Betra er lítill fiskur en tómur diskur – fjöldi ferðamanna segir aðeins hálfa sögu

Betra er lítill fiskur en tómur diskur – fjöldi ferðamanna segir aðeins hálfa sögu

Halldór Laxness sagði eitt sinn „Er ekki endirinn á öllum Íslendingasögum sá að Njáll er brendur?“ Miðað við fréttaflutning síðustu daga af stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar mætti ætla að á ferðinni væri enn ein Íslendingasagan, saga sem endar með voveiflegum hætti fyrir aðalsöguhetjuna, enda kann sá ekki að segja af súru sem aldrei sýpur nema sætt. Nýjasta ferðamannaspá ISAVIA sem kynnt var á morgunfundi í gær endurspeglaði veðrabrigðin, fækkun ferðamanna yfir sumarmánuðina og aðeins 2,6% fjölgun yfir árið. Fundargestir supu hveljur og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar talaði um lægðardrag. Fjöldinn segir þó aðeins hálfa söguna.

Þegar vöxturinn temprast, eins og raun ber vitni, fer annað að vega þyngra fyrir framgang efnahagslífsins en hreinar fjöldatölur, og það er hversu mikil verðmæti skapa þessir ferðamenn fyrir þjóðarbúið. Segjum sem svo að spá ISAVIA gangi eftir en á sama tíma dvelur hver ferðamaður mun skemur á landinu en í fyrra er líklegt að tekjur ferðaþjónustunnar dragist saman, þrátt fyrir hækkandi höfðatölu. Skoðum hvernig þróunin hefur verið á þessum vettvangi.

Framan af síðasta ári var eins og verðmætasköpun á bak við hvern ferðamann færi minnkandi þar sem neysla ferðamanna, eða ferðalög eins og hún er kölluð í utanríkistölum Hagstofunnar, óx mun hægar en fjöldi ferðamanna. Það þýðir að hver ferðamaður eyddi lægri fjárhæð á Íslandi en hann gerði áður, hvort sem er í krónum talið eða heimamynt sinni. Yfir árið í heild eyddi hver ferðamaður að jafnaði 6,2% lægri fjárhæð í krónum, leiðrétt fyrir gengi og verðlagi, í Íslandsheimsókn sinni en árið áður. Undir lok árs varð hins vegar lítils háttar viðsnúningur þegar neysla á hvern ferðamann jókst örlítið, eða um 0,1% milli ára. Við teljum líklegt að það skýrist meðal annars af því að þá hafði samfelld styrking raungengis krónunnar stöðvast. Tölur fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs verða birtar á morgun og verður áhugavert að sjá hver þróunin verður. Vonandi mun viðsnúningur fjórða ársfjórðungs halda áfram en raungengið hefur haldist nokkuð stöðugt að undanförnu.

Heimildir: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Að baki hverri utanlandsferð liggur í flestum tilfellum einhver skipulagning. Hvert skal fara? Hvað má ferðin kosta mikið? Hversu löng er ferðin? Allt eru þetta nátengd atriði, ef ferðin má ekki kosta mikið þá er ólíklegt að dýr áfangastaður verði fyrir valinu, eða dvölin þar verði þá þeim mun styttri. Þetta þekkir íslensk ferðaþjónusta á eigin skinni enda Ísland einn dýrasti áfangastaður í heimi. Miðað við fjölgun ferðamanna hingað til virðist sem verðmiði Íslandsferðarinnar hafi ekki verið þrándur í götu vaxtarins, heldur bitnað á neyslumynstrinu og dvalartímanum. Þannig hefur dvalartíminn styst eftir því sem verðmiðinn hefur hækkað.

Með uppgangi Airbnb hefur reynst sífellt erfiðara að leggja mat á raunverulegan dvalartíma ferðamanna á landinu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar um skráðar og óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hefur dvalartíminn almennt verið að styttast síðustu misseri. Tölur fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs benda aftur á móti til þess að dvalartíminn hafi tekið að lengjast á nýjan leik, sem er fagnaðarefni fyrir ferðaþjónustuna og þjóðarbúið þar sem það getur bent til þess að tekjuvöxturinn verði meiri en nemur fjölgun ferðamanna. Þá þýðir lengri dvalartími mögulega betri dreifingu ferðamanna um landið, en mikil samþjöppun hefur orðið á Suðvesturhorninu.

Nýr veruleiki blasir við ferðaþjónustunni, sem og greiningaraðilum. Hingað til hefur sviðsljósið beinst að komutölum til landsins en með hægari vexti fara aðrir vísar, eins og gistinætur, að vega jafn þungt ef ekki þyngra. Á síðasta ári skipti það ekki öllu máli fyrir tekjur greinarinnar í heild sinni að dvalartíminn styttist, enda fjölgaði erlendum ferðamönnum á sama tíma um 24% og það í framhaldi af 40% fjölgun ferðamanna árið þar á undan! Nú þegar útlit er fyrir mun hægari vöxt fer dvalartíminn að skipta sköpum.

Heimildir: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, Mælaborð ferðaþjónustunnar, Greiningardeild Arion banka. *Miðað er við skráðar og óskráðar gistinætur. Gögn frá Airdna eru nálguð að gögnum Hagstofunnar fyrir tímabilið 2013-2016.

Milljarða munur – munar um minna

Útistandandi spá okkar gerir ráð fyrir að vöxtur í komum erlendra ferðamanna verði 5,9% í ár, sem er nokkuð meiri vöxtur en ISAVIA gerir ráð fyrir. Ef hver ferðamaður eyðir jafn miklu og í fyrra þá mun liðurinn ferðalög í þjónustuviðskiptum einnig vaxa um 5,9%, sem gerir rúmlega 340 ma.kr. í tekjur fyrir þjóðarbúið. Ef við hinsvegar gerum ráð fyrir að sama verði upp á teningnum og í fyrra, þegar eyðsla hvers ferðamanns dróst saman um 6,2% á milli ára, þá er ljóst að útflutningstekjur þjóðarbúsins dragast saman þrátt fyrir fjölgun. Hér að neðan kristallast það sem áður hefur verið nefnt, þegar vöxturinn er kominn í eðlilegra horf þarf að horfa á fleiri stærðir til að meta efnahagsleg áhrif. Fleiri ferðamenn eru ekki lengur ávísun á auknar tekjur.

Það er útlit fyrir að verulega hægi á fjölgun ferðamanna til landsins í ár. Tölur um fjölda ferðamanna í apríl komu okkur nokkuð á óvart, enda höfðum við fyrirfram ekki reiknað með samdrætti. Það má reikna með því að maí verði nokkuð sterkari, enda bæði íslensku flugfélögin að stækka leiðarkerfi sín, en erfiðara er að segja til um sumarmánuðina. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að fjölgun ferðamanna yfir sumarmánuðina yrði óveruleg, eða engin, enda háannatími í ferðaþjónustunni og hægara sagt en gert að verða sér úti um gistingu. Sem dæmi gerir spá ISAVIA ráð fyrir að ferðamönnum fækki yfir sumarmánuðina Mesta spennan snýr þar að leiðandi að haust- og vetrarmánuðunum. Enn sem komið er höfum við ekki séð ástæðu til að breyta útistandandi spá okkar um fjölda ferðamanna, en förum í engar grafgötur með það að áhættan liggur niður á við.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka