Verðbólguskot í júní

Verðbólguskot í júní

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,62% á milli mánaða í júní skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 2,6%, úr 2,0% í maí. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,3-0,4% og sýnir mælingin því meiri verðbólgu en opinberar spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir. Við spáðum 0,4% hækkun. Það eru fyrst og fremst mælingar á verði húsnæðis og á flugfargjöldum til útlanda sem reyndust yfir væntingum. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 15,2% (0,20% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir 5,9% hækkun á undirliðnum. Flugfargjöld hækka yfirleitt milli mánaða í júní en að þessu sinni var var hækkunin mun meiri en meðalhækkun flugfargjalda undanfarin fimm ár (9,33%). Flugfargjöld hækka almennt meira í júlí en í júní en undanfarin fimm ár hefur júlí-hækkun flugliðarins verið að meðaltali 15,5%. Það má því allt eins reikna með enn meiri verðbólgu í flugi í næstu mælingu. Hagstofan mælir flugfargjöld á ákveðnum tímapunktum fyrir mælingarviku vísitölunnar og miðar við að flogið sé út fyrir landssteinana í mælingarvikunni. Þ.e. verð miðast við hvenær vörunnar er neytt. Matarkarfan hækkaði um 0,36% (0,04% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir 0,4% hækkun matarkörfunnar. Bensínverð hækkaði um 2,8% en við gerðum við ráð fyrir 2,9% hækkun á milli mánaða. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignajójóið sveiflast upp eftir niðursveiflu í undanförnum tveimur mælingum

Eftir lækkun á mælingu fasteignaverðs undanfarna tvo mánuði hækkar undirvísitalan á ný. Í þetta skiptið hækkar húsnæði á landsbyggðinni mest eða um 2,3%, sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,7% og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,6%. Tólf mánaða taktur fasteignaverðs heldur áfram að lækka á höfuðborgarsvæðinu (fjölbýli 3,84% en var 5,0% fyrir mánuði, sérbýli 8,6% en var 8,8% fyrir mánuði) en tólf mánaða taktur fasteignaverðs á landsbyggðinni hækkar í 16,0% eftir að hafa lækkað undanfarna mánuði. Við sögðum í verðbólguspá okkar fyrir júní að fasteignaliðurinn gæti komið á óvart upp á við. Mæling Hagstofunnar fer eftir þriggja mánaða meðaltali kaupsamninga. Okkar mælingar á ásettu verði benda til þess að verð tiltölulega nýrra fjölbýliseigna hafi hækkað frá áramótum en ásett verð íbúða í byggingum eldri en 10 ára hafa lækkað á sama tíma. Þar með ættu mikil viðskipti með eldri íbúðir að stuðla að lækkun í verðmælingu Hagstofunnar en því væri öfugt farið ef mikið er um viðskipti með nýlegar íbúðir.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Áhrif innflutningsverðlags (innfluttar vörur án áfengis og tóbaks) er í fyrsta skiptið jákvætt, þ.e. hækkar tólf mánaða takt verðbólgunnar, frá því í desember 2013, og hefur 0,14% áhrif á verðbólguna til hækkunar. Áhrif innfluttrar verðhjöðnunar hafa verið að minnka undanfarna tólf mánuði eftir að hafa haft allt að 2,22% áhrif til lækkunar á tólf mánaða verðbólgu í maí 2017. Samtímis hafa áhrif frá hækkun fasteignaverðs farið minnkandi og 1,58% (af 2,6% ársverðbólgu) er vegna hækkunar fasteignaverðs. Áhrifin voru mest 4,91% í júlí á síðasta ári. Þessi þróun í fullu samræmi við væntingar og mjög heppilegt að þessir tveir veigamiklu liðir togi sitt í hvora áttina.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Greiningardeildin tekur mánaðarlega saman allar verðbólguspár og undanfarið höfum við búið til töflu sem sýnir breiddina í verðbólguspánum með því reikna hver verðbólgan ætti að vera ef við notum hæstu spá fyrir hvern undirlið fyrir sig og hver verðbólgan ætti að vera ef notuð er lægsta spá fyrir hvern undirlið. Einungis eru notaðar spár fyrir undirlið og ef greiningaraðili spáir ekki fyrir undirvísitölu þá er ekki gert ráð fyrir að spáin sé 0% heldur einfaldlega sleppt. Ef við reiknum hver verðbólgan hefði átt að vera með því að nota hæstu spá fyrir hvern undirlið, þá hefði spáin hljóðað upp á 0,62% sem er nákvæmlega mæling Hagstofunnar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greining Íslandsbanka, Hagfræðideild Landsbankans, Capacent, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar sveiflist næstu mánuði, lækki í næsta mánuði vegna sumarútsala en flugliðurinn ætti að hækka skarpt ef hann hagar sér eins og í júlí undanfarin ár. Síðan ganga útsölur til baka en flugliður fer síðan lækkandi þegar fer að hausta. Þar sem hækkun fasteignaliðar var meiri nú en við erum að gera ráð fyrir í grunnspánni, þá kæmi það okkur ekki á óvart ef liðurinn myndi hækka minna næstu mánuði en við vorum að gera ráð fyrir í bráðabirgðaspánni. Krónan hefur verið að veikjast og áhrifa ætti að gæta á vörum sem hafa hvað mesta veltu.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júlí -0,2%: Húsnæði og flugfargjöld hækka, útsölur skella á
  • Ágúst 0,45%: Húsnæði hækkar, flugfargjöld lækka, útsölur ganga að hluta tilbaka
  • September 0,45%: Ýmsar reglulegar hækkanir að hausti, útsölur ganga að fullu tilbaka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka