0,3% hækkun VNV í ágúst - óbreyttur árstaktur í 2,7%

0,3% hækkun VNV í ágúst - óbreyttur árstaktur í 2,7%

Við spáum 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í ágúst, sem er eilítið minni hækkun en bráðabirgðaspá okkar gerði ráð fyrir. Bráðabirgðaspáin hljóðaði upp á 0,4% hækkun. Samkvæmt henni stendur ársverðbólgan í stað í 2,7% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna 8. til 14. ágúst og mælingin verður birt miðvikudaginn 30. ágúst. Helstu áhrifaliðir á verðbólguna í ágúst eru lesendum og öðru áhugafólki um verðbólguna vel kunnir. Til hækkunar má helst nefna sumarútsölur sem ganga tilbaka, en aðrir liðir sem hækka eru fasteignaverð, ýmsar innfluttar vörur, matvæli, hótel og veitingastaðir. Á móti vegur að flugfargjöld lækka umtalsvert eins og þau gera venjulega í ágúst.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðáhrif útsala á fatnaði í júlí voru aðeins meiri en meðaltal undanfarinna ára en á sama tíma voru útsöluáhrif á húsgögnum og skóm minni en árin á undan. Útsöluáhrif fatnaðar og skóa ganga venjulega tilbaka að mestu í ágúst-september á meðan útsöluáhrif húsgagna ganga tilbaka að fullu í næsta mánuði á eftir. Við gerum því ráð fyrir að heilt yfir megi vænta að útsöluáhrif í ágúst verði í takti við undanfarin ár, eða um 0,22% til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Úr hallæri í hetju: Flugfargjöld lækka og eldsneyti stendur í stað

 

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Mælt í krónum þá hefur bensínverð á hrávörumörkuðum í New York lækkað um 2% m.v. byrjun júlí.  Mæling okkar bendir til að þess að verð á bensíni og dísel við dælur hér á landi hafi staðið í stað á milli mánaða. Flugfargjöld lækka í ágúst og benda mælingar sem og tölfræðilíkanið til lækkunar á flugfargjöldum um 12% í ágúst. Búast má við enn meiri lækkun á verði flugfargjalda í september en í ágúst. Undanfarin ár þá hafa flugfargjöld lækkað skarpt í ágúst-september.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hækkun hækkar eftir hökt

Ásett verð í fasteignaauglýsingum hefur hækkað nokkurn veginn í takt við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá mars 2014. Árstaktur ásetts fermetraverðs í fjölbýli hóf að lækka í upphafi árs 2017 og fór lægst, samkvæmt okkar mælingum, í apríl á þessu ári. Síðan þá hefur árstakturinn farið hækkandi og stendur nú í 4,2%. Til samanburðar þá hefur vísitala markaðsverðs fjölbýlis, sem Hagstofan birtir samhliða vísitölu neysluverðs, hækkað um 2,6% undanfarna 12 mánuði og hefur takturinn einnig farið lækkandi síðustu misseri. Ásett fermetraverð fjölbýlis gefur ákveðna vísbendingu um að árstakturinn sé hærri en sem nemur mælingu Hagstofunnar og reiknum við því með að árstaktur Hagstofunnar fari að hækka á ný. Hagstofan reiknar verð úr þinglýstum kaupsamningum og því eðlilegt að ásett verð leiði.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Árstaktur ásetts verðs sérbýlis sem og árstaktur vísitölu markaðsverðs fyrir sérbýli hefur farið lækkandi frá lok árs 2017. Árstaktur vísitölunnar er enn hár eða tæplega 10% en þróun ásetta verðsins bendir til þess að árstakturinn haldi áfram að lækka. Samandregið bendir þróun ásetts verðs til þess að fasteignaverð sé enn að hækka þó að árstakturinn hafi lækkað undanfarna mánuði og að fasteignaverð (reiknuð húsaleiga) hafi áfram áhrif á verðbólguna til hækkunar.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í verðbólguspánni fyrir ágúst gerum við heilt yfir ráð fyrir að fasteignaverð hækki um 0,4% , eða 4,9% á ársgrundvelli. Í uppfærðri hagspá Greiningardeildar frá því í júlí er gert ráð fyrir að fasteignaverð hækki um 6,3% árið 2018 og 4,1% árið 2019. Frá áramótum hefur fasteignaverð samkvæmt Hagstofunni hækkað um 4,4%, sem þýðir að ef fasteignaverð hækkar um 0,4% á mánuði út árið þá nemur hækkun ársins 7%, sem er rétt yfir fasteignaspánni.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Köttur úti í mýri, úti er ævintýri

Við teljum að verðbólguævintýrinu sé lokið í bili og að árstakturinn verði í kringum 3% næstu mánuði. Þetta er í samræmi við hagspána okkar en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum 3% í lok árs. Flugfargjöld ná alla jafna sínu hæsta gildi í júlí en fara síðan lækkandi fram á haust. Verð á hótelgistingu er líklegt til að hækka fram í ágúst og lækka síðan í verði í september. Í haust skella síðan á árstíðabundnar endurskoðanir á verðskrám sem iðulega leiða frekar til verðhækkana en lækkana. Í september verður tekinn upp nýr mengunarstaðall fyrir bíla (VLTP). Nýi staðallinn er nákvæmari en eldri staðallinn sem vanmat koltvísýringsútblástur fyrir margar bílategundir. Nýr staðall leiðir til þess að margar tegundir bíla verði færðar upp um tollflokk og við innflutning þurfi síðan að greiða hærri vörugjöld en hingað til. Ef ekki verður gripið til mótvægisaðgerða eða innleiðingunni frestað, þá má gera ráð fyrir allt að 25-30% hækkun á verði nýrra bíla að mati Bílagreinasambandsins. Bílar vega rúmlega 8% í vísitölu neysluverðs og slík hækkun á verði bíla myndi því hafa 2,0-2,4% áhrif á vísitöluna til hækkunar. Þar sem áhrifin myndu að óbreyttu verða þetta mikil, er ólíklegt að ekki verði gripið til mótvægisaðgerða eða innleiðingu frestað.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • September 0,35%: Ýmsar reglulegar hækkanir að hausti, útsölur ganga að fullu tilbaka
  • Október 0,4%: Flugfargjöld hækka eftir árstíðabundna lækkunarsveiflu og því má búast við meiri hækkun vísitölu neysluverðs en mánuðina á undan ef undirliggjandi hækkun annarra undirliða helst óbreytt
  • Nóvember -0,05%: Flugfargjöld lækka en annars rólegur verðbólgumánuður

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka