignaverðs. Því mun 12 mánaða taktur verðbólgunnar líklega hækka því ekkert annað er að vega upp á móti fasteignaverðshækkununum, verði framhald á þeirri þróun, eins og við reiknum með.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hækki í næsta mánuði og fari í 2,3% í júní en sumarútsölur í júlí leiða síðan til lækkunar og 12 mánaða verðbólga lækkar í 2,1%. Minni hækkun fasteignaverðs í undanförnum tveimur mælingum Hagstofunnar lækkar 12 mánaða taktinn í bráðabirgðaspá okkar. Hagstofan reiknar breytingu á fasteignaverði úr kaupsamningum frá Þjóðskrá og benda þeir útreikningar til að verð hafi lækkað eða að þau staðið í stað í þessum mánuði. Þrátt fyrir að hagkerfið sé að kólna vegna minni vaxtar í aðsókn ferðamanna til landsins, þá höfum við litlar forsendur til að gera ráð fyrir að húsnæðisverð sé að lækka. Gerum við því áfram ráð fyrir að fasteignaverð hækki áfram þó að takturinn sé mögulega hægari. Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar eru því líkur á því að verðbólga haldist undir 2,5% út sumarið að minnsta kosti.
Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júní +0,3%: Húsnæði, flugfargjöld, hótelgisting hækkar
  • Júlí -0,2%: Húsnæði, flugfargjöld, hótelgisting hækkar, útsölur til lækkunar
  • Ágúst +0,4%: Flugfargjöld fer lækkandi eftir hækkanir sumars, útsölur ganga tilbaka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka