Þjónustuviðskipti á 1F: Klipið af afganginum

Þjónustuviðskipti á 1F: Klipið af afganginum

Hagstofan birti í morgun tölur um þjónustuviðskipti á fyrsta ársfjórðungi. Út frá komutölum erlendra ferðamanna til landsins lá fyrir að stór klípa yrði tekin af viðskiptaafganginum milli ára. Sú varð raunin. Þannig nam afgangur af þjónustuviðskiptum 32,6 ma.kr., sem samsvarar 21% samdrætti milli ára, og er þetta minnsti afgangur á einum fjórðungi frá því á fyrsta ársfjórðungi 2013. Þrátt fyrir það má finna margt jákvætt í tölunum, s.s. að eyðsla á hvern ferðamann jókst milli ára og „hollenska veikin“ hefur ekki lagst á landið og knésett annan útflutning.

Vöruskiptahallinn á fyrsta ársfjórðungi, á greiðslujafnaðargrunni, var 27,8 ma.kr., sem er nokkuð minni halli en á sama tíma í fyrra, er hann var 34,8 ma.kr., en hafa ber í huga að í upphafi síðasta árs stóð yfir sjómannaverkfall. Minni afgangur af þjónustuviðskiptum vó hinsvegar á móti og gerir það að verkum að afgangur af vöru-og þjónustuviðskiptum nam aðeins 4,8 ma.kr., sem samsvarar 25% samdrætti milli ára.

Í stuttu máli sagt eru tölurnar í góðu samræmi við okkar síðustu hagspá. Þjónustujöfnuður var jákvæður um 32,6 ma.kr. á fjórðungnum en höfðum gert ráð fyrir 36,4 ma.kr. afgangi í okkar spá. Bæði innflutt og útflutt þjónusta jókst meira en við höfðum gert ráð fyrir, og kom útflutningurinn okkur einna helst á óvart. Munurinn á spánni og rauntölunum felst ekki í ferðaþjónustunni heldur óferðaþjónustutengdum útflutningi, sem jókst örlítið meira en við áttum von á. Má þar helst nefna útflutta fjármálaþjónustu, viðgerðir og viðhald, og fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eins og áður sagði virðist sem hollensku veikinni hafi ekki tekist að knésetja annan þjónustuútflutning. Að undanförnu hefur mikið verið rætt og ritað að sterk króna, sem að miklu leyti má rekja til uppgangs ferðaþjónustunnar, og há laun væru óþægur ljár í þúfu annars þjónustuútflutnings og myndu hreinlega að ryðja honum úr vegi. Þar af leiðandi er jákvætt að sjá að aðeins tveir undirliðir þjónustuútflutnings drógust saman milli ára.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ég fer í fríið

Þjónustuinnflutningur jókst verulega umfram þjónustuútflutning á milli ára, eða um 20% samanborið við 6% vöxt útflutnings. Vöxtinn má fyrst og fremst rekja til ferðagleði landans á fyrsta ársfjórðungi, en alls jókst liðurinn „ferðalög“, sem er neysla íslenskra ferðamanna í útlöndum, um 24,5% milli ára. Þá jukust samgöngur og flutningar um 17,6%. Alls nam neysla íslenskra ferðamanna erlendis bara á fyrsta ársfjórðungi 42 ma.kr., sem er hærri upphæð en yfir sumarmánuðina árið 2016, en aðeins undir sumarneyslunni í fyrra.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hver íslenskur ferðamaður eyddi að meðaltali 310þ.kr. ferðalögum sínum, sem er hæsta upphæð á fyrsta ársfjórðungi frá því að Hagstofan tók að birta sundurliðaðar tölur (2009). Þetta samsvarar 25% aukningu milli ára. Ferðagleði landans á fyrsta fjórðungi þýðir að ferðalagajöfnuður, þ.e. neysla erlendra ferðamanna hér á landi að frádreginni neyslu íslenskra ferðamanna erlendis, minnkaði allverulega á milli ára, eða um 16%.

Tölurnar draga dám af sterkri krónu og vaxandi kaupmætti heimilanna og má reikna með að þjónustuinnflutningur verði áfram sterkur. Sem dæmi spáum við að að þjónustuinnflutningur aukist um tæp 8% á þessu ári.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Sólargeisli inn í erfitt vor: Neysla ferðamanna eykst

Líkt og áður sagði er jákvætt að sjá að á fyrsta ársfjórðungi jókst neysla á hvern erlendan ferðamann, bæði í krónum talið og erlendri mynt, um 1% milli ára. Þetta er annar fjórðungurinn í röð sem þessi þróun á sér stað. Væntanlega litast það af því raungengi krónunnar var í vetur á svipuðum slóðum og í fyrra og styrkingaráhrifin þar af leiðandi farin að dvína. Eins og við fjölluðum um í markaðspunkti í gær fer dvalartíminn og neyslan að vega þyngra fyrir framgang efnahagslífsins en höfðatalan og eru þetta því jákvæð tíðindi fyrir íslenskan þjóðarbúskap nú þegar ferðaþjónustugullgæsin er farin að lækka flugið allhratt.

Á mánudaginn næsta birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð. Þar sem afgangur af þjónustuviðskiptum var örlítið minni en við höfðum ætlað, sem fyrst og fremst má rekja til meiri vaxtar þjónustuinnflutnings en væntingar stóðu til um, útilokum við ekki að hér mælist viðskiptahalli á fyrsta ársfjórðungi. Eftir því sem innfluttu vinnuafli fjölgar á landinu hafa neikvæð rekstrarframlög, s.s. hreinar peningasendingar milli landa, farið að hafa meiri áhrif á viðskiptajöfnuð. Frumþáttatekjurnar eru stærsti óvissuþátturinn, en við reiknum með að þær verði neikvæðar. Líkurnar á viðskiptahalla eru þar af leiðandi meiri en minni. Það yrði þá fyrsti viðskiptahallinn á ársfjórðungi frá fjórða ársfjórðungi 2012.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka