Spáum Íslandi áfram í 16-liða úrslit

Spáum Íslandi áfram í 16-liða úrslit

Hvaða lið verður heimsmeistari? Kemst Ísland áfram í 16. liða úrslitin? Ef þinn vinnustaður er eitthvað eins og vinnustaður Greiningardeildar eru þetta líklega tvær algengustu spurningar sem spurðar hafa verið við kaffivélarnar undanfarna daga. Líkt og fyrir tveimur árum fór Greiningardeild á stúfana og leitaði svara í undraheimi tölfræðinnar.

Flautað var til leiks á HM í fótbolta í gær með hressandi viðureign Rússlands og Sádi-Arabíu. En fyrir okkur Íslendinga hefst mótið í raun ekki fyrr en um hádegisbilið á morgun þegar við mætum líklega besta knattspyrnumanni sögunnar, Lionel Messi og hans félögum í argentíska landsliðinu. En hvaða þjóð mun standa uppi sem sigurvegari og mun Ísland komast upp úr riðlinum? Þessum spurningum er svarað með aðstoð tölfræðinnar í Markaðspunkti dagsins.

Kannski ekkert mál fyrir Jón Pál, en líklegast smá mál fyrir íslenska landsliðið

Þegar hann var nýbúinn að setja Evrópumet í réttstöðulyftu árið 1982 sagði Jón Páll Sigmarsson hina sögufrægu setningu „Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál“. Það var svo sannarlega innstæða fyrir þessum orðum á þeim tíma enda var Jón Páll á flesta mælikvarða einn sterkasti maður heims. Raunar fékk hann staðfestingu þess efnis aðeins tveimur árum síðar þegar hann hneppti titilinn „Sterkasti maður í heimi“. En hvað lið skyldi vera sterkasta knattspyrnulið í heimi dag og hvar stendur Ísland í þeim efnum?

Til að bera sama styrkleika knattspyrnuliða er stuðst við ýmsa mælikvarða. Einn þeirra er styrkleikalisti FIFA sem Ísland hefur klifið upp jafnt og þétt á undanförnum árum. Í dag situr íslenska landsliðið í 22. sæti styrkleikalistans samanborið við 35. sæti þegar flautað var til leiks á Evrópumótinu 2016. Það er þó annar mælikvarði sem virðist hafa náð að fanga getu landsliða betur en það er ELO-mælikvarðinn, kenndur við eðlisfræðinginn Arpad Elo. Sá mælikvarði var upphaflega notaður til að meta getu skákmanna en var í seinni tíð heimfærður yfir á knattspyrnuheiminn. Þess má geta að FIFA tilkynnti nýverið að aðferðarfræðinni við mat á styrkleikalisti FIFA verði breytt og færð meira í átt að aðferðarfræðinni bakvið ELO-mælikvarðann. ELO stuðull hvers liðs er uppfærður eftir hvern einasta landsleik og við mat á honum er m.a. miðað við gæði mótherja og eðli leiksins. Þannig fá t.d. úrslit vináttuleikja minna vægi en leikja á stórmótum líkt og HM eða EM. Þegar þjóðirnar 32 sem taka þátt á HM í ár eru bornar saman sést að íslenska landsliðið mælist það 20. sterkasta m.v. fjölda ELO-stiga, 15 sætum á eftir Argentínu og sex sætum á eftir Króatíu. Hins vegar erum við sex sætum á undan Nígeríu. Brasilía vermir efsta sæti listans og þykir því sterkasta lið í heimi. Skammt á eftir koma Þjóðverjar í öðru sæti.

 

Heimild: eloratings.net, Greiningardeild Arion banka

Þegar drátturinn í riðlana fór fram þótti okkur í Greiningardeildinni við fyrstu sýn riðillinn okkar með þeim sterkari á mótinu. Aftur á móti, ef heildarfjöldi ELO-stiga okkar riðils (D) borinn saman við aðra riðla kemur í ljós að okkar riðill er í besta falli í meðallagi erfiður. Sterkustu riðlar mótsins eru E-riðill, skipaður Brasilíu, Serbíu, Sviss og Kostaríka, og B-riðill, skipaður Evrópumeisturum Portúgal, Spán, Íran og Marokkó. A-riðill er sá langlakasti en hann inniheldur gestgjafana frá Rússlandi, Sádi-Arabíu, Egyptaland og Úrúgvæ.

Heimild: eloratings.net, Greiningardeild Arion banka

Verðmiðinn segir ekki alla söguna

Sé samanlagður verðmiði þeirra leikmanna sem skipa íslenska landsliðhópinn skoðaður sést að við erum með mjög ódýran hóp í samanburði við mótherja okkar í D-riðli. Heildarmarkaðsverðmæti íslenska hópsins er metið 68 millj. punda sem er með því lægsta sem sést á mótinu. Til samanburðar er nígeríski hópurinn metinn á rúmlega tvöfalt hærri fjárhæð og sá króatíski rúmlega fjórfalt hærri fjárhæð. Þá er argentínski hópurinn metinn á tæplega 630 millj. punda enda með stórstjörnur á borð við Messi, Aguero, Dybala og Higuain innan sinna raða. Heilt yfir eru Frakkar með dýrasta hópinn á mótinu, metinn á 972 millj. punda, en Panama með þann ódýrasta, metinn á 7,6 millj. punda. En með því að bera saman verðmiða hópanna og fjölda ELO stiga sést strax að verðmæti hópsins segir alls ekki fullkomna sögu um styrk liðsins. Ef verðmæti leikmanna myndi ná að lýsa gæðum hópsins fullkomlega ættu punktarnir hér að neðan allir að liggja við brotalínuna. En svo er ekki og má segja að liðin sem eru staðsett norðan við brotalínuna spili „yfir getu“ á meðan að sunnan hennar séu lið að spila „undir getu“. Það kemur lítið á óvart enda er fótbolti hópíþrótt og skiptir liðsheildin öllu máli.

Heimild: transfermarkt.co.uk, Greiningardeild Arion banka

Hvað ungur nemur, gamall temur

Að vera með góða liðsheild er eitt en þegar á stórmót er komið skiptir reynsla oftar en ekki miklu máli. Þó að íslenska landsliðið sé að fara á sitt fyrsta heimsmeistaramót eru flestir leikmenn liðsins með eitt Evrópumót undir beltinu. En reynsla fæst ekki eingöngu með því að taka þátt á stórmótum heldur einnig með aldri og þeim fjölda leikja sem hópurinn hefur spilað saman. Þar virðast okkar menn vera nokkuð vel settir í samanburði við keppinautana. Meðalaldur hópsins er 28,6 ár, rétt yfir meðalaldri mótsins, og hafa íslensku strákarnir samanlagt spilað 922 landsleiki. Króatíski hópurinn hefur samanlagt spilað fimm leikjum meira á meðan að argentínski hópurinn hefur spilað 859 og sá nígeríski aðeins 543. Sé litið til aldurs mótherja má sjá að Argentína er með næstelsta hópinn á mótinu á meðan að meðalaldur nígeríska hópsins er umtalsvert lægri og raunar sá þriðji lægsti á mótinu. Þá eru Króatar einnig undir meðalaldri. Athygli vekur að England og Frakkland eru með yngstu hópana, en hið síðarnefnda er af mörgum talið líklegt til afreka á mótinu.

Heimildir: transfermarkt.co.uk, Greiningardeild Arion banka

Hver mun standa uppi sem sigurvegari?

Með tölfræðina að vopni hefur Goldman Sachs gefið út spá um sigurvegara síðustu fimm heimsmeistaramóta, með misgóðum árangri. Árið 2014 tók bankinn upp úr dótakassanum glænýtt tölfræðilíkan sem náði að spá rétt fyrir um 9 af þeim 16 liðum sem komust áfram í útsláttarkeppnina. Það sem meira er spáði líkanið rétt fyrir um þrjú af fjórum liðum sem komust í undanúrslit mótsins. Þegar þangað var komið brast líkanið hins vegar þegar að heimamenn í Brasilíu, sem var spáð sigri, voru rassskelltir af Þjóðverjum í undanúrslitunum, 1-7.

Fyrir keppnina í ár uppfærði bankinn líkanið sem byggir nú á „vélrænu námi“ (e. machine learning). Reiknað afturvirkt virðist nýja líkanið hafa betri spágetu en það eldra. Samkvæmt nýja líkaninu má rekja um 42% af spágetu þess til ELO-stuðulsins og um 25% til gæða leikmannahópsins. Frammistaða í síðustu leikjum segir til um 10%, frammistaða mótherjanna í síðustu leikjum um 10%, og loks „meðbyr“ liðsins 3%. Þess má geta að Argentína fer inn í mótið með neikvæðan meðbyr samkvæmt líkaninu. Með þessu nýja og endurbætta líkani spáir bankinn því aftur að Brasilíumenn fari með sigur af hólmi og munu Brasilíumenn í þetta skiptið hefna fyrir ófarirnar fyrir fjórum árum og sigra sjálfa Þjóðverja í úrslitaleiknum. Á leið sinni í úrslitin gerir spáin ráð fyrir því að Þjóðverjar sigri Portúgala í undanúrslitum og Brasilíumenn sigri Frakka. Veðbankar og aðrir spáaðilar virðast almennt vera nokkuð sammála spá Goldman Sachs og telja Brasilíska liðið sigurstranglegast á mótinu. Hvað okkur Íslendinga varðar þá er mikil óvissa bundin við spánna hvort Ísland eða Króatía fari áfram. Þó spáir bankinn að Króatar komist áfram með naumindum á markatölu og við Íslendingar því sendir heim 26. júní.

Heimild: Goldman Sachs Global Investment Research, Greiningardeild Arion banka

Ísland fer upp úr riðlinum!

Þrátt fyrir að spá Goldman Sachs geri ráð fyrir því að Ísland sitji eftir í riðlinum er að okkar mati margt sem bendir til þess að niðurstaðan gæti orðið önnur. Í fyrsta lagi, þá hefur íslenska landsliðið talsvert meiri reynslu en það nígeríska og er hærra metið skv. ELO-stuðlinum. Við ættum því að teljast sigurstranglegri í þeim leik. Í öðru lagi hefur króatíska landsliðið verið að missa stig í undanförnum tíu leikjum á móti liðum sem teljast lakari en þau á pappír. Í þriðja lagi ber mjög lítið á milli Íslands og Króatíu samkvæmt spá Goldman. Sérfræðingar bankans telja t.a.m. hlutfallslega meiri líkur á að Ísland fari áfram en spá Króatíu engu að síður áfram og það á markatölu. En ef markatalan er skoðuð nánar var hún hagstæðari hjá Íslandi en Króatíu í undankeppninni ef horft er á lið með 1500 ELO-stig eða meira. Þar að auki blasir við sú ískalda staðreynd að íslenska landsliðið var einfaldlega betra en það króatíska í undankeppninni. Í fjórða lagi virðist vera að Ísland spili best þegar að mótherjarnir eru hvað erfiðastir, á skala ELO-stuðulsins, borið saman við þau lið sem eru með okkur í riðli. Argentínumenn hafa spilað mjög illa að undanförnu, en liðið rétt skreið inn á mótið í Rússlandi, samanber mótbyrinn í líkani Goldman. Í síðustu tíu leikjum sínum í undankeppninni gerði argentínska liðið þrjú jafntefli og tapaði þrisvar, en í þeim leikjum var liðið ávallt talið sigurstranglegra m.v. ELO-stig. Samkvæmt þeirri tölfræði ætti Ísland því að geta komið á óvart í Moskvu. Í fimmta og síðasta lagi, þó það komi líkani Goldman Sachs svo sem ekkert við, þá er það einfaldlega staðreynd að Ísland hefur átt mestri efnahaglegri velgengni að fagna á undanförnum árum, sama hvort það sé litið til verðbólgu, hagvaxtar, atvinnuleysis eða kaupmáttar.

En það er akkúrat þetta sem gerir fótboltann svona skemmtilegan, þ.e. hvað hann er ófyrirsjáanlegur. Við Íslendingar þekkjum það manna best enda frammistaða landsliðinna okkar á undanförnum árum komið heimsbyggðinni allri á óvart. Við í Greiningardeildinni spáum því að karlalandsliðið muni halda áfram að koma á óvart á HM og komist upp úr riðlinum. Eftir það getur allt gerst.

Áfram Ísland!