Viðskiptaafgangur á 1F: Lítill, minni, minnstur

Viðskiptaafgangur á 1F: Lítill, minni, minnstur

Viðskiptaafgangur við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2018 var 289 milljónir króna, sem er í senn töluvert minni afgangur en á sama tíma í fyrra og minnsti afgangur á einstaka fjórðungi frá árinu 2014. Tölurnar er nokkuð slakari en við áttum von á, en spá okkar hljóðaði upp á 6,7 milljarða króna afgang. Frávikið frá okkar spá skýrist fyrst og fremst af minni afgangi af þjónustuviðskiptum en við reiknuðum með og örlítið meiri viðskiptahalla. Þrátt fyrir það kemur niðurstaðan ekki á óvart, enda lá fyrir út frá komutölum erlendra ferðamanna til landsins að viðskiptaafgangur myndi dragast verulega saman milli ára og áttum við allt eins von á því að sjá viðskiptahalla.

Sem fyrr er það afgangur af þjónustuviðskiptum sem ber uppi viðskiptajöfnuðinn og skýrist það fyrst og fremst af umsvifum í ferðaþjónustu. Á móti vegur vöruskiptahalli, neikvæðar frumþáttatekjur og neikvæð rekstrarframlög. Að þessu sinni voru frumþáttatekjur neikvæðar um 144 milljónir króna, en fyrirfram höfðum við búist við meiri halla á þessum undirlið, þrátt fyrir jákvæða erlenda stöðu þjóðarbúsins, þar sem vaxtamunur milli Íslands og útlanda er ennþá nokkur. Rekstrarframlög voru neikvæð um 4,3 milljarða króna og spilar þar stórt hlutverk auknar peningasendingar einstaklinga til útlanda, sem skýrist líklega af fjölgun erlends vinnuafls hér á landi.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands

Viðskiptaafgangur á fyrsta ársfjórðungi 2017 nam 5,7 milljörðum króna, samanborið við 289 milljónir í ár. Það samsvarar hvorki meira né minna en 95% samdrætti milli ára! Hér að neðan má sjá í hverju munurinn felst. Ef við byrjum á jákvæðu nótunum þá var nokkuð minni vöruskiptahalli í ár en í fyrra, enda ekkert sjómannaverkfall eða annars konar áfall að lita vöruútflutning í ár. Á móti vegur minni afgangur af þjónustuviðskiptum, eða sem nemur 8,7 milljörðum króna. Líkt og við fjölluðum um á föstudaginn síðasta var ýmislegt jákvætt að finna í tölunum yfir þjónustuviðskipti, þrátt fyrir minni afgang, s.s. að neysla á hvern erlendan ferðamanna jókst og að óferðaþjónustutengdur útflutningur jókst nokkuð. Innflutt þjónusta jókst hinsvegar töluvert meira en útflutningur, enda Íslendingar duglegir að nýta aukið flugframboð til og frá landinu og mikinn kaupmátt í erlendri mynt.

Þriðja stóra breytingin milli ára eru minni frumþáttatekjur. Fyrir ári síðan voru þær jákvæðar um rúma 3,5 milljarða en skv. nýjustu tölum voru þær neikvæðar um 144 milljónir. Bæði tekjur og gjöld hafa dregist saman á milli ára, en tekjur þeim mun meira sem útskýrir samdráttinn. Mestu munar um minni tekjur af beinni erlendri fjárfestingu en einnig voru launatekjur að dragast saman á milli ára á meðan launagjöld jukust, þ.e.a.s. innlendir aðilar voru að fá minni launatekjur frá erlendum aðilum m.v. sama tíma í fyrra á meðan erlendir aðilar voru að fá meiri launatekjur frá innlendum aðilum. Óveruleg breyting er á rekstarframlögum á milli ára, eitthvað sem kemur nokkuð á óvart þar sem mannfjöldinn hefur aukist um 10.600 einstaklinga á milli ára og þar af hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 2.510 einstaklinga.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Mikið lítur þú vel út

Samkvæmt tölum Seðlabankans hefur erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið betri, en hún nam 235 milljörðum króna undir lok fyrsta fjórðungs, sem samsvarar 9% af vergri landsframleiðslu (VLF). Erlenda staðan batnaði þannig um hvorki meira né minna en um 55 milljarða króna frá árslokum, eða 2,1% af VLF. Þetta er þriðji fjórðungurinn í röð sem erlenda staðan batnar um meira en 50 milljarða milli fjórðunga. Samspil tveggja þátta útskýrir breytinguna á milli fjórðunga. Í fyrsta lagi bætti fjármagnsjöfnuðurinn, sem fjallað er um hér að neðan, stöðuna en á móti vegur að gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif um 28 milljarða króna.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eins og belja að vori

Líta má á greiðslujöfnuðinn sem pening, á annarri hliðinni er viðskiptajöfnuðurinn, á hinni hliðinni er fjármagnsjöfnuðurinn sem mælir flæði fjármagns milli inn- og erlendra aðila. Í hinum fullkomna heimi ættu fjármagnsjöfnuður og viðskiptajöfnuður að núlla hvorn annan út en svo er ekki m.a. sökum tímaskekkju, verðskekkju og magnskekkju.

Á fyrsta fjórðungi var fjármagnsjöfnuðurinn jákvæður um tæpa 58 milljarða króna. Það þýðir að Íslendingar færðu innlendar eignir yfir í erlendur umfram tilfærslu erlendra aðila í innlendar eignir sem því nemur. Þannig var eignastaða Íslendinga gagnvart útlöndum að batna sem endurspeglast í bættri erlendri stöðu. Hvað varðar eignir Íslendinga í útlöndum munar mestu um auknar aðrar fjárfestingar, sem skýrist fyrst og fremst af hærri upphæð í seðlum og innistæðum. Þá jókst fjárfesting í skammtíma skuldaskjölum talsvert. Þetta er fjórði fjórðungurinn í röð sem fjármagnsjöfnuðurinn er jákvæður, eða allt frá því að höft voru losuð, sem bendir til þess að innlendir aðilar hafi verið frelsinu fegnir.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Síðastliðna mánuði hefur Seðlabankanum verið tíðrætt um gott jafnvægi á gjaldeyrismarkaði, enda hefur krónan siglt lygnan sjó og sveiflast á þröngu bili. Í kjölfar haftalosunar í fyrra veiktist krónan nokkuð og sveiflur jukust. Margt lagðist þar á eitt og má ætla að verðbréfafjárfesting hafi átt sinn þátt í þeirri þróun. Allan seinni hluta síðasta árs mátti merkja hálfgerða einstefnu, eins og sést á myndinni hér að neðan, fjármagn var að leita út úr landinu. Þannig nam verðbréfafjárfesting innlendra aðila á milli 10-20 ma.kr. á sama tíma og verðbréfafjárfesting erlendra aðila hér á landi var takmörkuð. Nettó fjármagnshreyfingar á 4F 2017 og 1F 2018 námu um 30 milljörðum króna. Á sama tíma stóð krónan eins og klettur, haggaðist varla jafnvel þótt fréttir um hægari vöxt ferðaþjónustunnar hafi farið hátt. Til samanburðar voru nettó fjármagnshreyfingar á 3F 2017 um 40 milljarðar króna og gaf krónan þá nokkuð eftir.

Ákveðin kaflaskil urðu í febrúar á þessu ári en þá var nettó innflæði, og aftur í apríl. Vel má vera að þessi þróun hafi spilað hlutverk í gengisstyrkingunni sem varð frá miðjum febrúar fram í miðjan apríl. Hafa ber þó í huga að tölur um verðbréfafjárfestingu geta litað af einskiptisliðum og skekkjum og lýsa gjaldeyrisviðskiptum aðeins að takmörkuðu leyti. Engu að síður er áhugavert að fylgjast með þróuninni enda verðbréfafjárfesting stór þáttur í fjármagnsflæði á milli landa.

Eins og staðan er í dag teljum við flest allt benda til þess að áfram verði útflæði í erlendar eignir. Lífeyriskerfið er að stækka, og mun halda áfram að stækka, og lífeyrissjóðirnir eru í óða önn að auka vægi erlendra eigna sinna. Á sama tíma er viðskiptaafgangurinn að minnka. Síðasta hagspá okkar gerði ráð fyrir 5,9% fjölgun ferðamanna og um 60 milljarða króna viðskiptaafgangi árið 2018. Miðað við nýjustu tölur og hátíðnivísbendingar gæti spáin verið í bjartsýnni kantinum, þó of snemmt sé að segja til um það með einhverri vissu. Ef útflæði heldur áfram með sambærilegum takti og viðskiptaafgangurinn skreppur saman eins og útlit er fyrir þurfa fjárfestingar erlendra aðila hér landi að minnsta kosti að halda dampi, og helst að aukast, til að viðhalda jafnvægi á gjaldeyrismarkaði.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka