Óbreyttir stýrivextir og tíðindalítil yfirlýsing

Óbreyttir stýrivextir og tíðindalítil yfirlýsing

Eins og við var að búast var fátt sem kom á óvart í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var í morgun. Yfirlýsingin er að miklu leyti svipuð yfirlýsingu nefndarinnar frá því í maí. Á þeim fundi voru allir meðlimir nefndarinnar þeirrar skoðunar að rétt væri að halda stýrivöxtum óbreyttum. Veiking krónunnar á undanförnum vikum er að þessu sinni nefnd á nafn, en annars er talað um að gjaldeyrismarkaðurinn sé í ágætu jafnvægi og að verðbólguvæntingar virðist vera í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans. Undanfarnar verðbólgubirtingar hafa verið undir spám greiningaraðila sem stutt hefur við þessa fullyrðingu. Þá kom einnig fram í yfirlýsingu nefndarinnar að þrátt fyrir að hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi hafi verið aðeins meiri en bankinn gerði ráð fyrir hafi þróunin á fjórðungnum í meginatriðum verið í samræmi við spá bankans.

Heimild: Hagstofa Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Í fyrirspurnartíma að lokinni yfirferð á yfirlýsingu nefndarinnar nýttu greiningaraðilar tækifærið og spurðu seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra út í skoðanir þeirra á nýbirtri skýrslu nefndar um endurmat á ramma peningastefnunefndar. Nánar tiltekiðvoru þeir inntir eftir viðbrögðum um að birta stýrivaxtaspá samhliða birtingu Peningamála (1), hvort sleppa ætti húsnæðisliðnum úr verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2) og að lokum hvort bankinn ætti að birta hvert hann teldi að jafnvægisraungengi krónunnar væri (3). Seðlabankastjóri hafði á orði að nú þyrfti að fara í gang aukin umræða um tillögur nefndarinnar á opinberum vettvangi. Hafa ber í huga að hér leggjum við fram mat okkar á svörum æðstu stjórnenda Seðlabankans og vísum við áhugasömum á að hlusta á upptökuna af fundinum.

  1. Ekki var að heyra á svörum bankastjóra að hann teldi skynsamlegt að hefja birtingu á stýrivaxtaspá bankans og að erlendu sérfræðiráðgjafar nefndarinnar hafi ekki lagt það til. Lars Jorung og Frederik Andersen hafi bent á það að birting vaxtaferils hafi haft ruglandi áhrif á skilaboð peningastefnunnar í Svíþjóð.
  2. Seðlabankastjóri sagði að það væru ýmsir liðir í verðbólgumælingum sem að vextir Seðlabankans hefðu lítil eða engin áhrif á, t.d. olíuverð. Það hefði samt aldrei komið til tals að sleppa þeim lið úr mælingu á verðbólgu sem bankinn ætti að horfa til. Það væru sterk hagfræðileg rök fyrir því að vera með einhverskonar mælingu á húsnæðiskostnaði þó íhuga mætti hvort að flöktið væri of mikið í núverandi mælingaraðferð. Fasteignaverð ætti það til að þróast með hagsveiflunni, þ.e. hækka þegar stýrivextir væru háir og öfugt og því samrýmdist það ágætlega þeim tækjum sem bankinn hefði til ráðstöfunar. Peningastefnunefnd myndi leggja mat á það hverju sinni hvaða verðbreytingar væri skynsamlegt að horfa framhjá við ákvörðun vaxtastigs.
  3. Seðlabankinn hefur um hríð verið að velta fyrir sér að birta meiri gögn um greiðslujöfnuð í sértækri reglulegri skýrslu og þar gæti meðal annars komið fram mat bankans á hvert jafnvægisraungengið væri. En mikil óvissa er um hvert það er og birtingin yrði ávallt með einhverju fráviksbili. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mæti það sem svo að hækkun raungengis undanfarin ár væri studd af undirliggjandi efnahagsstærðum og það væri einnig mat bankans.  Aðstoðarseðlabankastjóri, sem sat sinn síðasta vaxtaákvörðunarfund, bætti við að það væru til fleiri en ein skilgreining á jafnvægiraungengi og nefndi dæmi; í fyrsta lagi skemmri tíma jafnvægisraungengi sem tæki meira mið af þróun nafngengis og þekktu flæði á markaðnum og slíkt jafnvægisraungengi væri hægt að nýta til að taka ákvörðun um inngrip í gjaldeyrismarkaðinn og síðan annarsvegar lengri tíma jafnvægisraungengi sem horfir meira framhjá þróun nafngengis og tæki frekar mið af væntri þróun hagstærða.