Húsnæðisverð ferðast með flugi í sumar

Húsnæðisverð ferðast með flugi í sumar

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,04% milli mánaða í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar þar með í 2,7%, úr 2,6% í júní. Þróun vísitölunnar er í ágætu samræmi við spár greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0,2% lækkun til 0,1% hækkun milli mánaða. Við spáðum 0,1% hækkun. Líkt og svo oft áður var húsnæðisverð að stríða okkur og hækkaði það töluvert meira en við gerðum ráð fyrir, en einnig var púki í matarkörfunni sem lækkaði þvert á væntingar okkar. Það virðist sem aukinn skriðþungi sé að færast í undirliggjandi verðbólgu í ljósi þess að án húsnæðisliðarins mælist 1,4% verðbólga, samanborið við 1,1% í júní. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem árstaktur vísitölunnar án húsnæðisverðs hækkar, eftir 22 mánaða samfellda verðhjöðnun þar áður.

Líkt og titillinn á Markaðspunktinum gefur til kynna voru það gamalkunnir félagar er drifu verðbólguna áfram í júlí; húsnæðisverð og flugfargjöld. Flugfargjöld hækka alla jafna yfir sumartímann þegar háannatími ferðaþjónustunnar gengur í garð og var engin undantekning þar á núna. Alls hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 23% (+0,3% áhrif á VNV), sem kemur beint á hæla 15,5% hækkunar í júní. Þrátt fyrir töluverðar hækkanir að undanförnu eru flugfargjöld um 13% lægri en fyrir ári síðan. Helsta frávikið frá okkar spá má rekja til reiknaðrar húsaleigu sem hækkaði um 1,1% milli mánaða (+0,22% áhrif á VNV). Á móti flugfargjöldum og húsnæðisverði vógu útsölur, en föt og skór lækkuðu um 11,3% (-0,4% áhrif á VNV).

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð hækkar – aftur

Eftir lækkun í apríl og maí hefur húsnæðisverð hækkað í júní og júlí. Í nær öllum þessum tilfellum hefur húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins verið í aðalhlutverki, þó sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi einnig átt hlut að máli. Það mætti í raun líkja þróun húsnæðisverðs utan höfuðborgarsvæðisins við skopparabolta, líkt og myndirnar hér að neðan gefa til kynna. Að þessu sinni hækkaði húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins um 3,3%, einbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,2% en fjölbýli aðeins um 0,3%. Árstaktur húsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins lækkaði engu að síður milli mánaða og stendur nú í 14,2%. Á hinn bóginn hélt árstaktur einbýlis áfram að hækka, annan mánuðinn í röð, og stendur nú í 9,8%.

Hvað varðar þróun húsnæðisverðs á næstu misserum teljum við ólíklegt að við munum sjá fram á almennar lækkanir, þó auðvitað geti vísitalan sveiflast á milli mánaða. Útlit er fyrir áframhaldandi gott efnahagsástand, kaupmáttaraukningu og fólksfjölgun, þó vissulega hafi hægt á öllum þessum þáttum. Þá er útlit fyrir að nokkuð magn af nýjum eignum taki að trítla inn á markaðinn en það er fyrst og fremst nýtt húsnæði á markaðnum sem skýrt hefur hækkun fasteignaverðs að undanförnu, líkt og við fjölluðum um í Markaðspunkti síðustu viku. Á sama tíma hafa eldri eignir staðið í stað eða lækkað í verði. Mæling Hagstofunnar fer eftir þriggja mánaða meðaltali kaupsamninga, svo ef viðskipti með nýjar íbúðir eru hlutfallslega mikil þá ætti það að öðru óbreyttu að koma fram í mælingum Hagstofunnar.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Allir í plús, enginn í mínus

Líkt og síðustu mánuði og ár er það húsnæðisverð sem er að drífa áfram verðbólguna um þessar myndir. Hingað til hafa innfluttar vörur vegið á móti, sem og innlendar vörur og grænmeti um tíma. Nú er hinsvegar svo komið að samsetning verðbólgunnar er að breytast. Vissulega er húsnæðisverð ennþá í bílstjórasætinu en í stað þess að vinna á móti þá hafa innfluttar vörur lagst á sveif með innlendum verðbólgukröftum undanfarna tvo mánuði. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem framlag innfluttra vara til verðbólgunnar er jákvætt, eftir fjögur og hálft ár í mínus. Að okkar mati er lítil sem engin innstæða fyrir gengisstyrkingu og teljum við líklegra að krónan taki að gefa eftir á næstkomandi mánuðum ef eitthvað. Undirliðirnir munu því halda áfram að standa saman á næstunni, allir í plús.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Stígandi verðbólga með haustinu

Bráðabirgðaspá okkar hefur lítið breyst milli mánaða. Við teljum að árstaktur vísitölunnar hafi misst áhuga á verðbólgumarkmiði Seðlabankans að svo stöddu og daðri fremur við 3% á næstunni. Þetta er í góðu samræmi við hagspá okkar frá því í apríl, en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan stígi ofar á næsta ári og nálgist vikmörk verðbólgumarkmiðsins þegar líða tekur á árið. Líkt og áður segir er ýmislegt sem bendir til þess að skriðþungi verðbólgunnar sé að aukast og muni halda áfram á næstunni. Í haust skella á árstíðabundnar endurskoðanir á verðskrám sem iðulega leiða frekar til verðhækkana en lækkana.

Ef horft er lengra fram í tímann þá er líklegt að komandi kjarabarátta verði hörð, eitthvað sem getur kynt enn frekar undir verðbólgunni. Ofan í hækkandi laun og ólgu á vinnumarkaði mun nýtt fasteignamat á atvinnuhúsnæði taka gildi um áramótin, eitthvað sem að öllum líkindum mun hækka leigu atvinnurekenda. Líkt og við höfum áður fjallað um er að okkar mati lítið svigrúm til staðar hjá atvinnurekendum til að taka á móti þessum kostnaðarhækkunum, sem þýðir að áhrif þeirra munu að öllum líkindum leita út í verðlag.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Ágúst 0,4%: Húsnæði og matarkarfan hækka, útsölur ganga að hluta til baka, flugfargjöld lækka.
September 0,5%: Ýmsar reglulegar hækkanir að hausti, útsölur ganga að fullu til baka.
Október 0,3%: Flugfargjöld hækka.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka