0,4% ferðabólga í júní

0,4% ferðabólga í júní

Við spáum 0,4% hækkun á vísitölu neysluverðs í júní, sem er meiri hækkun en síðasta bráðabirgðaspá okkar gerði ráð fyrir. Bráðabirgðaspáin hljóðaði upp á 0,3% hækkun og var birt í viðbrögðum okkar við síðustu verðbólgubirtingu Hagstofunnar í lok maí. Samkvæmt nýrri spá okkar hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 2,4% úr 2,0% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna 5. til 11. júní og mælingin verður birt miðvikudaginn 27. júní.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Helstu áhrifaliðir á verðbólguna í júní eru bensínverð og flugfargjöld og eru báðir þessir liðir líklegir til að vera til hækkunar. Mæling Greiningardeildar bendir til 2,7% hækkunar á verði bensíns en 3,3% hækkunar á verði dísel. Miðað við vogir Hagstofunnar þá er breytingin 2,8% (bensín vegur þyngra en dísel sem dregur niður meðaltalið) sem hefur um 0,09% áhrif á vísitöluna til hækkunar. Undanfarnar vikur hefur verð á bensíni og hráolíu verið að lækka á erlendum mörkuðum en verð á bensíni í New York, reiknað í krónum, er nánast óbreytt m.v. síðustu mælingarviku Hagstofunnar.

Mæling á þróun flugfargjalda bendir til um 5,8% hækkunar á flugfargjöldum frá því í maí, sem hefur +0,08% áhrif á vísitöluna til hækkunar. Undanfarin 6 ár hefur flugliðurinn hækkað í júní þegar háönn ferðaþjónustunnar gengur í garð og ferðamannastraumurinn þyngist. Hækkunin hefur verið að meðaltali um 9,6%. Lægst var júní-hækkunin árið 2015, eða um 2,35%, en annars hefur hækkunin aldrei farið niður fyrir 9,3% á þessu 6 ára tímabili. Tölfræðilíkanið okkar spýtti út spá upp á 17% hækkun í júní, en módelið styðst við undirliggjandi lækkunarferil og reynslu á sveiflum innan ársins. Áhættan er því upp á við, það er að segja að niðurstaða Hagstofunnar verði hærri heldur en mæling okkar á flugliðnum gefur til kynna.

Heimildir: bensinverd.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignaverð ræður áfram ferðinni

Undanfarið höfum við bent á tengsl á milli 12 mánaða meðaltali fjölda kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu og ársbreytingar á fasteignaverði. Samkvæmt fjölda samninga með húsnæði á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum 12 mánuðum, hefði fjölbýli átt að hækka um 10% og sérbýli um 15% undanfarna 12 mánuði. Taka þarf fram að tengsl á milli fjölda kaupsamninga og verðbreytinga er talsvert sterkara í tilfelli fjölbýlis en sérbýlis. Raunin er hinsvegar sú að samkvæmt mælingu Hagstofunnar hefur verðið staðið í stað í undanfarna mánuði. Verð fjölbýlis hefur hækkað um 5% og verð sérbýlis um 8,8% undanfarna 12 mánuði.

Annar leiðandi vísir um þróun fasteignaverðs er auglýst ásett verð. Undanfarna sex mánuði hefur ásett verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hækkað. Lægsta ásetta verð undanfarinna 12 mánaða var í nóvember en hefur síðan þá hækkað um 5%. Verðið er reiknað m.v. fermetraverð á fjölbýli og vægi póstnúmera fer eftir íbúafjölda. Þessir útreikningar eru hinsvegar ekki gæðaleiðréttir. Ef við skiptum eignum í tvo flokka, þ.e. fjölbýli með byggingarár innan við 10 ár við birtingu auglýsingar annars vegar og hinsvegar með byggingarár eldra en 10 ár frá birtingu, þá fæst önnur mynd. Ásett verð eldri eignanna hefur staðið í stað m.v. fyrri hluta 2017 á meðan ásett fermetraverð nýs fjölbýlis hefur hækkað í miklum sveiflum. Ásett fermetraverð nýs fjölbýlis hefur þannig hækkað um 11,9% á einu ári en verð eldra fjölbýlis einungis um 2,5%. Þetta skiptir máli því Hagstofan gæðaleiðréttir ekki í sínum útreikningum á þróun fasteignaverðs þannig að ef hlutfallslega mikið af eldri eignum er þinglýst nokkra mánuði í röð þá er mælingin líkleg til að detta niður og lækka 12 mánaða taktinn. Við vitum ekki hvort þessi skýring sé ástæðan fyrir því að hækkun fasteignaverðs gengur hraðar niður en við gerðum ráð fyrir . Ef þetta er raunin þá getum við áfram gert ráð fyrir talsverðu flökti í mælingum á þróun fasteignaverðs.

Í okkar spá gerum við ráð fyrir að 12 mánaða taktur fasteignaverðsþróunar sé 5% til hækkunar, sem ætti að þýða 0,41% hækkun á mánuði eða 0,09% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Hagvöxtur er enn talsverður, laun eru enn að hækka, ásett verð eru að hækka og því er fátt sem bendir til að fasteignaverð sé ekki að hækka líka, þó mælingar Hagstofu hafi mælt lækkandi fasteignaverð á landinu í undanförnum tveimur mælingum. Líklegt er því að þessi liður geti komið á óvart til hækkunar á næstu mánuðum.

Heimildir: fasteignir.is, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá:

Við teljum að árstakturinn sveiflist í kringum verðbólgumarkmið fram á sumar en fari síðan í um 3% í haust. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Seðlabankinn hefur hækkað sína spá fyrir þriðja ársfjórðung 2018 úr 2,6% í 2,9% verðbólgu (12 mánaða taktur). Þegar líða tekur á sumarið hækka flugfargjöld og ná sínum hæstu hæðum í júlí og verð á hótelgistingu er líklegt til að hækka frá því í maí þar til í ágúst og lækka síðan í verði í september. Í haust skella síðan á árstíðabundnar endurskoðanir á verðskrám sem iðulega leiða frekar til verðhækkana en lækkana.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júlí -0,2%: Húsnæði og flugfargjöld hækka, útsölur skella á
  • Ágúst 0,45%: Húsnæði hækkar, flugfargjöld lækka, útsölur ganga að hluta tilbaka
  • September 0,45%: Ýmsar reglulegar hækkanir að hausti, útsölur ganga að fullu tilbaka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka