„It´s coming home“ – Verðbólgan á leið til Íslands?

„It´s coming home“ – Verðbólgan á leið til Íslands?

Nú þegar Englendingar eru komnir í undanúrslit í heimsmeistarakeppninni þá dreymir marga fótboltaáhangendur um að titillinn sé á leið til landsins sem fótboltinn er upprunninn. Rætur verðbólgu í íslenskri þjóðarsál eru næstum eins djúpar og rætur fótboltans í enskri þjóðarsál. Þannig var verðbólga á Íslandi 12% í júlí 1966 um það leyti sem Englendingar hömpuðu HM-titli í fyrsta og eina sinn. Þó verðbólga sé enn lág í sögulegu samhengi og tólf mánaða taktur verðbólgunnar undir þriggja prósenta markinu, þá eru vísbendingar um að hún stefni þangað næstu mánuði og verði komin yfir þrjú prósent í haust, og það áður en kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði hafa farið í gang. Verðbólgusýn okkar eru því miður dekkri en HM-draumur enskra. 
Við spáum 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs í júlí sem er hærra en bráðabirgðaspá okkar fyrir hálfum mánuði gerði ráð fyrir. Samkvæmt spánni hækkar tólf mánaða taktur verðbólgunnar í 2,7% úr 2,6% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna 3. til 9. júlí og niðurstaðan verður birt mánudaginn 23. júlí.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Helstu áhrifaliðir á verðbólguna í júlí eru gamlir kunningjar, flugfargjöld og húsnæðisverð. Bensínverð breytist sáralítið þennan mánuðinn sem kemur kannski á óvart m.v. fréttir erlendis frá. Mikið hefur borið á umræðu um hækkun olíuverðs og þar hefur forseti Bandaríkjanna m.a. gagnrýnt OPEC ríkin fyrir að framleiða ekki meira.  Bæði hefur bensínverð, t.d. í New York, ekki hækkað jafn mikið og verð á olíu og þá hefur krónan styrkst á móti USD á sama tíma, sem leitt hefur til þess að bensínverð í krónum hækkar minna en verðhækkun olíu gefur til kynna. Bensínverð mælt í krónum hefur t.d. hækkað um 3,7% frá 11. júní á sama tíma og olíutunnan hefur hækkað um 10,8%.  Mæling okkar bendir til þess að bensín- og díselverð hafi staðið í stað frá því í síðustu mælingarviku. Undanfarin fjögur ár hefur flugliðurinn í júlí hækkað um að meðaltali 20% í júlí. Við höllumst að því að hækkunin í ár verði svipuð eða í kringum 20%.  Samkvæmt Hagstofunni hefur verð á flugfargjöldum lækkað um 7,5% frá því í desember þrátt fyrir hækkun olíuverðs og launa.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignaverð ræður áfram ferðinni

Fyrir dygga lesendur Markaðspunkta Greiningardeildar Arion banka er það eflaust ekkert nýtt að við fylgjumst með þróun fasteignamarkaðarins með því að skoða þróun ásetts fermetraverðs í fasteignaauglýsingum. Þróun ásetts verðs hefur undanfarin ár verið ágætur mælikvarði á þróun fasteignaverðs. Ásett verð í fasteignaauglýsingum hefur hækkað nokkurn veginn í takt við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá í mars 2014. Á tímabilinu frá mars 2014 til apríl 2018 hefur ásett fermetraverð í fasteignaauglýsingum á höfuðborgarsvæðinu (vigt: 80% fjölbýli, 20% sérbýli) hækkað um 52%. Á sama tíma hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 52,9%.

Heimildir: fasteignir.is, Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sögulega virðist vísitala íbúðaverðs fylgja nokkuð vel eftir breytingum á ásettu verði. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá útreikninga á ársbreytingu í óreglulegum mælingum Greiningardeildar Arion banka á ásettu verði og til hliðsjónar er breyting á vísitölu íbúðaverðs fyrir sama tímabil. Meðalársbreyting á tímabilinu er 11,0% fyrir ásett fermetraverð og 11,1% fyrir vísitölu íbúðaverðs. Tólf mánaða taktur ásetts verðs stendur í 2,5% fyrir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu en á sama tíma og vísitalan hefur hækkað um 2,8%.  Undanfarið hefur fasteignaverð á landsbyggðinni og sérbýli hækkað umfram fjölbýli og gerum við ráð fyrir að svo verði áfram á næstunni. Því gerir spáin ráð fyrir um 4% hækkun á reiknaðri húsaleigu en árstaktur undirliðarins nam 6,6% í síðustu mælingu en árstakturinn hafi farið lækkandi undanfarin misseri.

Bráðabirgðaspá:

Við teljum að árstaktur vísitölu neysluverðs sveiflist fyrir ofan verðbólgumarkmið, en þó haldist innan vikmarka, fram á sumar en bráðabirgðaspáin gerir ráð fyrir að árstakturinn fari yfir 3% í haust. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Flugfargjöld ná sínu hæsta gildi í júlí en fara síðan lækkandi fram á haust. Verð á hótelgistingu er líklegt til að rísa hæst í júlí en taki síðan að lækka í september. Í haust skella síðan á árstíðabundnar endurskoðanir á verðskrám sem iðulega leiða frekar til verðhækkana en lækkana. Í september verður tekinn upp nýr mengunarstaðall fyrir bíla (VLTP). Nýi staðallinn er nákvæmari en eldri staðallinn sem vanmat koltvísýringsútblástur fyrir margar bílategundir. Nýr staðall leiðir til þess að margar tegundir bíla verði færðar upp um tollflokk og við innflutning þurfi síðan að greiða hærri vörugjöld en hingað til.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Ágúst 0,4%: Húsnæði og matarkarfa hækkar, flugfargjöld lækka, útsölur ganga að hluta tilbaka
  • September 0,4%: Ýmsar reglulegar hækkanir að hausti, útsölur ganga að fullu tilbaka
  • Október 0,2%: Flugfargjöld hækka

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka